29.11.1934
Sameinað þing: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

1. mál, fjárlög 1935

Frsm. meiri hl. (Jónas Guðmundsson):

Nú munu allir þeir hv. þm., sem viðstaddir eru, hafa mælt fyrir brtt. sínum, og sé ég ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þær. Viðvíkjandi brtt. á þskj. 602, 3, þar sem hv. þm. N.-Ísf. fer fram á 3000 kr. styrk til læknisbústaðar í Ögurhéraði, vildi ég taka fram, að hafi byggingarkostnaður sjúkrahússins orðið svona hár, eiga viðkomandi aðilar heimting á að fá þessa upphæð borgaða úr ríkissjóði, samkv. þeim reglum, sem um þetta hafa gilt. Verður það því vafalaust greitt af því fé, sem til þessa er ætlað, annaðhvort á þessum fjárl. eða þeim næstu. Annars liggja alltaf fyrir miklu fleiri loforð um styrk til læknabústaða en hægt er að efna, og verða ýms sveitarfélög því að bíða, eins og t. d. hefir verið bent á um Búðardal. —Hinar till., viðvíkjandi áfengistollinum og áfengisverzluninni, hefir þessi hv. þm. tekið aftur, og er því ekki þörf á því að ræða þær.

Viðvíkjandi till. hans um framlög til Langadalsvegar í Ísafjarðarsýslu og Bolungavíkurvegar er það að segja, að erfitt er að gera upp á milli till. hv. þm. um þesskonar framlög, og verður hver einstakur þm. að hafa sína skoðun um þær og sýna hana við atkvgr.

Viðvíkjandi brtt. XII. og XIII. á þskj. 602, um bryggjugerðir og lendingarbætur, er það að segja, að eigi þessir liðir að hækka svo, sem ráð er fyrir gert í till., verður að koma fé einhversstaðar að til að mæta þeim gjöldum. Fjvn. treystir sér ekki til að fara nánar inn á þær till. hv. þm., sem ekki hafa verið ræddar, nema till. hv. þm. Ak., um styrk til sjúkrahúss á Akureyri, en hann hefir nú tekið þá till. sína aftur til 3. umr., og get ég því geymt mér að tala um hana.

Við það, sem ég hefi nú sagt, vildi ég bæta fáeinum aths. út af ræðu frsm. minni. hl., hv. 1. þm. Skagf., og þá einkum út af ummælum hans um framlögin til vega. — Hv. þm. minntist á ríkisféhirðisembættið. Ég tók það fram um þá till. eins og þrjár aðrar, að þær eru fram bornar til þess að koma samræmi í launagreiðslur hjá þeim starfsmönnum, sem þar um ræðir. Það segir sig sjálft, að núverandi ástand má ekki haldast, að forstöðumenn fyrirtækjanna fái lægri laun en venjulegir starfsmenn við þau. Þó er vitað, að forstöðumaðurinn verður að bera alla aðalábyrgðina á fyrirtækinu. Þarna er ekki nema um tvennt að ræða, annaðhvort hækka launin, eða færa þau til samræmis, og að því stefnir till. n. Hinsvegar er þetta áætlunarliður, sem ekki er gott að segja um, hvort greiða verður 2—3000 kr. meira eða minna eftir, og fer það í þessu tilfelli eftir því rekstrarfyrirkomulagi, sem hægt verður að hafa á þessari starfsemi.

Hvað snertir klásúluna við fjárgreiðslu til vinnuhælisins á Litla-Hrauni, þá ber að skilja hann svo, að þeir, sem þar vinna, verði ekki látnir hafa með höndum venjulega verkamannavinnu, þá vinnu, sem verkamenn í nágrenninu byggja atvinnu sína á. Sú stefna hefir alstaðar verið tekin upp í nágrannalöndunum, að láta fanga ekki taka atvinnu frá frjálsum mönnum.

