15.12.1934
Sameinað þing: 23. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

1. mál, fjárlög 1935

Frsm. meiri hl. (Jónas Guðmundsson):

Þegar fjárlfrv. var afgreitt til 3. umr. var tekjuhallinn á því 1 millj. 784 þús. kr. Til þess að jafna þennan tekjuhalla hafa síðan verið afgr. frá þinginu þessi tekjuaukafrv.

1. Frv. um tekju- og eignarskatt, sem áætlað er, að gefi í viðbótartekjur 850 þús. kr.

2. Breyt. á tollalögum, sem áætlað er, að gefi 230 þús. kr. í tekjur.

3. Breyt. á l. um innlendar tollvörutegundir, sem áætlað er, að gefi í tekjur 170 þús. kr. Þá er ennfremur breyt. á l., um einkasölur ríkisins:

1. Breyt. á l. um víneinkasöluna, það eru hárvötn o. fl. Tekjur af því áætlaðar 50 þús. kr. 2. Breyt. á l. um tóbakseinkasölu; það er viðbót vegna einkasölu á eldspýtum. Tekjur af henni áætlaðar 30 þús. kr.

Þessir tekjuaukar gera samtals 1350 þús. kr. Eins og nú standa sakir er því tekjuhallinn á frv. 435 þús. kr. Verði svo frv. um breyt. á útflutningsgjaldinu samþ. þá lækkar tekjuáætlunin um 150 þús., og samkv. því verður þá tekjuhallinn orðinn 585 þús. Við þann tekjuhalla má svo bæta leiðréttingu á tekjuafgangi útvarpsins, sem nemur 12 þús. kr. Hinn raunverulegi tekjuhalli frv. er því nú ca. 600 þús. kr.

Meiri hl. fjvn. ber nú fram brtt. til útgjalda, er nema ca. 120 þús. kr., og auk þess eru væntanlegar frá meiri hl. enn till. til hækkunar, er nema um 50 þús. kr. Verði þessar till. allar samþ., þá er tekjuhalli frv. orðinn full 3/4 millj. kr. Til þess að mæta þessum tekjuhalla eru tvö frv., sem komin eru langt áleiðis í þinginu. Fyrst frv. um gengisviðaukann, sem áætlað er, að gefi í tekjur 340 þús. kr., og í öðru lagi frv. um breyt. á stimpilgjaldinu, sem áætlað er, að gefi um 150 þús. kr. Þetta gerir samtals nær ½ millj. kr. Er þá eftir raunverulegur rekstrarhalli á frv. rúm ¼ millj. kr. Til þess að jafna þennan halla, mun fjvn. innan stutts tíma bera fram sparnaðartill. til jöfnunar. Í frv. hefir fjvn. ekki gert ráð fyrir tekjum af einkasölu á bílum, enda er þar aðeins um heimild að ræða, sem ekki er víst, hvenær eða hvernig verður notað.

Ég ætla ekki að þessu sinni að fara inn á brtt. þær, sem komið hafa fram frá minni hl. fjvn. og einstökum þm. Þær eru allar til útgjaldahækkunar og nema samtals 1 millj. kr. Yrðu þær samþ., væri tekjuhallinn á frv. orðinn 1¼ millj. Þýddi þá lítið að vera að reyna að afgr. tekjuhallalaus fjárlög, ef að slíku væri horfið.

Þá eru ábyrgðirnar. N. hefir haldið fast við þá stefnu, að ríkið tæki engar ábyrgðir á sig, aðrar en þær, sem það var að meiru eða minna leyti búið að flækja sig í áður. Hún hefir því synjað öllum nýjum ábyrgðarbeiðnum. (Forseti: Ekki Skallagrími í Borgarnesi). „Ekki Skallagrími í Borgarnesi“, segir hæstv. forseti. Sú ábyrgð var tekin með sérstökum lögum, og hefir því meiri hl. Alþingis ákveðið að taka hana á ríkið, en ekki fjvn. Annars er það svo um þessa ábyrgð fyrir Skallagrím, að hún er allt annars eðlis en þær ábyrgðarbeiðnir, sem legið hafa fyrir fjvn. Hún miðar að því að bæta samgöngurnar milli Borgarness og Reykjavíkur, og þá um leið samgöngurnar milli Suður-, Norður- og Vesturlands, sem allmjög beinast þessa leið. Getur ábyrgð þessi því ekki talizt brot á stefnu fjvn. í þessum málum. Ef tekið væri tillit til ábyrgðartill. einstakra þm., þá næmu þær fullri 13/4 milli. Þær eru sem hér segir:

Vegna Skagatrandar.....

800 þús.

— Stykkishólms . ........

180 —

— Vestfj.bátsins ..........

90 —

— Ögurhrepps ..........

15 —

— Ísafjarðar ........

700 —

Samtals 1785 þús.

