21.11.1934
Efri deild: 44. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1801 í B-deild Alþingistíðinda. (2475)

56. mál, hlunnindi fyrir ný iðn- og iðjufyrirtæki

Magnús Jónsson:

Þetta er auðvitað álitamál, og réttast að láta atkv. skera úr því. Ég viðurkenni það fúslega, að nokkrar meiri ástæður eru til þess að styrkja fyrsta fyrirtækið í hverri iðngrein en þau, sem á eftir koma. En fyrst farið er að setja l. um þetta á annað borð, hefði ég kosið, að skrefið hefði verið stigið lengra. Þó að fyrirtæki, sem stofnuð eru síðar, séu ekki á jafnmiklu tilraunastigi og fyrsta fyrirtækið, eru alltaf meiri og minni örðugleikar bundnir við stofnun nýs iðnfyrirtækis. Flest eru slík fyrirtæki hér á landi sett upp af litlum efnum. Og það væri áreiðanlega heilbrigt að koma sem flestum þessum fyrirtækjum undir ákvæði 6. gr. og skylda þau til að verja mestum hluta arðs síns fyrstu árin til þess að efla fyrirtæki sitt og koma sér upp góðum varasjóði. Þetta yrði kostnaðarlaust fyrir ríkissjóð, fyrirtækin yrðu sterkari gjaldþegnar ríkissjóðs, ef þeim er hjálpað til þess að koma undir sig fótum í byrjun. — Það eru að sjálfsögðu engin rök gegn breyt. á frv., þótt iðnráðið hafi samið það og það sé flutt að tilmælum þess. Iðnráðið er líka aðeins fyrir Rvík, en l. eiga að gilda fyrir allt landið. Brtt. fer fram á það, að fyrirtæki, sem upp koma víða á landinu, geti líka orðið þessara hlunninda aðnjótandi. Það er t. d. svo með vinnslu allra íslenzkra afurða, að eðlilegt er, að vinnslustöðvarnar séu á fleiri en einum stað á landinu. — Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þetta atriði, en vona, að hv. þdm. sjái ástæðu til að taka brtt. mína til greina.