22.11.1934
Efri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2599 í B-deild Alþingistíðinda. (3500)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég þarf í raun og veru litlu að svara því, sem fram hefir komið, því að það eru að mestu leyti endurtekningar á því, sem áður hefir verið sagt.

Viðvíkjandi því atriði, sem hv. 1. þm. Skagf. minntist á, að ég hefði talað um, að sumir embættismenn væru komnir yfir lögaldur sakamanna, þá vil ég taka það fram, að ég sagði aðeins, að það mætti líta svo á, að menn, sem væru komnir á vissan aldur, kæmust að vissu leyti yfir lögaldur sakamanna samkv. almenningsálitinu. Þess vegna er óþarfi af hv. 1. þm. Skagf. að vera að reyna að snúa út úr því og vera yfirleitt að gera tilraun til þess að ræða um það sérstaklega. Við vitum það báðir mætavel, að samkv. lögunum er þetta aldurshámark ekkert til, en það er komið inn í vitund fólksins, að það sé rangt að refsa embættismönnum, sem eru komnir yfir vissan aldur og hafa ávallt verið sómamenn, en sakir elli eða heilsubilunar hefir orðið eitthvað á. Þeir eru í meðvitund fólksins orðnir börn aftur, og því finnst ekki frekari ástæða til að refsa þeim en börnum. Sé ég svo ekki ástæðu til að orðlengja um þetta frekar.

Það var spurt um, í hvaða löndum aldurshámarkið væri miðað við 65 ár og í hvaða löndum 70 ár. Ég hefi ekki nú sem stendur við hendina skrá yfir þetta og get því ekki upplýst þetta nú, en ég hygg, að t. d. í Þýzkalandi sé miðað við 65 ár. Sem sagt aldurshámarkið er ýmist miðað við 65 eða 70 ár, en ég tilgreini það ekki nánar í þetta skipti, en get gert það síðar. (MG: Hvers vegna ekki strax?). Vegna þess að ég hefi ekki við hendina skrá yfir þetta. Hv. þm. er ekki of góður til þess að bíða eftir því þangað til við 2. umr. málsins.

Þá hefir verið talað um, að það væri ranglátt gagnvart þeim, sem hefir verið greitt úr lífeyrissjóði undanfarið, ef ákveðið er að láta þessa menn koma á þann sjóð nú. Þetta get ég ekki álitið neitt ranglátt, því að vitanlega munu þeir menn, sem greiða í lífeyrissjóð, njóta þeirra hlunninda, sem hann veitir, jafnt eftir sem áður. Geti sjóðurinn ekki staðið undir sjálfum sér, mun ríkið standa undir honum. Þó að þetta sé ekki ákveðið í 1., þá verður það vitanlega gert.

Hv. 1. þm. Skagf. var að tala um prestana, að þeir væru kosnir. Það er rétt; þeir eru kosnir, en síðan fer fram venjuleg veiting af hálfu þess ráðuneytis. er þau embætti veitir, og gildir hún æfilangt. Um þessa embættismenn gildir því annað en um menn, sem kosnir eru fyrir visst tímabil.

Þá hefir verið fundið að því ákvæði frv., að embættismenn skuli fara úr embætti 65 ára, en hægt sé að leyfa þeim að vera til 70 ára aldurs. Það skiptir ekki máli, hvort ákvæði þetta er á þennan veg orðað eða sagt er, að þeir megi fara úr embætti 65 ára. Mér er sama, hvort þetta ákvæði er þannig orðað eða eins og það er í frv. Það þarf jafnt að koma til beinna aðgerða ráðh. að leysa menn frá embættum, hvort sem þetta ákvæði er orðað eins og í frv. eða eins og mér skildist hv. 1. þm. Skagf. vildi orða það, því að samkv. orðalagi hv. 1. þm. Skagf. þarf viðkomandi embættismaður að sækja um leyfi til ráðh. og ráðh. að veita það leyfi.

Þá hefir verið minnzt á, að á þessu tímabili frá 65 ára aldri og til sjötugs, eigi embættismenn ærið mikið undir högg að sækja til ráðh., þar sem það er á hans valdi, hvort embættismaður fær að sitja áfram í sinn embætti eða ekki. Ég hefi nú í þessu sambandi vakið athygli á því, að það er ekki mikið breytt aðstaða ráðh. gagnvart embættismönnum frá því, sem nú er. En það, sem aðallega er fundið að þessu, er að með þessu millibilsástandi væri viðkomandi embættismaður háðari ráðh. en eðlilegt væri. En í því sambandi benti ég á þau rök, sem ekki hefir verið reynt að mótmæla, að þetta sama vald hefir viðkomandi ráðh. gagnvart embættismönnum nú. Ég ætla ekki að fara frekar inn á að rökræða þetta; ég veit, að þessi regla, hvenær mönnum er vikið úr embætti, gildir. Um þetta eru til fræðibækur, að vísu ekki á íslenzku. heldur á erlendum málum, en reglan er svona, þó hún sé ekki upphaflega fyrir okkar embættismenn. Þess vegna er ekki önnur vörn fyrir embættismann, hvort sem hann er 65 ára eða eldri, en sú pólitíska ábyrgð, sem viðkomandi ráðh. bakar sér með því að láta mann fara úr embætti sínu, ef hann rækir það vel. Þessi vernd er sterk, því að undir öllum kringumstæðum mundi það verða ráðh. til hnekkis og alveg fordæmt, ef hann léti embættismann fara úr embætti þrátt fyrir þó að hann væri því vel vaxinn. Þetta er sú eina vernd, sem embættismenn hafa, en hún er sterk. Þess vegna er þetta ákvæði frv. ekki nein veruleg breyt. frá því, sem er nú gildandi um embættismenn. Sú regla, sem hv. 1. þm. Skagf. var að tala um að gilti í þessu efni, er ekki til, en ég ætla ekki að fara að ræða um þetta við hv. þm.; það er betra að ná í bók um þetta efni handa þeim hv. þm., sem véfengja, að þetta sé rétt. (MG: Hvaða bók er það?). Hún er viðvíkjandi löggjöf, sem er hliðstæð þeirri íslenzku um þetta efni. Um þetta skal ég svo ekki ræða öllu meira. En það hefir verið minnzt á í þessu sambandi, að það væri engu síður ástæða til að láta það sama gilda um þm. og ráðh. Um þetta má deila, og skal ég ekki fara sérstaklega út í það.

