30.11.1934
Sameinað þing: 17. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í B-deild Alþingistíðinda. (294)

1. mál, fjárlög 1935

Sigurður Einarsson [óyfirl.]:

Ég hafði ekki hugsað mér að tala langt mál hér að þessu sinni, og geri það ekki, svo að það, sem ég hér segi, verði ekki til þess að lengja umr. úr hófi fram. — Ég hjó eftir því áðan, þegar minnzt var á hækkun á styrk til Þórbergs Þórðarsonar, að hv. þm. Ak. lét svo um mælt, að menn vissu lítið, hvernig háttað væri störfum hans að því er snerti orðasöfnun úr alþýðumáli. Ég skal nú upplýsa, að mér er þetta kunnugt mál.

Eins og margir munu kannast við, skrifaði Þórbergur Þórðarson bækling um orðasöfnun, mjög nákvæman leiðarvísi, og sendi til þeirra manna, sem við þau störf fengust. Síðan er mér kunnugt um, að hann fékk menn svo að segja í hverju byggðarlagi til þess að vinna að í frístundum sínum orðasöfnun úr alþýðumáli og töluðu máli, eftir þessum leiðbeiningum. Hefir hann á hverju ári reynt að halda við þessum hóp samverkamanna, sem vinna af áhuga að þessu máli og senda honum árangur sinna athugana og uppskriftir.

Þeir, sem dálítið þekkja til vinnubragða Þórbergs, vita, að maðurinn er ákaflega vandvirkur og á erfitt með að láta frá sér fara hlut, sem ekki er vandlega unninn. Orðin hefir hann skrifað á seðla og raðað í kassa, og frá þessu er gengið á hinn snyrtilegasta hátt, og er þegar orðið mikið safn. Þetta vildi ég, að kæmi fram, til þess að enginn skyldi vera í vafa um, að Þórbergur hefir engan veginn slegið slöku við það, sem honum var ætlað að gera á þessu sviði. Það kom fram í viðtali við hann, að hvenær sem gefin væri út stór orðabók, og að hverjum, sem þetta orðasafn vildi nota, stæði það til boða með þeim góða frágangi, sem á því er.

Viðvíkjandi því, sem fram hefir komið um hækkanir á öðrum sviðum, þá vil ég láta þess getið, að mér er kunnugt um, að frá sjónarmiði margra menntamanna og menningarvina í landinu er þeim tíðindum tekið með fögnuði, ef þingið sér sér fært að gera dálítið vel við Halldór Kiljan Laxness, þó að um hann séu að öðru leyti skiptar skoðanir.

Ég ætla ekki að minnast á þær. brtt., sem einstakir þm. hafa borið fram, né heldur þær, sem hv. frsm. minni hl. fjvn. hefir mælt fyrir, því að ég veit, að frsm. meiri hl. mun gera það. En sem leikmaður í þeim efnum langar mig samt sem áður til að láta í ljós að því er snertir aths. um Búnaðarfél. Íslands, að ég tel hana vera til mikilla bóta. En þar með er ekki sagt að um samsæri sé að ræða á hendur Búnaðarfélagi Íslands né einstökum starfsmönnum þess. En það er engum vafa bundið, að margir, og ekki sízt bændur, líta þannig á, að minni glæsibragur og annarsháttar bragur hafi verið á starfsemi Búnaðarfélagsins undanfarin ár en æskilegt væri með tilliti til þess, hve mikið fé frá því opinbera félaginu er ætlað til starfsemi sinnar, og hve mikið hið opinbera á undir félaginu um, að sem bezt not verði að þessu fé. Maður verður þess var annað veifið, að það gerast atriði í stjórn þess og háttum, sem eru alveg óskiljanleg, a. m. k. frá mínu sjónarmiði sem leikmanns í búnaði. Ég skal taka lítið dæmi. Á síðasta búnaðarþingi ætla ég að það hafi verið, sem Búnaðarfélag Íslands veitti Ræktunarfélagi Norðurlands 4 þús. kr. til viðbótar fjósbyggingu, sem Ræktunarfélagið var að framkvæma. Nú er, eftir því sem ég bezt veit, Ræktunarfélag Norðurlands algerlega sjálfstæð stofnun og þar af leiðandi ekki beinlínis á könnu Búnaðarfélagsins. En á því sama búnaðarþingi, sem þetta fjármál var til meðferðar, fór bústjórinn á Sámsstöðum í Fljótshlíð þess fastlega á leit, að hann fengi fjárstyrk sem þessu svaraði til fjósbyggingar á Sámsstöðum. Nú er mér um það kunnugt, að Klemenz bústjóri taldi á þessu hina mestu þörf og færði að því gild rök, að ýmsar afurðir á Sámsstöðum yrðu ekki að fullum notum né kæmust í verð, nema með því að fóðra á þeim gripi. En það undarlega vill til, hvernig sem því víkur við, að Búnaðarfél. ákvað að láta fjósbyggingu Ræktunarfélagsins sitja fyrir fjósbyggingunni á sínu eigin búi á Sámsstöðum. Og mér er óhætt að fullyrða, að þessi myndarlegi búskapur á Sámsstöðum er rekinn á ábyrgð Klemenzar og í fullri óþökk stjórnar Búnaðarfélags Íslands. — Þetta er lítið dæmi þess, að mönnum, sem utan við þetta standa, finnst stundum sá bragur á aðgerðum stj. Búnaðarfél. Íslands, að þeim gæti dottið í hug, að öðruvísi mætti betur fara. Ég er ekki með þessu að halda fram, að Ræktunarfél. Norðurlands sé ekki alls góðs maklegt, og ég hygg, án þess að það út af fyrir sig réttlæti nokkuð svona undarlega ráðstöfun, að hjá Ræktunarfél. Norðurlands séu gerðar tilraunir með mismunandi geymslu og hirðingu áburðar, og er það góðra gjalda vert, ef það tekur að sér slíkar athuganir.

