10.12.1934
Neðri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2332 í B-deild Alþingistíðinda. (3322)

49. mál, ritsíma- og talsímakerfi

Frsm. (Gísli Sveinsson) [óyfirl.]:

Ég þarf ekki að svara öðru en ræðu hv. þm. Borgf. Annarsvegar get ég þá endurtekið það, ef hann vill, að þær skýrslur, sem n. byggir á, eru frá landssímastjóra. N. hefir alls ekki tíma til að fara út um héruð landsins til þess að kynna sér þessi mál með því að grúska í bókum sýslnanna til að gæfa að því, hvað bókað sér þar, að samþ. sé um þessi efni. Líka getur vel verið, að ekkert standi um þetta í bókum sýslnanna, vegna þess að sýslurnar hafi ekki einar með að gera samþykktir í þessu efni. Það getur líka verið mikið um línur úti um sveitir, sem margir standa að og ekki eru framkvæmdar nærri að öllu leyti í einu. Þegar svo til framkvæmda kemur, þá eru þær gerðar í samráði við landssímastjóra. Sumstaðar er búið að lengja línur og ákveða áframhald þeirra í sambandi við þá aðila, sem að verkinu standa í héraði. Þeir aðilar þurfa ekki endilega að vera sýslunefndir, heldur geta þeir verið einstakir menn eða sveitabæir. Í þessu tilfelli veit ég ekki til, að sýslan geri það, heldur mun sveitasjóður vera í ábyrgð, þó að sýslan standi þar að baki.

Línan frá Þyrli að Stóra-Kroppi er að miklu leyti komin sem einkalína, og hér er um framlengingu að ræða á línunni frá Saurbæ að Þyrli, sem, eins og sagt hefir verið, er einkalína, samkv. samningi, til þess að bæirnir meðfram línunni gætu komið inn á línuna.

Línurnar frá Vogatungu að Hlíðarfæti og frá Vogatungu að Melum í Melasveit segir landssímastjóri að eigi að vera einkasímalínur, til þess að allir bæirnir á leiðinni geti notið þeirra.

Þá er línan frá Grund um Indriðastaði að Ytri-Skeljabrekku. Um fyrri hl. þessarar línu hefir þegar verið samið, að hún skuli vera lögð sem einkasímalína, og svo nákvæmlega samið um þetta, að ákveðið hefir verið að leggja þennan hluta línunnar, þ. e. línuna frá Grund að Indriðastöðum, á næsta sumri. Þannig er í einstökum atriðum samið um þetta. Það er búið að gera fulla gangskör að þessum samningum frá báðum hliðum. Þegar athugað er, að þessar upplýsingar eru komnar beint frá landssímastjóra, þá er fyllsta ástæða til að ætla, að rétt sé skýrt frá, enda engin ástæða til að ætla, að hv. landssímastjóra hafi dottið í hug að ljúga að nefndinni.

Það getur vel verið, að einhverjar óskir einhverra manna séu til um það, að þessum hlutum ætti að breyta. En það er reyndar alltaf, að ekki eru allir á eitt sáttir. Ég álít, að hv. þm. Borgf. ætti á þessu þingi að látu sér nægja það, sem þegar hefir verið tekið upp af hans brtt., og ræða svo síðar um það, hvort möguleiki sé á að taka hitt upp á næsta þingi. Og þá er gefið, að gera þarf einhverjar breyt. heima í héraði hv. þm. áður en hægt er að setja það inn í l. um ritsíma.