Auk þessa eru ýmsar smærra ábyrgðarbeiðnir, sem nema samtals tugum þúsunda. Verði þessar till. allar samþ., þá nemur hallinn á fjárl., þrátt fyrir tekjuaukafrv., rúml. 1 millj. kr. Ég vænti því, að hv. þm. athugi þetta gaumgæfilega að afgreiða þau tekjufrv., sem nauðsynleg eru vegna fjárhags ríkissjóðs. Verður meiri hl. n. að vænta þess sérstaklega, að stjórnarflokkarnir sjái um, að svo verði gert. Ég skal svo halda mér við brtt. meiri hluta n. á þskj. 784.

Brtt. frá 1. til 5. lið hefi ég þegar minnzt á, og gerist þess ekki þörf að fara um þær fleiri orðum. Þær eru um tekjuupphæðir, sem bæta á inn í. frv. eftir því sem tekjuaukafrv. verða samþ.

Skal ég þá snúa mér að hinum einstöku útgjaldatillögum. Ég skal geta þess um 6. brtt., að þessi till. er eiginlega óvart komin inn í brtt., og tekur n. hana aftur; hún skoðast því aðeins sem villa í brtt., sem hér með er leiðrétt.

Þá vil ég einnig geta þess, að vantalið er í brtt. lækkun á tekjuafgangi útvarpsins úr 73,5 þús. kr. í 61,4 þús. kr., ef till. meiri hl. n., sem hér er næst á eftir, verður samþ., en þetta mætti skoða sem leiðréttingu við atkvgr.

Þá eru það símalínurnar, sem ég ætla að snúa mér að næst. Get ég þó raunar alveg látið nægja hvað þann lið snertir að vísa til frhnál. á þskj. 793. Þar er gerð skrá yfir 21 símalínu. Náttúrlega kemur ekki til mála, að þær línur verði allar lagðar á næsta ári, en sú hefir verið venja að áætla töluvert lengri skrá heldur en hægt er að komast yfir á næsta ári. Það getur alltaf komið fyrir, að ein og ein lína verði ekki lögð af einhverjum ástæðum. Þá er það vitanlega tilætlun n., að fylgt verði þeirri röð, sem á þskj. 793 er um lagningu símanna, að því leyti sem hægt er, en að öðru leyti heyrir það vitanlega undir stj. og landssímastjóra að ákveða, hvaða línur skuli sitja fyrir. Það mun vera svo um tvær línurnar, nr. 4 og 7, að meiri hl. n. ætlast til, að þær verði ákveðið lagðar, þó það sé ekki tekið fram í nál., en nái brtt. fram að ganga, þá er ætlazt til, að þessar línur hafi jafnan rétt og þær sem fyrr eru taldar.

Ég skal í sambandi við það, sem ég hefi áður tekið fram, og í framhaldi af því geta þess, að ef svo fer, sem vel getur komið fyrir, að afgreiðsla fjárlfrv. verði eitthvað lakari en meiri hl. n. gerir ráð fyrir, þá geti komið til mála niðurfærsla á ýmsum útgjaldatill., en það kemur síðar til athugunar.

Þá er 8. brtt. á þskj. 784, sem er aths. við framlag til sjúkrahúss á Reyðarfirði, þar sem lagt er til, að bygging sjúkraskýlisins sé ekki takmörkuð við Reyðarfjörð fremur en aðra staði á Austurlandi. Upphaflega var hugsað að byggja þetta hús á Reyðarfirði, en nú er önnur hugmynd að ryðja sér til rúms á Austurlandi í þessu efni, og því er þessi klausa sett í nál., að stj. skuli vera heimilt að veita þetta fé til sjúkraskýlis annarsstaðar á Austfjörðum, ef tiltækilegt þykir.

Um 9. brtt., sem líka er við 12. gr., er ætlazt til, að sá styrkur, sem fávitum er veittur til þess að geta dvalið á þessu eina sjúkrahúsi, sem hér er til fyrir þessa aumingja, sé veittur sjúklingunum sjálfum, en ekki eigendum sjúkrahússins. Þótti þetta heppilegra heldur en að styrkurinn færi beint til hælisins á Sólheimum.

10. brtt. er um 1500 kr. styrk til ýmsra sjúklinga, og skal landlæknir úthluta þessu fé sérstaklega til þeirra, sem engan eiga að eða þjást af langvarandi sjúkdómi, eða eiga að einhverju öðru leyti við mjög erfið kjör að búa. Meiri hl. n. hefir þótt heppilegra að fara inn á þá leið að fela mönnum, sem hafa yfirstjórn í einhverjum sérstökum greinum, að úthluta tilteknum upphæðum milli manna, sem réttast þykir að fái styrk þann, sem veittur er til úthlutunar, heldur en að þingið sé að úthluta þessu. Má þá segja, að niðurstaðan verði oftast sú, að þeir komist lengst, sem flesta hafa formælendur. Hinsvegar er landlækni og fræðslumálastjóra trúað til að skipta þessum styrkjum milli þeirra, sem frekast þurfa þeirra með. Við höfum á öðrum stað lagt til, að veittur verði samskonar styrkur til gamalla vegavinnuverkstjóra, sem um langan tíma hafa unnið hjá ríkinu, og er vegamálastjóra ætlað að úthluta þeim styrk.

