07.12.1934
Neðri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1990)

33. mál, skipulagsnefnd atvinnumála

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég gerði grein fyrir atkv. mínu um þá till., sem nú var borin undir deildina, eins og hv. dm. hafa heyrt. En ég tel rétt að gera nokkru nánari grein fyrir afstöðu minni, svo að enginn geti verið í vafa um, að með atvgr. þeirri, sem hér fór fram gegn settum lögum, var verið að gera tilraun til að beita minni hl. alveg óforsvaranlegu ofbeldi. Skilyrði til að slíkt sem þetta megi bera undir atkv., er það, að umr. um málið hafi keyrt úr hófi fram. Ef svo er eigi að dómi forseta verður það a. m. k. að vera skilyrði fyrir hverjum þeim dm., sem slíka till. ber fram eða greiðir henni atkv. Nú hafa umr. um þetta mál farið svo fram, að frsm. hefir talað tvisvar sinnum og því aðeins notað sinn rétt, án þess þó að nota rétt sinn til athugasemda. Annar nm. hefir talað tvisvar og þannig aðeins notað sinn skýlausa rétt. Auk mín hefir ekki talað nema einn stj.andstæðingur, hv. 6. þm. Reykv., aðeins einu sinni, og 1 stjórnarliði, hv. þm. Hafnf., haldið 2 ræður. Þeir, sem eru jafnkunnugir þingsköpum og umr. eins og hv. þdm., vita, að ekki er nokkur leið að halda því fram, að hér sé verið að teygja eða toga umr. úr hófi fram. Það er því alveg bert, að með kröfu um að skera niður umr. nú, skirrist stj.liðið ekki við að beita minni hl. d. ofbeldi, ef tækifæri gefst. En þó að þeir gætu ekki komið því fram, var tilgangurinn sá sami. En það var í rauninni enn ógeðslegra vegna þess, að þeir höfðu ekki mátt til að koma því fram. En það lýsti engu að síður óskammfeilni heimsku og ófyrirleitni. (Forseti hringir). Hæstv. forseti var heldur seinn, því ég var búinn að segja það, sem ég ætlaði.

