12.12.1934
Efri deild: 59. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2227 í B-deild Alþingistíðinda. (3355)

77. mál, áfengislög

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að lengja mikið umr., sem eru nú þegar orðnar allýtarlegar. En af því að þetta er stórmál og þýðingarmikið, vildi ég segja nokkur orð um leið og það er afgr. út úr deildinni.

Þegar atkvgr. um bannið fór fram árið 1908, voru miklar vonir um það í landinu, að takast mætti að útrýma víninu, og úrslit atkvgr. má telja ávöxt af starfi templara og annara bindindisvina um 30 ára skeið. Það er enginn efi á því, að hægt hefði verið að láta rætast drauma þeirra manna, sem vildu útiloka vínið að fullu og öllu, ef ekki hefðu komið í ljós sérstakir örðugleikar í landinu sjálfu, og auk þess ytri örðugleikar. Hinir innri örðugleikar, sem gerðu vart við sig, lágu í því, að embættismannastéttin, eða mikill hluti þeirra manna, sem áttu að gæta laganna, voru þeim andvígir og sýndu hvorki áhuga né skilning á málinu. Maður nokkur, sem hér var staddur og kunnugur var í Bandaríkjunum, sagði, að óhugsandi væri, að slík lög þrifust í landi, þar sem embættismennirnir sætu æfilangt og væru ekki kosnir af þjóðinni sjálfri. En þar vestra eru embættismennirnir kjörnir til skemmri tíma og sjá sér því síður fært að standa á móti vilja almennings. (MG: Hvernig fór með bannið í Bandaríkjunum?). Það var af öðrum ástæðum, að bannið misheppnaðist þar. Auðmenn Bandaríkjanna grófu undan málinu, og með aðstoð bruggaranna tókst að eyðileggja það. Hér á landi komu svo ytri örðugleikar til sögunnar. Spánverjar settu okkur þung skilyrði í verzlunarmálum, og þegar greidd voru atkv. um Spánarundanþáguna hér á Alþingi, greiddu aðeins 2 þm. atkv. á móti, núv. formenn Alþfl. og Framsfl. Það hafði auðvitað ekki aðra þýðingu en að sýna, hve útlenda kúgunin var mikil, en á því þingi sagði núv. form. alþfl., að hann vildi heldur afnema bannlögin með öllu en að gera það, sem þá var gert. En það, sem þá gerðist, var í raun og veru afnám bannlaganna og eftir það varla hægt að tala um annað en takmörkun á áfengissölu. Afleiðingar þessarar undanþágu komu líka brátt í ljós. Smygl og læknabrennivín færðist í aukana og skipin urðu að fljótandi vínbúðum. Stjórn sú, sem sat að völdum 1927–31, beitti sér fyrir allmikilli herðingu á áfengislöggjöfinni, og framkvæmd í því efni hafði þau áhrif, að skipin hættu að vera fljótandi áfengisbúðir og læknabrennivínið hvarf að miklu leyti. En að sama skapi var aukin mótstaðan af hendi þeirra manna og þeirra blaða, sem stóðu að stærsta stjórnmálaflokknum í landinu og vildu eyðileggja löggjöfina frá 1928. Af hendi þessara manna var logið upp á gæzlumenn laganna, bornar út sögur um, að á þá hefði verið ráðizt og þeim misþyrmt. Það var reynt að grafa undan málinu í stað þess að styðja það eðlilega aðhald, sem að var stefnt með löggjöfinni. Það má segja templurum til hróss, að þeir studdu stjórnina 1928 við þessa tilraun um breytta löggjöf til þess að halda opinberri ofdrykkju niðri. En þegar lögin komu til framkvæmda, bilaði sá hópur, og þeir, sem voru undir áhrifum þeirra blaða, sem reyndu að rífa áfengislöggjöfina niður, skárust úr leik. Þegar það varð ljóst, að templarar gátu ekki staðið með þeim lögum, sem þeir áttu helztan þátt í að voru sett, var mótstaða þeirra í raun og veru brotin á bak aftur. Svo kom að endalokum málsins á þann veg, að þegar tekizt hafði að dragar úr skipabrennivíni og læknabrennivíni og ráðstafanir höfðu verið gerðar til þess að koma í veg fyrir, að fullir menn væru á slangri um götur höfuðstaðarins, þá reyndu andstæðingar málsins að kynda undir þá sterku löngun, sem margir Íslendingar hafa til víndrykkju. Þeir hvöttu menn til þess að brjóta lögin, og þá var farið að brugga. Áður en stj. fór frá, hafði hún samið við Björn Blöndal um löggæzlustarf, til þess að reyna að vinna á móti brugginu. Þessi maður hefir sýnt ákaflega mikinn dugnað í starfi sínu, og hann hefir sýnt það, að það væri hægt að halda brugginu í skefjum og láta það fara sömu leiðina og lækna- og skipabrennivínið. En Björn Blöndal stóð nærri því einn í starfi sínu, og á sama tíma var sett fram af þeim mönnum í landinu, sem alltaf hafa viljað bannið feigt. Í skjóli þeirrar sóknar fór atkvgr. í fyrra fram, þar sem nokkur meiri hl. þeirra, er atkv. greiddu. óskaði eftir afnámi bannsins að fullu og öllu. Í dag er nú verið að ljúka þessari tilraun í baráttunni við áfengið. Ég geri ekki ráð fyrir, að þessi kapítuli í sögu málsins verði talinn tilgangslaus. Íslendingar voru fyrsta þjóðin, sem gerði þessa djörfu tilraun, og við höfum a. m. k. safnað mikilsverðri reynslu. Við eigum minningar bæði um sigra og ósigra, og ég geri ráð fyrir, að byggt verði á þessari reynslu, sem við höfum aflað okkur.