Það er fleira, sem telja mætti af þessu tægi, sem í augum mínum og fjölda margra annara gerir það að verkum, að við lítum svo á, að þessi orð séu í raun og veru í tíma töluð, ef menn hafa það fyrir augum að gera nauðsynlegar endurbætur á skipulagi og starfsemi Búnaðarfél. Íslands.

Það var flutt inn undir umsjón Búnaðarfél. Íslands karakúlfé til kynbóta eins og mönnum er kunnugt. Þarna er um ákaflega ábyrgðarmikla tilraun að ræða, sem byggist á, hvernig tilraunin gefst, hvort menn sjá sér fært í framtíðinni, og hvort hægt sé að greiða fyrir bændum um að hafa fleiri möguleika og meira upp úr búum sínum.

Mér er ekki kunnugt um, að nokkur sérfræðingur á sviði erfðafræðinnar hafi komið nálægt því að velja þetta fé, þótt svo hefði átt að vera, þó að þetta fé sé keypt frá góðri uppeldisstofnun. Um árangurinn er kannske of snemmt að spá ennþá. En ég hefi það fyrir satt frá mönnum, sem reynslu hafa, að einnig þar mætti betur fara.

Það er náttúrlega alltaf góðra gjalda vert, þegar á að spara, og Búnaðarfél Ísl. hefir auðsjáanlega ætlað að spara, þegar það lét hrossaræktarráðunautinn verða gjaldkera hjá félaginu. Það er vafalaust ekki ofborgað, en svo framarlega sem hann hefir tíma til að annast gjaldkerastörfin, þá er sýnilegt, að hann er ekki allur í starfi sínu sem hrossaræktarráðunautur, og sá grunur staðfestist af því, hvernig verkum þessa manns hefir verið hagað, samkv. ákvörðun yfirstjórnar Búnaðarfélagsins eða hans sjálfs, undanfarin ár. Þarna er maður, sem tekur full laun sem hrossaræktarráðunautur og auk þess gjaldkeralaun, sem að vísu eru ekki há, en hitt er augljóst, að gjaldkerastarfið tekur nokkurn tíma, sem áreiðanlega er þá ekki varið í þágu hrossaræktarinnar.

Fleiri dæmi mætti nefna. Og ég ætla að láta í ljós allrökstuddan grun um það, að í grundvallarreglum þeim, sem farið hefir verið eftir við útbýtingu styrkja til einstakra búnaðarsambanda, hafi kennt nokkurrar ónákvæmni, og þessum fjárveitingum hafi ekki verið hagað eftir því, sem framundan var á hverjum stað, heldur nokkuð af handahófi. Ef út í þá sálma er farið, get ég leitt að þessu frekari rök. Þannig er um fleira, sem gerir það að verkum, að það er áreiðanlega litið á það sem orð í tíma töluð, að Alþ. hafi það a. m. k. bak við eyrað að koma nýju og nútímabærara skipulagi á Búnaðarfélagið heldur en verið hefir.

Ég veit ekki, hvort á að skrifa það á reikning hv. 10. landsk. eða Búnaðarfélagsins, hvernig til tókst ekki alls fyrir löngu, þegar gera átti tilraun með, hvort ekki væri efnilegt til hagsbóta fyrir bændur hér að ala nautpening til frálags, sem að nokkru leyti sæi fyrir sér sjálfur. Þegar nú átti að fara að gera þessa tilraun, kom í ljós, að það kostaði mikið fé að útvega harðgerða nautgripi frá Skotlandi, en ekki þótti tryggilegt að reyna minna en þrjár mismunandi tegundir. Og hvað sem því hefir nú valdið, sparnaðarástæður eða annað, kvað þetta hafa verið framkvæmt þannig, að af tveimur tegundunum var aðeins keyptur sinn bolinn af hvorri og af þriðju tegundinni ein kvíga, en enginn boli. Ef til frambúðar hefir átt að reyna, hvernig þessum gripategundum gengi að bjarga sér hér á landi og verða að gagni til kjötframleiðslu, er ekki annað sjáanlegt en bolunum hafi verið ætlað að verpa eggjum eða eitthvað þessháttar til þess að víðhalda kyninu. Hvort hv. 10. landsk. hefir ráðið þessu, læt ég ósagt, því fleiri munu vilja spara fyrir föðurlandið heldur en hann.