Um brtt. við liðinn um fjárgreiðslur til Nýja-Klepps er sama að segja og ríkisféhirðisembættið, það er tilraun til þess að samræma fjárgreiðslur. Tvö síðastl. ár hafa þessi útgjöld aukizt stórum, — ég viðurkenni það, að kröfurnar aukast náttúrlega við það að sjúklingum fjölgar. Hinsvegar þykir mér það í fyllsta máta óviðeigandi, að þetta sjúkrahús sé rekið án þess að landlæknir hafi nokkuð um það að segja. Það má vera, að n. sé þarna að svíkja sjálfa sig með of lágum áætlunum. En það er hægt að gera hvorttveggja í einu, að færa greiðslur til þessara ríkisfyrirtækja til samræmis, og áætla upphæðirnar svo hátt, að full vissa sé fyrir, að ekki verði fram úr þeim farið. Það er rétt, að lagt er til, að hækkað sé eins mikið tillagið til landsspítalans. En það er líka miklu stærri stofnunn, og ekki verður hjá því komizt að hafa þar allt sem fullkomnast. Enda voru allir, sem lásu skýrslu landlæknis um landsspítalann, á einu máli um það, að kröfunum fyrir hönd þeirrar stofnunar væri stillt mjög í hóf.

Það hefir verið deilt mikið á n. og stj. fyrir það, að umturnað hafi verið till. vegamálastjóra um úthlutun vegafjárins. Ég skal því fara nokkrum orðum um það atriði. Eins og hv. 1. þm. Skagf. minntist á, hafði vegamálastjóri lagt til, að í eina stærstu sýsluna, Suður-Múlasýslu, væru aðeins 5000 kr. veittar í vegi. Þetta nær vitanlega ekki nokkurri átt. Nú er nýbúið að leggja fram mikið fé til þess að gera bílfæran Austurlandsveginn, en það kemur ekki nema að hálfu gagni, ef ekki er undinn bráður bugur að því að koma hinum einstöku héraðsvegum í samband við Austurlandsveginn. Ég hefi sýnt fram á það í fjvn., með hliðsjón af skýrslu vegamálastjóra til Alþ. í fyrra, að á þessu er óhjákvæmileg nauðsyn. Ég skal nefna nokkrar tölur úr þessari skýrslu, til þess að sanna öllum hv. þm. það sama. Í þessari skýrslu er yfirlit yfir alla vegagerð landsins fram til ársins 1933. Landinu er skipt í fjögur umdæmi: Suðurland, Vesturland, Norðurland og Austurland. Á Suðurlandi eru af þeim vegum, sem taldir eru þjóðvegir, 29 km., sem ekki eru akfærir. Af Vesturlandsvegunum eru 179 km. ekki akfærir, á Norðurlandi 112,6 km. og á Austurlandi 404,9 km. óakfærir af þjóðvegunum. M. ö. o.: Í Austfirðingafjórðungi er meira af óakfærum þjóðvegum, samkv. skýrslu vegamálastjóra, en í öllum hinum fjórðungunum til samans. Ef litið er á lengd góðra, akfærra vega, verður sama uppi á teningnum. Af þeim er talið vera á Suðurlandi 329 km., á Vesturlandi 242 km., á Norðurlandi 357 km., og á Austurlandi 77 km. Þarna er Austurlandsvegurinn ekki talinn með, því að hann er byggður á árunum 1933-34. En ekki er hægt að telja hann til góðra akbrauta, mikill hluti hans er aðeins ruddur, og ekki fær nema um bezta tíma árs. Og það er ekki að undra, ef þetta ástand er athugað, þó að Austfirðingum þyki þeir hafa orðið afskiptir að vegafé undanfarið. Sannleikurinn er sá, að þeir hafa aðeins gert litlar kröfur, enda hefir verið tiltölulega þýðingarlítið að verja miklu fé til vegabygginga eystra, fyrr en Austurlandsvegurinn var fullgerður. Og þó að nú séu gerðar nokkru hærri kröfur en áður, skil ég ekki í því, að nokkur maður geti kallað það ósanngirni, eftir að hafa heyrt þessar tölur, sem lýsa ástandinu eystra betur en langar ræður gætu gert. Nú er það svo, að við höfum ekki lagt til, að sú upphæð, sem veita á til vega, verði hækkuð. En við höfum lagt til, að niður verði felldur styrkur til malbikunar á vegum kringum Rvík, en til þess eru ætlaðar 76000 kr. Hér er um tvær stefnur að ræða. Á að fara að byggja upp og malbika vegina í kringum Rvík, t. d. eins og veginn inn að Elliðaám, sem er einn með beztu vegum á landinu, og eyða í það stórfé? Það er önnur leiðin. Hin er sú, að reynt verði að bæta úr brýnustu þörf heilla landsfjórðunga, sem engar viðunandi akvegasamgöngur hafa. Þessa seinni leið vill meiri hl. fjvn. fara. Því teljum við nauðsynlegra að koma upp og halda við Siglufjarðarvegi, Norðfjarðarvegi, Vatnsskarðsvegi, Holtavörðuheiðarvegi og slíkum en að láta malbika góða vegi kringum Rvík. Ennfremur get ég bent á það, að fé til vegaviðhalds og brúargerða hefir að mestu leyti lent á Suðurlandi og í Borgarfirði. Austfirðingar hafa ekki fengið mikil framlög til þeirra hluta. Til vegaviðhalds á að veita samkv. þessu frv. 550000 kr., og er það meira en allt það fé, sem veitt er til nýrra vega. Hvert fer nú þetta fé? Það fer ekki þangað, sem engir góðir akvegir eru, heldur svo að segja eingöngu í þau héruð, sem hafa mikið af góðum akvegum, sem þurfa mikið viðhald. Svona mælir allt með því, að lagt verði kapp á að koma upp og bæta vegina á Austurlandi og koma héraðsvegunum í samband við Austurlandsveginn.

