03.11.1934
Neðri deild: 27. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2030 í B-deild Alþingistíðinda. (2931)

109. mál, dragnótaveiðar í landhelgi

Finnur Jónsson:

Ég tel ekki þörf á að lengja meira umr. um þetta mál, en vildi bara segja það út af því, sem hv. þm. Borgf. vék að mér í gær, að ef hann vill flytja till. um það að afnema allt dragnótaveiðabann hér við land til þess að allir geti verið jafnir, þá skal ekki standa á mér að styðja þá till. Viðvíkjandi því, sem hann var að segja, að menn væru yfirleitt með dragnótabanni á Vestfjörðum, þá skal ég upplýsa það, að menn eru þar bæði með og móti. Þeir, sem ekki hafa kynnt sér þetta veiðarfæri, eru á móti því, en þeir, sem hafa reynt það, vilja, að landhelgin sé opnuð fyrir dragnótaveiði. Það hefir farið með þetta veiðarfæri eins og annað, sem gott er og vel reynist, að þeir, sem hafa reynt það, vilja ekki sleppa því. Þó svo sé, að yfirleitt er lokað landhelgi hér við land fyrir dragnótaveiði nema á vissum tímum árs, þá er það hin mesta fjarstæða að vilja láta loka landhelginni á þeim stöðum, þar sem menn eru vanir þessari veiði og menn hafa fengið sannanir fyrir því, að veiðibannið er hrein fjarstæða og bábilja.

Þær áskoranir, sem hv. þm. var að spyrja eftir, voru ekki í mínum höndum við byrjun þessara umr., en nú hafa þær borizt sjútvn. Þær eru frá mörgum mönnum bæði í Keflavík og Vestmannaeyjum. — Ég lofaði að teygja ekki úr þessum umr., en ég verð að benda á það, að þegar þörfin er svo brýn á að takmarka saltfisksútflutninginn, og hinsvegar að hafa sem verðmestan þann fisk, sem við flytjum til Bretlands, vegna innflutningstakmarkana þar, þá sýnist ekki ástæða til að vera að spilla fyrir því, að sjómenn hér við Faxaflóa fái að njóta þessarar veiði. Það er því full ástæða til að gefa það leyfi, sem í frv. felst.