27.10.1934
Neðri deild: 21. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (2356)

47. mál, síldarverksmiðjan á Raufarhöfn

Gísli Guðmundsson [óyfirl.]:

Það hefir verið farið um það nokkrum orðum af hv. þm. V.-Húnv. og líka hv. 6. þm. Reykv., að þessi verksmiðja á Raufarhöfn mundi vera nokkuð dýr, og er miðað við þá upphæð, sem stj. síldarverksmiðju ríkisins áætlaði, að þyrfti til að gera verksmiðjuna þannig úr garði, sem hún teldi æskilegt. En ég vil þá benda á í þessu sambandi, að mér virðist þetta ekki vera. Eftir því, sem ég veit bezt, hefir síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði, sú sem nú er starfandi, kostað nær 1½ millj. kr. Sú verksmiðja á að bræða 2400 mál á sólarhring. Hér er um að ræða það álit, að verksmiðjan á Raufarhöfn kosti 200 þús. kr. með viðgerð. Er henni ætlað að bræða 600 mál á sólarhring. Þegar ég ber saman þetta tvennt, afköst ríkisverksmiðjunnar á Siglufirði og afköst þessarar verksmiðju, og hinsvegar kostnað við verksmiðjuna á Siglufirði og áætlaðan kostnað við þá á Raufarhöfn, þá get ég ekki séð, að um dýrt fyrirtæki sé að ræða hjá ríkinu.

Annars verð ég að líta þannig á út af ummælum hv. 6. þm. Reykv., að þótt ríkið oft og tíðum verði að skera við neglur sér styrki, t. d. til einstakra manna, sem rétt gæti verið að hjálpa, þá verði það að sitja fyrir, sem miðar að því að styðja atvinnulífið í landinu og koma í veg fyrir atvinnumissi fjölda manna. Og út af ummælum þessa hv. þm. vil ég upplýsa það, að ég tel ekki nokkrar minnstu líkur til þess, að menn á Raufarhöfn hafi nokkur ráð til þess að geta eignazt þessa verksmiðju. Þarna er yfirleitt aðeins um að ræða mjög fátæka verkamenn, sem ekkert hafa fyrir sig.

Hv. 6. þm. Reykv. virtist vera með ugg nokkurn út af því, að ef þessi heimild yrði veitt ríkisstj., myndi hinn erlendi eigandi geta notað hana til þess að knýja ríkisstj. til að kaupa verksmiðjuna fyrir ósanngjarnt verð, með hótun um að hætta rekstri hennar. En hann benti á ráðið við því, þar sem hann minntist á Sólbakkaverksmiðjuna og hvernig þar fór. Þarf ég ekki að svara því frekar, þar eð hv. þm. hefir gert það sjálfur.