13.12.1934
Efri deild: 60. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1986 í B-deild Alþingistíðinda. (2646)

124. mál, hlutafjárframlag fyrir h/f Skallagrím í Borgarnesi

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Út af orðum hv. þm. N.-Ísf. vil ég taka það fram, að eftir því, sem ég bezt veit, þá eru allir nm. í samgmn. beggja d. sammála um að mæla með því, að ríkisstj. láni Hermóð til þess að halda uppi ferðum á Djúpinu. Ef n. eru ekki sammála um þetta, þá mun það vera þessi hv. þm. einn, sem ekki er á sama máli og n. í þessu máli.

Hv. 1. þm. Skagf. talaði um, að það væri stirfni af ríkisstj. að þvertaka fyrir að veita nokkurt fé til þessara ferða fram yfir það, sem Alþ. hefði samþ. Ég hefi ekki þvertekið fyrir neitt í þessum efnum. Ég hefi aðeins sagt, að ég geti engin loforð um þetta gefið. Hinsvegar mun ég, ef samgmn. leggur það til og beiðni liggur fyrir um það frá hlutaðeigendum, taka þetta til athugunar, en get ekki fyrirfram gefið nein bindandi loforð í þessu efni. Ég tel það ekki rétt og mun ekki gera það.