Get ég þá snúið mér að því, í fyrsta sinni í umr., að segja nokkur orð um frv. Er það nú komið til 3. umr. án þess að ég hafi talað í málinu. Ég minnist þess, að því var haldið fram við 1. umr., að skipun skipulagsnefndarinnar hefði ekki verið tekið þannig af Sjálfstfl., að ástæða hefði verið til þess, að ætla honum mann í n., eða að hann vildi taka þátt í störfum hennar, sízt á þann hátt, að gagn mætti að verða. En ég segi fyrir mig að því leyti, sem ég hefi látið í ljós skoðun mína um tilgang n. og störf, — sem ég mun hafa gert hér í sambandi við annað mál — að ég hefi aðra skoðun á því en margir samflokksmenn mínir og gildir það um afstöðu þá, sem ég tók upphaflega til skipunar n. En ég játa, að undir umr. hefir skoðun mín nokkuð breytzt. Mín skoðun var sú, þegar ég upphaflega sá það ákvæði í 4 ára áætluninni, að skipa svona n., að það væri aðeins gert eins og títt er hjá sósíalistum til þess að hafa agn á önglinum, sem gengi í fólkið, og svo ekki meir. Ég þekki slíkt ákaflega vel frá bæjarstjórnar- og þingkosningum. Síðast þegar bæjarstjórnarkosningar fóru fram hér í Rvík í byrjun ársins, minnist ég, hvernig þeir beittu þá öngulinn. Þá ætluðu þeir að kaupa 10 nýja togara og sýna fólkinu, hvernig þeir færu að útrýma atvinnuleysinu með því að bæta 10 togurum við fiskiskipaflotann. En þetta reyndist eins og vita mátti ekki annað en gott agn, sem beitt var við kosningarnar, sem enginn hugur fylgdi. Sýnir það sig bezt á því, að á aukaþinginu síðasta báru þeir fram frv., sem nú er látið detta máttlaust niður á milli stj.flokkanna og enginn þm. sósíalistanna hefir látið sér detta í hug að taka upp, nú þegar þeir hafa aðstöðu til að koma því fram. Er því auðséð, að það hefir aldrei annað verið en meiningarlaust kosningaskrum. Með þessum forsendum þóttist ég hafa ástæðu til að ætla, að þessi liður í 4 ára áætluninni væri ekki annað en venjulegt kosningaskrum, sem aldrei væri ætlað að bera árangur. Þetta lá því nær og ég gerði þeim mun minni kröfur sem flokkurinn bjóst ekki við að fá þá aðstöðu að verða krafinn efnda. En nú fór svo, að þeir fengu þá aðstöðu að mega búast við, að kjósendurnir krefðu þá efnda, og að þeir yrðu að einhverju leyti að standa við loforð sín. Það var alveg dásamleg fyrirhyggja hjá sósíalistum, hvernig þeir fóru eins og köttur kringum heitan graut um sitt aðalstefnuskráratriði — þjóðnýtinguna. Ég minnist, að ég heyrði hv. þm. Hafnf. lýsa yfir, að hann ætlaði að koma á einhverju rjómafyrirkomulagi, en hafði aldrei tíma til að gera grein fyrir, hvernig þetta mætti ske, jafnvel þó hann væri krafinn um það. Var það sannarleg fyrirhyggja að koma sér undan því. Nú geta þeir sagt, að þeir ætli að gera það með skipun n., en það þurfi bara lítilsháttar undirbúning til þess að koma öllu því fram, sem þeir lofuðu. Við bæjarstjórnar- og þingkosningarnar létu þeir á sér skilja, að allt þetta mundi veitast yður, ef þið kjósið okkur. En í 4 ára áætluninni er látið skína í, að ekki mætti ætlast til, að allt þetta yrði gert undirbúningslaust, og þess vegna hélt ég, að meiningin með því að skipa n. væri ekki sú, að henni væri ætlað að vinna nokkurt gagnlegt starf, heldur væri það aðeins blekking. Það er því engin ástæða til þess að búast við, að henni sé ætlað, eða hún ætli, að gera nokkurt gagn, né að þau frv. verði mikils metin, sem n. ber fram, enda eru þau meinlaus og má einu gilda, hvað við þau er gert. Þetta er einmitt sá árangur, sem ég bjóst við, að n. mundi gera eitthvað aðeins til þess að sýnast. En n. þarf að láta líta svo út sem hún ætli að gera meira en að sýnast, og því vill hún fá þessa rannsóknarheimild. Er þetta rétt eins og ég bjóst við gert í því augnamiði einn. Hefi ég þá trú á sómatilfinningu og réttlætiskennd hv. þm., að þeir samþ. þetta aldrei. En hafi n. borið frv. fram í þessu trausti, hefir hún ekki reiknað með, að fylgismenn hennar væru orðnir aðrir eins aumingjar, — eins auðvirðileg flokksþý og raun ber vitni um. Já, ég skil, forseti ætlar að hringja. (Forseti: Það er æskilegi meðan hv. þm. hefir einhverja tilfinningu fyrir því, hvað sé þinglegt, að hann hagi orðum sínum eftir því). Hæstv. forseti má vera viss um, að ég geri allt af eins og ég tel við eiga.

Ég bjóst við, að krafan um rannsóknarheimildina væri gerð í samræmi við kosningaloforð sósíalista í því trausti, að hún yrði felld, til þess svo að geta sagt kjósendunum, að þeir hefðu ekki getað staðið við loforðin vegna þess, að þeir fengju ekki rannsóknarheimildina. Ég hafði þá skoðun á þessu, að það væri ekki annað en stórkostlegt bluff, bara til þess að hafa kjósendur góða fram undir næstu kosningar. Þá var hægurinn hjá að setja málið á odd fyrir kosningar og láta stranda á því, að sósíalistar vilji þjóðnýtingu, en framsókn samvinnu. Segja svo upp samvinnunni eins og 1931 og ganga vígreifir til kosninga. Hefja nýja sókn með nýjum loforðum um, hvað flokkurinn ætli að vinna næsta kjörtímabil — semja nýja 4 ára áætlun.