Ég sé ekki ástæðu til að halda í leifar bannsins. Með atkvgr. í fyrra, þó að hún væri ekki fullkomin, hefir þjóðin lýst því yfir, að hún vildi ekki halda lengra á þessari leið. Ég þykist þess þó fullviss, að baráttan verði færð yfir á ný svið. Sá kapítuli, sem við höfum skrifað í okkar sögu síðan 1908, er nú á enda. En þegar Alþingi fyrir 2–3 árum lagði inn á þá braut að styrkja templara og skóla landsins til þess að vinna á móti áfenginu, hófst nýr kapítuli í sögu þessa máls. Mitt traust til skólanna hefir ekki brugðizt. Ég hefi nýlega talað við tvo drengi frá Akureyrarskóla, sem sótt hafa hingað fund um þetta mál, og fregnir, sem berast frá skólunum, eru þær, að víðast hvar er þátttakan í bindindisstarfinn mjög almenn meðal nemenda, og gefur það góðar vonir í þá átt, að unga fólkið í landinu ætli ekki allt inn á leið vínnautnarinnar, þó að nú sé breytt um tilhögun þessa máls. Ég geri ráð fyrir, að það væri ekki óhugsandi leið, að tekið væri t. d. upp sænska fyrirkomulagið um það að skammta áfengið. Ég hygg, að það væri alveg rétt af þeirri hæstv. stj., sem við þessari atkvgr. tók, en hún er ekki ánægðari með hana en það, að ég hygg, að allir ráðh. hafi helzt viljað, að þeir þyrftu ekki að koma nálægt þessu afnámi á banni á sterkum drykkjum, og einn þeirra mun sennilega greiða atkv. á móti því. En ég hygg samt sem áður, að þótt hæstv. stj. hafi flutt þetta sem nauðungarfrv., sem hún er skyldug til þess að flytja, þá hafi verið rétt að fara ekki strax inn á nýjar brautir, en gefa þjóðinni tækifæri til þess að átta sig á því, hvaða nýjar ráðstafanir þarf að gera til þess að leysa úr þeim vandræðum, sem hér eru á ferðinni. En ef við samþ. húsbyggingu góðtemplara, þá er það einskonar merki um það, að þjóðfélagið vilji styðja templara til þess að vinna á móti öfgafullri áfengisnotkun, eins og gert hefir verið áður.

Ég sé, að einn af hv. landsk. þm. hefir komið með þá till., að fellt verði niður, að áfengissektarfé renni til Menningarsjóðs. Þetta hlýtur að stafa af ókunnugleika, því að það mun mála sannast, að ekki þyki það horfa til menningar, að um leið og gert er auðveldara að drekka og búast má við að áfengið skoli enn fleirum ofan í rennuna en undanfarið, þá á að fara að klípa af þeim litlu tekjum, sem runnið hafa af sektarfé í Menningarsjóð. Ég vil tilkynna hv. 5. landsk. það, að ef þessi brtt. yrði samþ., þá mundi ég bera fram till. um það á næst, þingi, að þær 60 þús. kr., sem fást af áfengisgjöldum og sektarfé, renni allar til þeirrar menningar, sem studd er af þessum sjóði. Hv. þm. hlýtur að vita, að þessir peningar, þetta litla styrktarfé., hefir verið aðalstoð allra lista í landinu á undanförnum árum. Þessi hópur ungra og ágætra manna hefir jafnvel átt við hungur að stríða til þess að geta leyst af hendi ódauðleg listaverk. Þeirra aðalhjálp eru þessar litlu tekjur, sem teknar eru af áfengisgjöldum og sektarfé. Þegar menn hugsa um, að land okkar er að mestu leyti órannsakað náttúrufræðilega, þá liggur það í augum uppi, að það er ekki hyggilegt að taka þann litla hluta þessa styrks af vísindamönnum þeim, sem við þessar ransóknir fást, sem þeim er ætlaður.

Sama er að segja um þann hluta styrksins, sem gengur til bókaútgáfu í landinu. Vegna dýýrtíðar og fámennis má segja, að þannig sé nú ástatt, að sárafáir bókaútgefendur treysti sér til þess að gefa út bækur. Þess vegna tel ég alveg ófært að fara að leggja þennan litla styrk niður. Ég veit að vísu, að þessar till. hv. 5. landsk. verða felldar, en það er ekki nóg, því að þessar tekjur, sem sjóðnum eru ætlaðar, eru svo rýrar, og sérstaklega hafa þær verið það síðustu 2 ár, sökum þess að áfengislögunum hefir verið slælega framfylgt og mikið hefir verið gefið eftir af sektarfénu. Þess vegna er ekki sízt nauðsynlegt, að landinu verði sómi sýndur í þessu efni einmitt núna. Ég er að vissu leyti þakklátur hv. 5. landsk. fyrir að hafa minnzt á þetta mál, enda þótt það hafi verið á annan veg heldur en æskilegt hefði verið. Að öllu athuguðu er það augljóst, að nauðsynlegt er að gera meira í þessu efni heldur en gert hefir verið.