22.11.1934
Efri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1828 í B-deild Alþingistíðinda. (2622)

83. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Guðrún Lárusdóttir:

Eins og menn sjá, hefi ég skrifað undir nál. með fyrirvara. Fyrirvari minn táknar það fyrst og fremst, að ég hygg, að það muni ekki vera til bóta, að tilhögun við ráðningu manna í útvarpsráð verði breytt á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég held, að þjóðin sé ánægð með það fyrirkomulag, sem nú er, og ennfremur, að hún líti svo á, að útvarpið sé almenningseign og sú menntastofnun, sem allur almenningur á aðgang að. Og þess vegna held ég, að þjóðinni þyki það viðeigandi, að þessir menn, sem mætti kalla kennara þjóðarinnar, séu skipaðir af þeim aðilum, sem hingað til hafa haft það mál með höndum, til þess að þær menntastofnanir og andlegar stofnanir, sem má segja um, að valdi mestu um þá andlegu strauma, sem um landið fljóta, ráði miklu um starfsemi og dagskrá útvarpsins. Ég held, að það sé mjög misráðið að fá Alþingi þetta í hendur. Ég veit, að hv. þdm. er kunnugt um, að það, sem sérstaklega hefir verið fundið að starfsemi útvarpsins, er hinn mikli pólitíski blær, sem mönnum hefir fundizt bera á við útvarpið. Þetta hefir maður heyrt, og ekki sízt á síðastl. vetri, þegar rætt var um þetta í útvarpinu sjálfu dag eftir dag. Ég hygg, að yfirleitt sé þjóðin að verða leið á öllu þessu pólitíska rausi og þrasi og krefjist þess fyrir sitt leyti, og þessari mestu og beztu menntastofnun landsins barna verði haldið sem mest utan við stjórnmál. Það er tæplega hægt að halda því fram, að svo geti orðið, ef Alþ. á að skipta sér af þessu og kjósa þessa menn.

Ég legg mikla áherzlu á það, að menn athugi þetta mál vel, áður en þeir greiða atkv. með því, að þessu verði breytt frá því, sem áður var.

Hitt atriðið get ég aftur á móti vel fallizt á, að útvarpsnotendur fái að kjósa fyrir sitt leyti 2 menn í útvarpsráð, og tel ég það til bóta.

Það annað, sem ég hafði í huga, þegar ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, var ákvæðið um laun útvarpsstjóra, sem eru ákveðin 7500 kr., auk dýrtíðaruppbótar. Mér virðist það ekki réttlátt gagnvart þeim embættismönnum, sem lengi hafa starfað í þjónustu ríkisins, að nýir embættismenn ríkisins fái miklu hærri laun en hinir, sem lengur hafa starfað hjá ríkinu, og það samtímis því, þegar talað er um að fella niður dýrtíðaruppbót þeirra embættismanna, sem komnir eru að vissu hámarki, sem þó er að krónutali miklu lægri en byrjunarlaun þeirra, sem síðar koma.

En aðaláherzluna legg ég á það, að þessi menntastofnun landsins verði varðveitt frá því, að pólitíkin fái að smeygja sér þar inn, því að það teldi ég til mikils tjóns fyrir þjóðina í heild sinni.