Ég get skilið, að hv. þm. Hafnf. segi sem svo, að slíkar undirtektir um skipun n. gefi ekki góðar vonir um samvinnu við þann flokk, sem ég tilheyri, og ég er sömu skoðunar, og þess vegna sé ekki ástæða til að ætla flokknum sæti í n. En ég get ekki neitað því, að mér finnst það sýna vantrú á n. og vonleysi um málstaðinn, ef hv. stj. og stuðningsmenn stj., sem að skipun n. stóðu, þora ekki að láta sjálfstæðismenn koma í n. og kynnast hennar störfum. Ef málstaðurinn væri virkilega góður þykir mér óskiljanlegt, ef ekki væri hægt að sannfæra jafnvel hv. þm. Hafnf. Þess vegna skoða ég það sem vantrú á málstaðinn, að sjálfstæðismenn eigi ekki erindi í n. og hafi ekki skilyrði til að taka þátt í þeim störfum, sem henni eru ætluð. Ég verð að segja, að þetta féll mjög vel við þá skoðun, sem ég hafði haft um skipun n., að hún væri ekki nema til að sýnast. Það er skiljanlegt og lá í augum uppi, að ekki yrði eins auðvelt að halda málamyndastarfi í n. í samvinnu við Sjálfstfl. án þess að það kæmi fljótlega í dagsljósið. Þegar mál þetta var til umr. hér á þingi fyrir nokkrum dögum, varð nokkur ágreiningur milli forsrh. og atvmrh. Atvmrh. lýsti því hátíðlega yfir, að höfuðtilgangur n. væri sá, að vinna að þjóðnýtingu. En forsrh. var fljótur til og rauk upp og taldi það fjarri sanni að því er sinn flokk snerti. Síðan hefir hæstv. forsrh. haft minni afskipti af málinu, en látið sitja við þessa einu yfirlýsingu um tilgang n. Þegar það er athugað, að þeir 2 flokkar, sem skipuðu n., hafa ekki fyrir fram rætt eða krufið til mergjar, á hvaða grundvelli n. ætti að starfa, þannig að þegar rætt er opinberlega um þetta, segir einn ráðh. þetta og annar hitt, er alveg augljóst, að n. er skipuð út í bláinn, án þess að gera grein fyrir, hvernig hún eigi að starfa. Atvmrh. sagði, að frá sínu sjónarmiði ætti að byggja á grundvelli þjóðnýtingar, en forsrh., að það væri fjarstæða, sem ekki kæmi til mála. Það er m. ö. o. augljóst, að samherjarnir, sem skipuðu n., hafa ekki hugsað sér neinn ákveðinn grundvöll. Styður þetta enn mína skoðun, þá, að aldrei hafi verið nein alvara með skipun n.

En það, sem veldur því, að ég er farinn að vera nokkuð efablandinn um, að ekkert hafi legið bak við annað en yfirskin, er fyrirspurn, sem ég hefi orðið var við, að n. hefir sent út til iðnrekenda hér í bænum, og hvernig þeirri fyrirspurn er hagað. Hv. þm. Snæf. las hér áður við þessar umr. eitt slíkt fyrirspurnarbréf. Út af því réðst hv. þm. Hafnf. út á völlinn og þóttist skáka hv. þm. Snæf., því þar væri ekki spurt um annað en það, sem menn væru skyldugir til að svara hagstofunni. Annaðhvort er nú, að þessi hv. þm., sem er í n., hefir ekki séð bréfið, eða að hann er ekki nógu kunnugur þeim lögum, er leggja skyldu á menn að svara hagstofunni, því að í bréfinu er gengið svo nærri réttindum manna, að þeir eru krafðir svo nákvæmra upplýsinga, að spurt er um blöndun hráefna í þeim vörum, er þeir framleiða. Þess er áreiðanlega ekki krafizt af hagstofunni. Satt að segja get ég ekki séð, að það snerti þann tilgang, sem n. er ætlað að hafa, jafnvel þó það væri eindreginn tilgangur beggja stjórnarflokkanna að undirbúa þjóðnýtingu. Ég hefi ekki orðið þess var, að hv. þm. Hafnf. hafi leitt nokkur rök að því, að þess væri þörf. En það er skýlaus sönnun fyrir því, að hv. þm. — ef hann er annars kunnugur þessum fyrirspurnarbréfum — veit vel, að það er mjög mikill munur á skýrslugjöf til hagstofunnar og þeirri, sem farið er fram á í þessu bréfi.