Það eru líka fleiri lækkunartill. hv. minni hl., sem snerta mjög Austfirði. Ég vil þar til nefna lækkunina á atvinnubótafénu, sem auðvitað snertir þennan landshluta ekki síður en aðra. Ef brtt. þeirra um framlag til strandferða ríkissjóðs yrði samþ., mundi það gera erfiðara fyrir með samgöngur á sjó til Austfjarða. En meðan við höfum engar samgöngur á landi, er okkur lífsnauðsyn að hafa sem beztar samgöngur á sjó. Og ég held, að ekki sé varlegt að áætla rekstrarhalla ríkisskipanna lægra en frv. gerir ráð fyrir. Yrði klipið af tillaginu, kæmi það fyrst og fremst niður á Austfirðingum, sem hafa engar aðrar ferðir, nema lítillega Bergensku skipin. Þá er till. þeirra um niðurfellingu styrks til rafveitu á Eiðum og Hallormsstað beint gegn þessum fjórðungi. Þessir skólar hafa verri aðstöðu en nokkrir aðrir skólar á landinu, en tilætlunin með þessum styrkjum er að létta nokkuð undir með þeim. Það er því í fyllsta máta ósanngjarnt að vilja fella þá niður. Styrkur til sjúkrahúss á Reyðarfirði er veittur eftir till. landlæknis. Bygging þessa húss var áætluð nokkuð öðruvísi í upphafi en nú er til ætlazt að það verði og þó að liðurinn sé látinn standa óbreyttur, má nota hann á nokkuð öðrum grundvelli. Landlæknir sagði á fundi með fjvn., að þessu máli þyrfti að skipa öðruvísi en ráð hefði verið gert fyrir í upphafi. N. var honum sammála um það, en sá hinsvegar ekkert á móti því, að liðurinn stæði áfram. Ég sé ekki heldur, að það saki neitt, þó liðurinn standi. Það er aðeins eitt ófullkomið sjúkrahús á Seyðisfirði; annarsstaðar eru engin.

Ég þarf svo ekki að bæta fleiru við, og geri ekki ráð fyrir því, að ég taki aftur til máls. Ég hefi vikið að flestum till. og býst við, að þær, sem eftir eru, séu ekki svo mikilvægar, að þar þurfi neinu að svara.