20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1950 í B-deild Alþingistíðinda. (2537)

108. mál, iðnlánasjóður

Frsm. (Emil Jónsson):

Af því þetta frv. fékk dálítið óvenjulega meðferð við 1. umr., nefnilega þá, að því var umr.laust vísað til n. vegna anna d., þykir mér rétt að fara nú nokkrum orðum um það almennt, áður en ég minnist á þær brtt., sem iðnn. hefir gert.

Það hefir verið tekið fram við ýms tækifæri hér í d., að það beri að sýna hinum vaxandi iðnaði í landinu meiri rækt heldur en gert hefir verið hingað til. Þegar hið háa Alþingi hefir verið að gera ráðstafanir til stuðnings atvinnuvegunum í landinu, hefir næstum alltaf verið miðað við landbúnaðinn og sjávarútveginn. Þessir tveir atvinnuvegir hafa hvor sinn bankann að styðjast við, landbúnaðurinn Búnaðarbankann og sjávarútvegurinn Útvegsbankann. Þá hafa þeir ennfremur sinn sjóðinn hvor, fiskiveiðasjóð og ræktunarsjóð. Þetta er ekki nema eðlilegt; þessir atvinnuvegir eru báðir gamlir og standa djúpt í meðvitund þjóðarinnar, og þess vegna hefir verið tekið meira tillit til þeirra heldur en hins unga iðnaðar. Hinsvegar hefir það verið svo, að á sama tíma sem þessir tveir atvinnuvegir eru að draga saman seglin, hefir iðnaðurinn aukizt án þess að menn hafi almennt gert sér grein fyrir því, og án þess að gerðar hafi verið nokkrar verulegar aðgerðir af hálfu hins opinbera iðnaðinum til stuðnings. Eftir síðustu skýrslum um skiptingu landsmanna á ýmsar atvinnugreinar í landinu hafa 10—20% af þjóðinni lífsframfæri sitt af iðnaði. Til samanburðar má geta þess, að landbúnaðurinn hefir í sinni þjónustu 1/3 hluta landsmanna, og sjávarútvegurinn 1/5 hluta. Þegar tekið er tillit til þess, hve skammt er síðan iðnaður hófst hér, verður ekki annað sagt en þessi atvinnuvegur hafi aukizt miklu meira og afkastað miklu meiru heldur en búast hefði mátt við. Afskipti hins opinbera af þessum atvinnuvegi hafa verið sáralítil, og hann á engan banka eða sjóð að styðjast við, heldur hefir hann orðið að bjargast algerlega upp á eigin spýtur, án þess að honum hafi verið lagt lið nokkursstaðar frá. Þetta hefir orðið til þess, að margir iðnaðarmenn hafa átt mjög erfitt uppdráttar. Ég þekki marga iðnaðarmenn, sem hafa á sumrin atvinnu við byggingar, t. d. trésmíði, sem verða svo að reyna að skapa sér verkstæðisvinnu þegar lítið annað er að gera, og hafa keypt til þess dýr áhöld og vélar, án þess að hafa fengið nokkurt lán, að ég ekki tali um styrk. Og það, sem er mest óþolandi, er það, að þessi atvinnutæki eru hvergi veðhæf. En það er hægt að fá lán út á allflest tæki, sem aðrir menn hafa í sinni starfsemi. (GSv: Ég veit þó dæmi til þess). Það má vera, að þau séu til, en þau eru víst sárafá. Vegna þessa hafa iðnaðarmenn orðið að kaupa verkfæri og vélar með afborgunum, sem þar af leiðandi hefir orðið þeim miklu dýrara heldur en annars hefði þurft að vera gegn staðgreiðslu. Nágrannaþjóðir okkar hafa fyrir löngu hafizt handa með að hjálpa iðnaðarmönnum í þessu efni, enda er iðnaður þeirra miklu eldri en hjá okkur. Danir settu hjá sér löggjöf í svipuðum anda og hér er farið fram á árið 1905. Þá stofnaði ríkið sérstakan sjóð til þess að hjálpa iðnaðarmönnum til vélakaupa. Fyrst lagði ríkissjóður Dana fram 50 þús. kr. á ári í þennan sjóð, sem svo hækkaði upp í 200 þús. kr. á ári. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er sniðið eftir þessari löggjöf um þetta efni. Það er borið fram samkv. sérstökum tilmælum, sem samþ. voru á þingi iðnaðarmanna, sem haldið var hér í Reykjavík í fyrra.

Ég þarf ekki að fjölyrða neitt um þýðingu iðnaðarins fyrir landsmenn; ég held, að mönnum sé farið að skiljast, hversu mikla þýðingu hann hefir og hversu mikla, vaxtarmöguleika hann hefir í sér fólgna á sama tíma sem hinir atvinnuvegirnir eru að draga saman seglin. Þetta er atriði, sem verður að taka til greina, þegar verið er að tala um það, hvernig bæta eigi úr atvinnuleysinu og þeim gjaldeyrisvandræðum, sem við eigum við að búa. Með því að styrkja þennan atvinnuveg er bezt ráðið fram úr þessum vandræðum báðum.

Um einstakar gr. frv. þarf ég ekki mikið að ræða. Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður leggi fram 25 þús. kr. á ári í þennan sjóð. Vægara er ekki hægt að fara í þessar sakir. Iðnn., sem hefir haft þetta frv. til athugunar, hefir lagt til, að sett sé í frv. heimild til þess að taka þessa upphæð að láni, þegar fé er ekki ætlað í fjárl. í þessu skyni, og er það ekki nema sjálfsagður hlutur. Í frv. var gert ráð fyrir, að atvinnumálaráðuneytið hefði yfirstjórn þessara mála, og var það meiningin hjá mér, að það annaðist lánveitingar og sæi um sjóðinn að öðru leyti. En það hefir orðið ofan á í iðnn. að gera breyt. á þessu, þannig að sjóðurinn væri undir sérstakri stjórn, t. d. Útvegsbanka Íslands eða annari hliðstæðri stofnun, en stæði aðeins undir yfirstjórn atvmrh. Þetta er kannske öllu heppilegra fyrirkomulag heldur en það, sem er í frv., og hefi ég því fúslega gengið inn á þessa breyt. aðrar stórvægilegar breyt. hefir n. ekki gert á frv. — Lánsupphæðirnar eru ákveðnar í frv. 300—5000 kr. og mega ekki fara fram úr 4/5 hlutum andvirðis véla þeirra, er kaupa á, sé það notað til vélakaupa. Lánin skulu tryggð með veði í hinum keyptu munum, eða ef um rekstrarlán er að ræða, með sjálfskuldarábyrgð. Þá er lánstíminn ákveðinn allt að 12 ár og vextir ½% hærri en lægstu ríkislánsvextir árið fyrir lántökuárið, til þess að ríkissjóður sleppi skaðlaus af þeim. Annað í frv. eru sjálfsögð smáatriði, sem ég hirði ekki að fara út í. Ég geri ráð fyrir, að hv. dm. hafi lesið frv. og gert sér grein fyrir því að öllu leyti.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða um þetta frekar. Ég vænti þess, að ef frv. verður að lögum, geti það orðið til hjálpar smærri iðnrekendum í þessum efnum, og mætti þá kannske verða til þess, að þeir slægju sér saman og mynduðu samvinnufélag um eina vél eða svo. Fyndist mér það mjög vel við eigandi.