Skýr sönnun er það, að ef skýrslur, sem ætlazt er til, að hagstofan gefi, fullnægi tilgangi nefndarinnar, þá væri þessi rannsóknarheimild um leið óþörf. Þá gæti n. notfært sér upplýsingar hagstofunnar. Fyrst hagstofunni er gert að skyldu að innheimta slíkar upplýsingar frá einstaklingum hvers vegna þarf þá að gefa þessari einstöku nefnd sama vald? Það væri engin ástæða til þess, ef hér væri ekki um mismunandi tilgang að ræða. En mismunandi tilgangur er augljós af því, sem hv. þm. Snæf. upplýsti hér áður við þessa umr. Hann taldi tilgang nefndarinnar þann, að fá betri upplýsingar um atvinnurekstur einstaklinga heldur en hagstofan hefir þörf fyrir. Í þessu sambandi vil ég geta þess, að mig minnir, að síðastl. haust hafi verið auglýst verð á framleiðsluvöru, sem framleidd er af fyrirtæki norðanlands, og var lítið eitt lægra heldur en sama framleiðsluvara, sem framleidd var hér í Rvík. Síðan kom auglýsing frá framleiðendum hér í Rvík um, að þeir hefðu byrjað á framleiðslu á sömu vöru og auglýst hafði verið af fyrirtækinu norðanlands, ég man ekki, hvort tekið var fram í auglýsingunni, að verðið væri ákveðið það sama eins og á framleiðslu norðlenzka fyrirtækisins, ég man ekki heldur vel, hvort þess var líka getið, að þessi vöruteg. væri ekki samskonar, lélegri vara heldur en sú vara, sem þessi framleiðandi annars hafði á boðstólum, en að hún væri fullkomlega samkeppnisfær við framleiðsluvöru þessa norðlenzka fyrirtækis. Mér skildist, að norðlenzka fyrirtækið hefði ekki möguleika til þess að framleiða samkeppnisfæra vöru við framleiðslu hér í Rvík. Af þeim ástæðum fyrst og fremst hefir verðið verið fært niður. Mér skilst m. ö. o., að þetta norðlenzka fyrirtæki hafi ekki haft þá kunnáttu til að bera í iðnaðinum, sem til þess þurfti að framleiða samkeppnisfæra vöru við vöru Sunnlendinga.

Þegar ég sé spurningarbréf skipulagsnefndar, þá skilst mér, að ef þær upplýsingar, sem þar er krafizt, eru gefnar, þá gæti n. með góðri aðstoð sinni e. t. v. bætt upp vankunnáttu þessa norðlenzka fyrirtækis, þannig að það fengi allan þann fróðleik, sem það þyrfti til þess að geta framleitt jafngóða vöru og keppinauturinn hérna í Rvík. Ég get ekki gert mér aðra grein fyrir tilgangi þessarar n. en þá, að það eigi að ljósta upp framleiðsluleyndarmálum einstakra fyrirtækja, til þess að gefa öðrum kost á að nota þau. Ég hefi ekki látið mér detta í hug, að þetta hafi verið gert af þeirri forsjálni, að það væri tilgangurinn, þegar þessi atvinnuvegur væri þjóðnýttur, að þá gæti ríkisfyrirtækið haft sinn rekstur sem fullkomnastan, því að það er ljóst, að ef fyrirtækin eru þjóðnýtt, þá hafa einstaklingar enga aðstöðu til þess að reka sinn atvinnurekstur áfram, vegna þess að ríkið er búið að taka einkarétt á því að reka þann atvinnurekstur, og þá er ekki lengur nein ástæða fyrir einstaklinginn, sem kann að búa til vöruna, að halda þeirri þekkingu sinni leyndri. Hann vinnur ekkert með því. Hinsvegar er líklegt, að slíkir menn sem áður hafa stundað atvinnurekstur, væru fengnir, a. m. k. í mörgum tilfellum, sem sérfræðingar og leiðbeinendur fyrir ríkisfyrirtæki. Þess vegna er engin ástæða til þess að fara þessa leið til að tryggja þjóðnýtingu eða það, að ríkisrekin fyrirtæki gætu framleitt sem fullkomnasta vöru. Ég skal játa, að ef þetta er tilgangurinn með þessu, þá er í því viss afsökun. Það óbrigðula „moment“ er: að það á að vanda sem bezt til undirbúningsins undir ríkisframleiðsluna.

