24.11.1934
Neðri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2287 í B-deild Alþingistíðinda. (3045)

148. mál, stimpilgjald

Gísli Sveinsson:

Hér er allt öðru máli að gegna nú en áður, á þeim þingfundum, sem vitnað var til, þegar einn þdm, úr Sjálfstfl. var fjarstaddur. Sá þm. var löglega forfallaður sökum veikinda. En nú hefir allstór flokkur hv. þdm., 4 eða 5, tekið sér fundarfrí án leyfis hæstv. forseta. Það mætti æra óstöðugan að eltast við þá þdm., sem fara leyfislaust af fundi og tefja með því framgang mála. Í annan stað má á benda, ef stjórnarliðið þorir ekki að láta atkvgr. fara fram um þetta mál, að einn sjálfstæðism. er fjarstaddur sökum veikinda, og Bændafl. þessarar þd. er allur á brautu og hefir ekki áhrif á atkvgr. — Hinsvegar eru sósíalistar nær allir viðstaddir, a. m. k. annað veifið, svo að hér eru ekki á neinn hátt sambærilegar ástæður og á þeim þdfundi, sem vísað var til, þegar samkomulag var um, að hæstv. forseti greiddi ekki atkv. af því að einn sjálfstm. var fjarstaddur. En nú er búið að gera grein fyrir því, að ekki er um lögleg forföll eins þm. að ræða, heldur hitt, að nokkrir þdm. úr stjórnarliðinu og allur Bændafl. eru einhverstaðar að leika sér austur í sveitum.