27.10.1934
Neðri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í B-deild Alþingistíðinda. (2164)

43. mál, prestssetur í Grundarþingaprestakalli

Frsm. minni hl. (Garðar Þorsteinsson):

Hv. 2. þm. N.-M. virðist ekki þurfa mikið tilefni til að komast í æsing. Ætti hann þó ýmsra hluta vegna að halda skapsmunum sínum í því jafnvægi, sem hægt er. Þarf ég engar upplýsingar að sækja til hans, og ætti hann að sanna sitt mál, er hann fer að brigzla mér um, að ég fari með rangt mál.

Sveinbjörn Sigtryggsson í Saurbæ hefir talað við mig um þessi jarðarkaup. Bað hann mig um aðstoð við kaupin. Hv. þm. sagði, að honum væri ekkert áhugamál að eignast jörðina. Upplýsir hann þó, að prestur sá, sem hann sagði, að hér hefði verið á ferð, hefði sagt, að honum væri sama, hvort hann keypti jörðina eða leigði hana. Hér liggja því fyrir þrjár misjafnar sögusagnir: Ég segi, að hann vilji kaupa jörðina, presturinn segir, að honum sé sama, hvort hann kaupir eða leigir, og hv. þm. segir, að hann vilji helzt leigja. Nú er það augljóst, að mér og prestinum ber ekki saman, en hv. þm. véfengir ekki sögu prestsins. Ef presturinn ábyrgist, að honum sé sama, hvort hann kaupir jörðina eða leigir hana, hví gat ábúandinn þá ekki sagt við mig, að hann væri fús til að kaupa hana? Ég mótmæli því ekki, að ábúandinn kunni að hafa sagt við hv. þm. bréflega það, sem hann hefir eftir honum, og ég rýk heldur ekki upp með skammir á hann eða brigzla honum um, að hann fari með ósatt mál. Og hann hefir ekki leyfi til að koma með þær slettur, að aðrir segi ósatt, fyrr en hann fer sjálfur með sinn málstað á þingi þannig, að ekki verði véfengt. Ef hv. þm. vill véfengja það, sem ég sagði, að ársleigan væri 2½% af kaupverðinu, getur hann sjálfur reiknað dæmið, en þarf ekki að vera með glósur um, að ég fari þar rangt með. Fyrir skömmu kom hér fyrir lítið mál, þar sem hv. þm. spurði annan þm., hvaðan honum kæmi heimild til að segja það, sem hann hélt fram. Þegar til kom, var svo allt rekið ofan í hv. þm. vil ég því í bróðerni benda honum á, að honum er bezt að haga sér kurteislega hér í d. og hætta að svívirða aðra þm.