Ég hefi sýnt fram á það í þessu sambandi, að þessi undirbúningur er alveg óþarfur, því að um leið og ríkið tæki að sér atvinnureksturinn, yrði það að taka að sér verksmiðjurnar og rekstur þeirra og mundi þá að sjálfsögðu nota þekkingu þeirra manna, sem hafa rekið þennan atvinnurekstur.

Það er engin nauðsyn á þessu vegna þjóðnýtingar. Hver er hún þá? Hvers vegna ber skipulagsnefndin þessar fyrirspurnir fram, sem gera mönnum skylt að skýra nákvæmlega frá því hvernig þeir setja saman efni til þess að búa til ákveðnar vörur, og varðar fangelsi, ef ekki er rétt skýrt frá? Hvers vegna er farið þannig að? Tilgangurinn getur ekki verið alþjóðarheill. Þess gerist ekki þörf.

Ég efast ekkert um, að á bak við slíka kröfu liggur sá tilgangur, að efla aðra aðilja til samkeppni við þá menn, sem stofnað hafa atvinnurekstur og hafa fjölþætta reynslu að baki sér í sinni grein, e. t. v. með miklum tilkostnaði. Þessu dýrkeyptu þekkingu á að taka af þeim og selja hana í hendur einkafyrirtækjum, til þess þau geti keppt við þá með fullum árangri og betri árangri heldur en fyrirtækið fyrir norðan, sem gat ekki keppt með fullum árangri vegna vankunnáttu sinnar. A. m. k. er augljóst, að ef tilgangurinn væri þessi þá er skiljanlegt, að stj.flokkarnir skuli ekki hafa viljað blanda blóði við aðra flokka hvað skipun og starfshætti þessarar nefndar snertir. Það er einkennandi fyrir hugmyndina um þessa nefnd, skipun hennar og framkvæmd, að láta ekki aðra koma nálægt þessari nefnd en stjórnarsinna.

Það er fullkomið glapræði af þinginu að gefa þessari n. slíkt vald, sem farið er fram á, því að það er óhætt að segja, að ekki sé forsvaranlegt að fá þessari n. þetta vald í hendur, eins og hún er skipuð. Hv. þm. hefir jafnvel ekki heimild til þess að veita nokkurri n. slíkt vald, eins og hv. 2. landsk. tók fram. Með þessu móti er eingöngu gefið færi á því að hnýsast svo í atvinnurekstur einstaklinga, að það verður að teljast að öllu leyti óverjandi. Það er sennilega talið óforsvaranlegt af öllum nema þeim, sem standa að hæstv. núv. stj.

Ég hefi ekki breytt skoðun minni á því, að þessari n. er í rauninni ekki ætlað að vinna nokkurt starf í þágu alþjóðar. Ég er jafnsannfærður um það enn, eins og fyrst þegar ég sá þennan lið á 4 ára áætlun Alþfl., að frá alþjóðlegu sjónarmiði séð, er aðeins um hégómlega kosningabrellu að ræða. Það liggur í hlutarins eðli, hve fráleitt það er, að samþ. þetta lagafrv., sem hér liggur fyrir. Sé það hinsvegar ætlun hv. Alþ. samþ. þessi lög, þá er það vitanlega sjálfsagt, að allir aðalflokkar þingsins hafi rétt til þess að skipa menn í þessa n., því að ef n. er aðeins skipuð 2 flokkum eða fulltrúum 2 flokka, þá er augljóst, að hinir flokkarnir eru og verða ofurseldir geðþótta nefndarinnar. Þeir eru skyldugir til þess að gefa allar upplýsingar um sín fyrirtæki og rekstur annara fyrirtækja, sem standa undir verndarvæng þessara flokka. Það er a. m. k. engin trygging fyrir því, að eitt sé látið yfir alla ganga í þessu efni. Það liggur í augum uppi, að þeir flokkar, sem standa utan við n., hafa allt aðra aðstöðu til þeirra upplýsinga, sem veittar kunna að verða. En tryggingin fyrir því, að þær upplýsingar séu ekki misnotaðar, meira og minna, fæst ekki með öðru móti en því, að öllum flokkum sé gefinn kostur á að taka þátt í starfi nefndarinnar, þannig að séð verði um, að það, sem er framkvæmt gegn einum, verði einnig framkvæmt gegn öðrum, og að vitneskja, sem fæst um atvinnurekstur þessa fyrirtækis, sem tilheyrir manni úr þessum flokki, fáist einnig um rekstur annars fyrirtækis, sem rekið er af manni úr hinum flokknum. Þetta ætti þó a. m. k. að geta verið nokkur trygging gegn því, að þær upplýsingar, sem nefndinni er gefin aðstaða til þess að fá, verði ekki misnotaðar, því að það yrði að reikna með því, að slík misnotkun leiddi eingöngu til þess, að reynt yrði að ná sér niðri með því að fara eitthvað svipað með þær upplýsingar, sem fengjust um þau fyrirtæki, sem annars hefðu verið til þess fallin að standa undir verndarvæng nefndarinnar. Hitt er augljóst, að ef þessari n. er ætlað að vinna alþjóðlegt gagn, þá er það fyrsta skilyrði fyrir því, að það megi takast, að um það náist samvinna allra, flokka,

