24.10.1934
Efri deild: 20. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1730 í B-deild Alþingistíðinda. (2258)

67. mál, útflutningsgjald af síld til hlutaruppbótar sjómönnum

Magnús Guðmundsson:

Ég vil fyrst og fremst óska frekari upplýsinga en nú liggja fyrir um sumarkaup þessara manna og árskaup þeirra, áður en tekin er fullnaðarafstaða til þessa máls. Í þessu sambandi má benda á það, að það eru ekki einungis þeir, sem hafa stundað síldveiðar í sumar, sem hafa haft lítið upp úr sér, heldur einnig t. d. norðlenzku bændurnir. Það hefir verið svo, að þeir hafa orðið að taka fólk til vinnu fyrir sig, og allt þeirra starf, sjálfra bændanna og kaupafólks þeirra, hefir orðið sama sem ónýtt. Hvað ætlar ríkisstj. að gera fyrir þessa bændur? Ég geng sem sé ekki út frá því, að hún hugsi sér að mismuna landsmönnum svo, að veita þeim uppbót, sem hafa fengið dálítið kaup, en láta þá sitja á hakanum, sem orðið hafa að gefa með sér. Ég hefi orðið var við það reyndar eins og aðrir, að verið að er gera ráðstafanir til þess að útvega fóðurbæti, en hann mun eiga að greiðast fullu verði og því ekki í því um neina fjárhagslega byrði að ræða fyrir ríkissjóð. Mér finnst það vera undarlegt og miður viðeigandi, ef á að fara að gera upp á milli stétta þjóðfélagsins á þennan hátt, sem hér virðist vera í uppsiglingu.