03.12.1934
Sameinað þing: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í B-deild Alþingistíðinda. (321)

1. mál, fjárlög 1935

2) HannJ:

Þessi yfirlýsing, sem hér var gefin áðan, er ekkert annað en kattarþvottur hæstv. ráðh. og stjórnarflokkanna. Hæstv. ráðh. hefir sjálfur lýst því yfir á opinberum fundi, að verð á útfluttu kjöti mundi í ár verða allt að 10 aurum lægra hvert kg. en í fyrra, og að verðmunur á kjöti, seldu á innlendum og útlendum markaði, mundi nema 23 aur. á hvert kg. Þetta lága verð á útfluttu kjöti þola bændur ekki. Hér er farið fram á að veita stj. heimild til greiðslu, ef nauðsyn ber til, og þá heimild þarf hún að hafa, ef hún vill eitthvað létta undir með bændunum vegna þess lága verðs, sem líkur eru til, að verði á útflutta kjötinu. Að engir peningar séu fyrir hendi til að standast þessa greiðslu er tylliástæða ein, og segi ég því já.