Ég veit, að stj.flokkunum er ekki geðfellt að ganga inn á þennan hugsunarferil. Þeir eru samfærðir um, að þeir einir hafi vit og þekkingu, og þeir eigi að segja fyrir um allar framkvæmdir. Áþreifanleg sönnun fékkst fyrir þessu á þingfundi hér í gær. Eins og við vitum, liggur fyrir hv. þingi frv. um fiskimálanefnd o. fl. Það er sagt, að þetta frv. sé komið frá hæstv. atvmrh., en sannleikurinn er sá, að enginn veit, hver hefir samið það og enginn veit, á hvaða þekkingar-grundvelli það er byggt. En hitt vita menn, að þetta frv. hefir ekki verið borið undir einn einasta aðila, sem nokkurt vit eða þekkingu, hefir á þeim málefnum, sem þar er talað um. Það er skiljanlegt, að meiri hl. sjútvn., sem tilheyrir núverandi stj.flokkum, mátti ekki heyra það nefnt, að frv. væri borið undir nokkurn mann eða aðila, sem nokkur ástæða var til að ætla, að hefði nokkra reynslu í þeim hlutum, sem þar um ræðir. Það er reynt að keyra þetta mál gegnum þingið, án þess að farið sé eftir áliti nokkurs dómbærs manns um málið, af því að þessir menn hafa einir vit og skilning! Ekki er feimnin mikil!

Þegar hægt var að koma því til leiðar fyrir aðstoð hæstv. forseta, að nokkurra upplýsinga væri aflað um þetta mál, og tilraunir hv. meiri hl. n. til þess að þvinga málið fram áður en upplýsingar hefðu komið fram, strönduðu, og þessar upplýsingar voru komnar í hendur n., þá stendur hv. form. og frsm. meiri hl. n. upp og les upp þessar umsagnir, sem eru honum til háðungar, ef svo mætti að orði kveða í þessu sambandi.

Ég vil geta þess, að hann kveinkaði sér við að lesa upp allar þær skýrslur. Þegar þessi hv. frsm. meiri hl. sjútvn. hafði lokið þessum lestri, þá sagði hann, að úr því þetta frv. væri þegar búið að gera alla hugsanlega bölvun. þá gerði það ekkert til, þótt það yrði látið halda áfram. Þetta er ábyrgðartilfinningin!

En það lítur út fyrir, að það sé ekki aðeins þessi einstaki hv. þm. stj.flokkanna, sem þannig er farið, því að öðrum kosti er það óskiljanlegt, að hv. stj.flokkar líti í raun og veru svo á, að heill og hag þjóðarinnar væri bezt borgið með því móti, að þeir einir fái aðgang að því að fjalla um þessi vandamál.

Í þessu sambandi vil ég minnast á það við hv. stj.fl., að í einu bréfinu, sem hv. frsm. las upp hér í gær, frá bankastjórum Landsbankans, var komizt svo að orði, að þess væri óskandi, að allir flokkar stuðluðu að samvinnu um það að leysa mestu vandamálin, sem þingið á við að fást. Það er skoðun þeirra manna, sem ábyrgðin hvílir ekki sízt á, að samvinna þingflokkanna sé óhjákvæmilegt skilyrði fyrir heppilegri úrlausn þessara miklu vandamála.

En þetta virðist ekki vera skoðun hv. stj.flokka og hæstv. ríkisstj. [Fundarhlé].