11.12.1934
Efri deild: 58. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1961 í B-deild Alþingistíðinda. (2593)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Frsm. (Páll Hermannsson):

Þetta frv. var borið fram í hv. Nd., og samþ. þar með litlum breyt. Samgmn. þessarar d. hefir athugað frv., og eins og sést í nál. á þskj. 716, leggur n. til, að frv. verði samþ. — Svo sem menn sjá, fjallar frv. um hlutafjárframlag og ábyrgð ríkisins til h/f Skallagríms í Borgarnesi, sem hefir það verk að vinna, að halda uppi samgöngum milli Rvíkur og Borgarness. Jafnframt því, að þessi samgöngubót er fyrir þessa nefndu staði, er hún einnig liður í bættum samgöngum annarsstaðar, því að gengið er út frá því, að þetta skip geti tekið bifreiðar og flutt milli Rvíkur og Borgarness. Þetta hefir þýðingu fyrir samgöngurnar milli Suður- og Norðurlandsins, því að landleiðin frá Borgarfirði og hingað til Rvíkur er löng og torsótt, vegur slæmur, enda vegarstæði illt. — Ég geri ráð fyrir því, að þátttaka h/f Skallagríms í umbótum á alm. samgöngum sé fyrst og fremst talin að réttlæta það, að ríkið leggi fram töluvert hlutafé og auk þess ábyrgð. Einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til þess að verða með brtt., sem fram kynnu að koma. — Nú eru brtt. á þskj. 647 frá einum hv. þm. úr samgmn., þm. N.-Ísf. Þessar brtt. komu til orða í n., en ég sé ekki ástæðu til að geta um afstöðu mína til þeirra fyrr en hv. flm. hefir talað fyrir þeim. — Þá hefir og verið lýst úr forsetastóli brtt. frá öðrum nm., hv. 4. þm. Reykv. Ég geri fastlega ráð fyrir því, að hann mæli fyrir henni. Ég hefi ekki séð þessa till., en þykist nokkurnveginn vita um efni hennar, en mun að sjálfsögðu ekki ræða um hana að svo stöddu.