19.11.1934
Efri deild: 42. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (2463)

56. mál, hlunnindi fyrir ný iðn- og iðjufyrirtæki

Magnús Jónsson:

Ég er ekki viss um, að hv. frsm. hafi skilið mig alveg rétt. Ég nefndi þessi fyrirtæki aðeins sem dæmi. Það er alveg rétt, að fyrirtæki í einni grein geta orðið það mörg, að af því leiði óeðlilega samkeppni, og náttúrlega er sjálfsagt að hlynna fyrst og fremst að byrjendum. En ég held, að rétt væri að hafa það ákvæði í frv., að eitthvert stjórnarvald mætti veita fleiri en einu fyrirtæki í sömu grein þessi hlunnindi, ef ástæða þætti til, t. d. síldar- og beinamjölsverksmiðjum á nýjum heppilegum stöðum, og jafnvel nýjum smjörlíkisgerðum, því að mikið veltur á því, að smjörlíkið komist nýtt til neytenda.

Hv. frsm. tók vel í aths. mínar, og vænti ég þess því, að hv. n. athugi, hvort ekki megi bæta slíkri heimild inn í frv.