Þá flytur meiri hl. fjvn. hér 3 brtt. við 13. gr., sem snerta vega- eða samgöngumál. Er þar fyrst framlag til Suðurdalavegar, að upphæð 4000 kr. Það hefir þegar verið nokkuð unnið að þessum vegi, en þörf á því að gera meira, svo vegurinn geti komið að notum. Það er því ekki rétt, að dómi n., að hætta algerlega þessari vegagerð, og er því þessi brtt. borin fram. Hæsti liðurinn af þessum þremur er fjárveiting til Breiðadalsheiðarvegar, 15000 kr. Er það fjallvegurinn milli Norður- og Vestur-Ísafjarðarsýslu, sem báðar þessar sýslur hafa mjög mikið gagn af og kemur þeim í vegasamband við Ísafjarðarkaupstað. Hafa þessar sýslur áður fengið fremur lítið fé úr ríkissjóði til vegagerða, og er úr því nokkuð bætt með þessari till. Þá er þriðji liðurinn, smábrtt. um ferju á Hrosshyl, um 50 kr. hækkun á þóknun til ferjumanns. Þetta er allerfiður ferjustaður. Stjórnin lagði til, að gjald þetta væri lækkað um þessa upphæð, en við nánari kynningu hefir n. komizt að því, að það væri ekki hægt, og leggur því til, að það verði hækkað aftur.

14. brtt. er líka við 13. gr., um að greiða til h/f. Skallagríms í Borgarnesi 10000 kr. Frv. um þetta framlag hefir nú farið gegnum báðar deildir Alþingis, og þarf ekki um það að fjölyrða, en frv. leggur ríkissjóði á herðar 10000 kr. greiðslu á ári í næstu 5 ár.

15. brtt. er um að hækka styrk til flóabáta um 4000 kr., úr 78000 í 82000 kr. Þessi brtt. mun þó verða tekin aftur, en n. leggur hinsvegar til, að samþ. verði brtt. XIV á þskj. 815, frá samgmn., sem felur í sér sömu upphæð, en þeirri brtt. fylgir aths. um það, að skipaútgerð ríkisins hafi eftirlit með starfsemi flóabátanna. Skulu þeir árlega gefa greinilegar skýrslur um ferðirnar og rekstur að öllu leyti ásamt rekstrarreikningi, og skal það vera skilyrði fyrir styrkveitingu. Nú er það svo, að ekki liggja fyrir rekstrarreikningar frá nema einum eða tveimur af þeim bátum, sem styrks hafa notið, og hafa engin plögg, sem þessi mál snerta, komið opinberlega fram, nema styrkumsóknirnar.

Þá er það 16. og síðasta brtt., sem ég þarf að mæla fyrir, og er við 13. gr. C.VII.5, um fjárveitingu til hafnarbóta á Hornafirði. Eins og hv. þm. er kunnugt, er nú búið að afgr. frá þinginu hafnarlög fyrir Hornafjörð, þar sem gert er ráð fyrir, að ríkið leggi fram allmikið fé til hafnargerðar þar. En áður en rétt þótti, að lagt væri þar út í stórfellt mannvirki, þótti rétt, að gerð væri þar ódýr tilraun, sem af ýmsum fróðum mönnum er talið, að muni gera mjög mikið gagn. Veit ég ekki betur en að þar sé nú þegar farið að vinna að þessari tilraun, sem er að dýpka innsiglingu fyrir báta, en eins og þeim, sem til þekkja, er kunnugt, þá flytur Hornafjarðarfljót mikinn framburð á bátaleiðina. Nú er verið að vinna að því með fremur ófullkomnum og ódýrum tækjum að gera rás fyrir bátana, og fari svo, að það takist að fá hana nægilega djúpa, þá mundi það spara ríkissjóði og öðrum mikið fé.

Um framlag til bryggjugerða og lendingarbóta skal vísað til þess, sem um það er sagt í frhnál. Annars geri ég ráð fyrir, að n. flytji e. t. v. viðbótartill. um úthlutun á þessum styrk, og þá sérstaklega um þær 4000 kr., sem ekki hafa verið gerðar enn till. um, hvernig verja skuli.

Um brtt. einstakra hv. þm. og hv. minni hl. fjvn. skal ég ekki tala að þessu sinni. Vil ég svo ljúka máli mínu með því að endurtaka það, að meiri hl. fjvn. er ákveðinn að gera allt, sem hann getur, til þess að fjárl. verði að þessu sinni afgr. tekjuhallalaus, eða því sem næst.