20.10.1934
Neðri deild: 15. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (2295)

44. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Frsm. minni hl. (Garðar Þorsteinsson) [óyfirl]:

Ég hefi ekki enn sannfærzt um nauðsyn þess að láta þetta mál ganga áfram. En ég get tekið undir með hv. flm., eins og ég hefi áður gert um það, að eftir kosningalögunum frá 1929 getur leitt til vandræða að fá kosinn þann bæjarstjóra, sem alltaf hefir meiri hl. bak við sig. Enginn ágreiningur er um það, að með svo fullkomnu lýðræði sem er í kosningalögunum frá 1929 eru minni líkur til, að einn flokkur fái hreinan meiri hl. í bæjarstjórn. Nú sem stendur er það aðeins í Rvík, Hafnarfirði og e. t. v. í einum kaupstað í viðbót, sem einn flokkur hefir hreinan meiri hl. Hitt mun algengara, að flokkarnir fá 1, 2 —4 fulltrúa hver, eins og er t. d. á Ísafirði, en fá ekki meiri hl.

Aðalreglan mundi verða sú, að þetta endurtæki sig, þó kosið yrði 3 —4 sinnum á kjörtímabilinu, og ég fæ því ekki séð, að þetta sé nein lausn í því máli, sem hér um ræðir, að afla bæjarstjóra meiri hl. fylgis; það getur því aðeins orðið, að bæjarstjóri hafi meiri hl. fylgi bak við sig í kjósendahópnum.

Það hefir ekki komið nein rödd um þetta frá Akureyri t. d. Þar hafa flokkarnir sameinað sig um bæjarstjóra. Og því er það ekki hægt á Ísafirði? Alþfl. getur þar stofnað samfylkingu með kommúnistum. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu, að jafnskyldir flokkar geti starfað saman. Hví skyldu sósíalistar t. d. ekki geta tekið samfylkingarboði frá kommúnistum, sem alltaf stendur til boða?

Mér hefði fundizt eðlilegt, að hv. flm. kæmi til dyranna eins og hann er klæddur, að hann viðurkenndi, að ástandið á Ísafirði er óþolandi og nauðsynlegt að ráða bót á því, jafnframt sem það væri nú álit hans, að nýjar kosningar myndu leysa málið. Ef hv. flm. hefði þannig bundið frv. við Ísafjörð eingöngu, vegna hins sérstaka ástands, sem þar ríkir, en ekki farið fram á að lögfesta þetta sem almenna reglu, er gildi fyrir alla kaupstaði landsins, hefði mér fundizt eðlilegra, að löggjafarvaldið tæki vel í mál hans, en ég tel ekki rétt af löggjafarvaldinu að fara inn á þessa braut. Mér hefði því sýnzt, að hv. flm. bæri fram brtt. við frv. í þessa átt, svo að frekar væri viðlit að samþ. það.

Hv. flm. hefir ekki heldur í ræðu sinni í dag hrakið rök mín í gær, þar sem ég sýndi fram á, að atvmrh. gæti misbeitt því valdi, sem hann fær með frv., og boðað til nýrra kosninga, ef bæjarstjórinn er aðeins borinn ofurliði í einu einstöku máli. Meira þarf ekki, eins og frv. er orðað. Nú er það jafnvitanlegt okkur öllum, að það er sjaldgæft, að menn séu svo flokkslega bundnir í innansveitarmálum, að þá greini ekki á um ýmis mál, sem fyrir koma, enda mun það ósjaldan bera við, að bæjarstjóri sé borinn ofurliði af eigin flokksmönnum í einstökum málum. Ef heimildin fyrir atvmrh. til að rjúfa bæjarstj. er því ekki bundin því skilyrði, að hlutaðeigandi bæjarstj. óski þess, getur ráðh. gert það jafnvel án þess að meiri hl. bæjarstj. hafi gefið bæjarstjóra vantraust. Ég myndi hinsvegar fyrir mitt leyti telja það geta komið til mála að samþ. frv., ef heimildin væri bundin því skilyrði, að meiri hl. bæjarstj. óskaði eftir nýjum kosningum.

Ég vil því mega vænta þess, að hv. d. felli þetta frv. Sú hugsun, sem felst í 2. gr. frv., og sú regla, sem þar er verið að lögfesta, er röng og getur leitt út í glundroða og vitleysu, ef atvmrh. beitir því valdi, sem honum væri gefið.