05.12.1934
Efri deild: 53. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 1919 í B-deild Alþingistíðinda. (2854)

71. mál, fiskimatsstjóri

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason) [óyfirl.]:

Ég átti ósvarað nokkrum atriðum, þegar umr. var frestað og málið var tekið út af dagskrá. Það er svo langt síðan, að ég mun ekki hirða um að fara mjög langt út í þetta. Ég vil geta þess, að komið hafa fram nokkur atriði í andmælum bæði hv. þm. N.-Ísf. og hv. 1. þm. Skagf. í tilefni af brtt. meiri hl. n., sem ég vil víkja lítið eitt að.

Ég vil minna á það fyrst og fremst, að ég tel það ýkjur hjá þessum hv. þm., að halda því fram, að matinu hafi stórhrakað. Ég held, að það megi að ýmsu leyti til sanns vegar færa, að fiskurinn hafi reynzt lakari upp á síðkastið heldur en áður fyrr. Þetta stafar af því, ekki sízt, að síðustu árin hefir sumu af fiskinum, sem áður var eftirspurn eftir á Barcelonamarkaðinum, sérstaklega Ausfjarðafiskinum, af einhverjum ástæðum verið haldið til baka, þannig að þegar fiskurinn loks var kominn á markaðinn, var hann orðinn eldri en áður hefir átt sér stað um íslenzkan fisk, sem sendur hefir verið til Suðurlanda. Þessu til sönnunar vil ég taka það fram, að nú mun vera fullur helmingur af öllum ársaflanum á Austurlandi, og þegar þess er gætt, að þessi helmingur, sem eftir er, er einmitt samskonar fiskur og undanfarið hefir selzt á Barcelonamarkaðinum, þ. e. léttverkaður fiskur, og þótt svo kunni að reynast, að þessi fiskur þyki ekki eins góður á markaðinum og samskonar fiskur hefir þótt undanfarið, þá þarf það ekki að vera af þeim ástæðum, að matinu hafi hrakað. Ég vildi benda á þetta, til þess að sýna fram á að ýmislegt getur komið til greina í þessu efni, þegar ráðstafanir á fisksölunni eru orðnar þannig, að fiskurinn þarf að bíða miklu lengur en áður, því að þá er alltaf hætt við, að hann reynist ekki eins vel. Þetta vildi ég taka fram sérstaklega, vegna þess að ég hefi heyrt, bæði á þingi og utan þings, að matshrakið gildi ekki sízt um Austfirði.

Ég fyrir mitt leyti lít þannig á þessa matsstjóra, að í raun og veru byggi menn ekki mikla von á því, að þeim takist að framkvæma miklar umbætur á matinu, heldur að þeir gætu haft betri heildaryfirsýn yfir matið, sérstaklega með tilliti til þeirra krafna, sem Spánverjar hafa gert til fyrirkomulagsins á þessu sviði. Ég mun nú ekki fjölyrða öllu frekar um þetta. Það eru vitanlega allir sammála um, að rétt sé og heppilegt í alla staði, að gerð sé umbót í þessu efni, enda þótt hún sé meira í orði en á borði tilraun til umbóta á fiskimatinu.

Ég skal geta þess, að eftir að meiri hl. sjútvn. gaf náð tali af erindreka Íslendinga á Spáni, hefir meiri hl. komið sér saman um að taka aftur a-lið 1. brtt. Þetta stafar af því, að erindrekinn telur, að sitt starf suður frá sé svo margþætt og víðtækt, að það skilji engan tíma eftir handa honum til þess að sinna þeim matsstjórastörfum heima á Íslandi, sem frv. gerir ráð fyrir. Að þessu athuguðu hefir meiri hl. n. tekið þá ákvörðun, að a-liðurinn yrði tekinn til baka. Aftur á móti heldur hann fast við hinar brtt., og telur hann, að þær séu tvímælalaust til mikilla hagsbóta í þessu efni og óskar þess vegna, að hv. deild verði við þeim. Ég geri hinsvegar ráð fyrir, að a-liðurinn verði aðallega

þyrnir í augum sumra þeirra manna, sem talað hafa við fyrri hl. þessara umr.