10.12.1934
Neðri deild: 55. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2573 í B-deild Alþingistíðinda. (3415)

80. mál, eftirlit með opinberum rekstri

Frsm. minni hl. (Garðar Þorsteinsson) [óyfirl.]:

Það eru að eins örfá orð. — Það er að vísu svo, að þessi ráð á að kjósa með hlutfallskosningu af Alþ. Þetta atriði hefir n. tekið upp hjá sér, en sú skipun er ekki gerð eftir kröfu Sjálfstfl. Við þá kosningu fengi stjórnarliðið 6 af 9 mönnum í ráðin, og mætti vel við una að fá þar bitlinga fyrir 6 af sínum mönnum. En það, sem ég legg áherzlu á, er, að ég tel þetta alveg tilgangslaust. Mér er alveg ljóst, eins og hv. 2. þm. Reykv. hlýtur að vera líka, sem rekur stórt atvinnufyrirtæki og veit, hvað það væri mikið verk, ef ætti að setja sig inn í hans rekstur allan — mér er alveg ljóst, að það er tilgangslaust að ætla 3 mönnum að setja sig inn í rekstur allra þeirra stofnana, sem undir þá heyra, með þeim tíma, sem þeim er til þess ætlaður. Það má vel vera, að það megi fá upplýsingar um innkaup, verð og kaupgjald frá framkvæmdastjóra. En það er ekkert eftirlit, að fá allar upplýsingar hjá framkv.stjóra, og engin trygging fyrir, að þær séu réttar, þó þær gangi gegnum ráðin. Eru stofnanirnar verr settar að því leyti, að stjórnirnar verða lagðar niður, t. d. við Gutenberg og landssmiðjuna, sem hv. 2. þm. Reykv. mun þó vera í. Ég get ekki að neinu leyti talið það eftirlit, þó ráðið spyrji framkvæmdastjóra, fyrir hvaða verð hafi verið keypt, hvort nauðsynlegt sé að hafa svona marga starfsmenn, eftir hvaða reglu hafi verið lagt á o. s. frv. Ég sé ekki, að þetta séu nokkrar ástæður fyrir þessu frv. Eða er það nokkurt eftirlit með opinberum rekstri, þó upplýsingar, sem framkvæmdarstjóri gefur ráðinn, séu svo lagðar fyrir ráðh.? Þessar upplýsingar er framkv.stj. skylt að gefa ráðh., og gæti hann þá lagt þær fyrir skrifstofu sérfræðinga til yfirskoðunar. Hitt er ekkert eftirlit, að byggja á tölum og skýrslum framkvæmdastj., nema sannfæra sig um, að þær séu réttar.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að vald framkv.stj. væri mikið, og hætta gæti stafað af því, ef hann misbeitti því. En mundi viðkomandi ráðh. nokkru nær, eða vera öruggari um, að framkvstj. misnotaði ekki það vald, þó hann fengi gegnum ráðið þær upplýsingar, sem hlutaðeigandi framkvstj. hefði gefið því? Ég fæ ekki séð, að hann færi að gefa réttar upplýsingar um sjálfan sig, ef hann ætlaði að misbeita sínu valdi, heldur rangar tölur og aðrar blekkingar. Það er því engu nær, ef framkvstj. ætlar að misnota vald sitt, þó hann gefi ráðinn skýrslu. Það, sem ráðið verður því að gera, er að sannfæra sig um, að skýrslurnar séu réttar, enda tekið fram í 3. gr. frv., að ráðin hafi heimild til þess að aðgæta bækur og reikningshald og önnur skjöl, er stofnunina varða, eins og líka sjálfsagt er.

Hv. 2. þm. Reykv. féllst á þá staðhæfingu mína, að ráðin gætu ekki með þeim launum, sem þeim eru ætluð, jafnvel þó þau hefðu fundi einn sinni á viku, sett sig svo inn í rekstur fyrirtækjanna, að eftirlitið yrði krítískt. Þau gætu aðeins safnað skýrslum, sem framkvstj. gefur, en ríkisstj. er engu nær fyrir slíka skýrslusöfnun. Hv. 2. þm. Reykv. hefir með þessu viðurkennt, að fari ráðið þessa leið, þá geti það ekki sannfært sig um, hvernig stofnunin er rekin. Ég efast því um, að það sé til bóta að leggja niður stj. ríkisprentsmiðjunnar og landssmiðjunnar. Hinsvegar er mér ljóst, að það er hlægilegt að setja 5 manna stj. fyrir landssmiðjuna með 600 kr. árslaunum hvorn, og það menn, sem ekkert vit hafa á þeim hlutum. Þetta getur ekki verið svo umfangsmikið, að það þurfi manna stj. auk framkvstj. Mér finnst miklu einlægara, að framkvstj. leggi þetta beint fyrir ráðh., og getur hann svo vísað því til sérfræðinga. Hitt er ekki annað en hégómi og bitlingar, að greiða 5 mönnum 600 kr. hverjum, því ég efast um, að þeir hafi komið saman á fundi, eða a. m. k. ekki nema mjög sjaldan. Þá væri nær að hafa 3 menn í stj. Gutenberg en 5 í stj. landssmiðjunnar, því slíkt er alveg fjarri lagi. Þó efast ég um, að rétt sé að leggja niður þessar stj. og láta koma í staðinn valdalaus ráð.

Það er langt frá, að þessi 3 manna ráð geti verið þannig skipuð, að þeir hafi þá fagþekkingu, sem nái yfir öll þau fyrirtæki, sem undir hvert ráð heyrir. Ég efast um, að hægt sé að finna menn, sem hafi þekkingu jafnt á póstmálum, símamálum, útvarpi og skipaútgerð. Þá menn er hæpið að finna, eða þó þeir finnist, að ríkisstj. heppnist að fá þá í þessi ráð. Ef um vandasamt mál væri að ræða, sem framkvstj. vildi leggja fyrir ráðið, væri heppilegra, að hann færi með það beint til sérfræðings, því ráðið gæti hvort sem væri ekki tekið ákvarðanir án þess. Mér þætti a. m. k. gaman að sjá, hvaða menn — sennilega þm. — það væru úr liði ríkisstj., sem hefðu hæfileika til þess að taka þetta að sér. Hæstv. forsrh. hefir setið í stj. landssmiðjunnar, en mun nú ekki vilja taka það að sér, og er þá fallinn í valinn einn þeirra bezti maður. Það er bara hlægilegt, að 3 menn þannig skipaðir taki afstöðu, sem gangi í bága við till. framkvæmdastjórans, mannsins, sem hefir hæfileika og þekkingu á starfinu. Slíkt er ekki annað en vitleysa.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að það væri ekkert skilyrði um það, að fundir mættu ekki vera oftar en einu sinni á mánuði. Það er rétt, og ef framkvstj. tæki upp á því að kalla alltaf saman fundi, þegar honum fyndist þörf á, þá gætu þeir orðið fleiri en einn á viku. En ég efast um, þó fylgismenn stj. séu sporléttir, að þeir yrðu það til lengdar, ef þeir ættu að fara á marga fundi á viku, eða að þeir hefðu tíma og aðrar ástæður til þess að vinna mikil störf fyrir ekki neitt. En eigi að starfa eins og gert er ráð fyrir, með einum fundi í mán., þá eru 400 kr. nóg.