Þá hefir verið minnzt á, að þetta vald væri ágætt vopn í höndum pólitískra stj. til þess að láta embættismenn fara frá og veita sinum fylgismönnum embættin. Ég viðurkenni, að það er alveg eins hægt fyrir ráðh. að misnota þetta vald gagnvart embættismönnum nú eins og verið hefir. Hv. 1. þm. Skagf. minntist á, að sér dytti ekki í hug að undanskilja núv. stj. frá því að veita embætti pólitískt og misnota þetta vald. Um þetta þýðir náttúrlega ekki að deila, en ég ætla aðeins að segja það, að það verður varla verr beitt þessu ákvæði af núv. stj., þó að lögum yrði, heldur en rétturinn til að veita embætti hefir yfirleitt verið notaður af stjórnum þess flokks, sem þessi hv. fyrrv. ráðh. heyrir til, því að það tíðkaðist ákaflega mikið, að embætti væru veitt pólitískt af hans flokki. En að vera að beina því sérstaklega að þeirri stj., sem nú situr, að hún muni misnota þetta vald, situr sízt á þessum hv. þm. Ég ætla nú að benda á nokkur embætti, sem hafa verið veitt á síðasta ári, t. d. bæjarfógetaembættið á Akureyri. Ætli það sé ekki pólitískt? Eða þá sýslumannsembættið í Húnavatnssýslu. Ég veit ekki betur en sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu sé flokksbróðir þessa hv. þm. Bæjarfógetaembættið á Ísafirði flýtti þessi hv. fyrrv. ráðh. sér að veita áður en það var auglýst.

Hvernig hefir þetta svo gengið til hér í Rvík? Ég vil aðeins drepa á það, fyrst því er aðallega beint til mín eða núv. stj., að hún muni misnota þetta vald. T. d. hefir formanni Heimdallar verið veitt starf við rafstöðina, sem var beinlínis búið til, og borgarritarastarfið var veitt Tómasi Jónssyni, sem er sjálfstæðismaður. Svona mætti lengi telja, og það hefir nú einu sinni verið svo, að það hefir verið talin pólitísk veiting, ef embætti hefir verið veitt öðrum en sjálfstæðismönnum, því að undanfarið hefir ekki öðrum verið veitt embætti, eins og sjá má af því, að næstum allir embættismenn eru sjálfstæðismenn.

Það situr sízt af öllu á þessum hv. þm. að beina þeirri ásökun til núv. stj., að hún muni misnota sitt vald í þessum sökum, því að það er varla hægt að ganga lengra í því að veita eingöngu sínum flokksmönnum embætti heldur en þessi hv. þm. hefir gert.

Menn eru yfirleitt sammála um, að nauðsynlegt sé að setja eitthvert visst aldurshámark, en það er deilt um, hvort eigi að binda það við 65 ára aldur eða 70 ára aldur. Að aldurshámarkið er sett eins og nú er í frv., er fundið það til foráttu, að það þurfi jafnframt að sjá þessum mönnum fyrir betri eftirlaunakjörum en nú er samkv. gildandi lögum. En þessi mótbára er ekki frambærileg til þess að hnekkja þessu frv., ef það er viðurkennt, sem fram hefir komið hjá öllum, er um þetta mái hafa talað hér, að nauðsyn sé að setja þetta aldurshámark vegna þess, að þeir, sem komnir eru yfir visst aldurshámark, séu ekki færir um að gegna sínu starfi. Og þá verður að finna leið til þess að gera svo sæmilega við þessa embættismenn, að þeir geti látið af starfi. Það er viðurkennt af öllum, sem hafa talað í þessu máli, að það sé nauðsynlegt fyrir þjóðfélagið, að þeir embættismenn, sem er farið að förlast í sínu starfi, séu leystir frá því, og virðist mér því öll rök, sem fram hafa komið í þessu máli, hníga í þá átt, að frv. þetta eigi að samþ.

Ég sé svo ekki ástæðu til að ræða frekar um þetta mál. Þau atriði, sem fram hafa komið gegn þessu frv., eru flest svo lítilfjörleg og hnekkja á engan hátt aðaltilgangi þess. Þetta frv. verður tekið til athugunar í n., og getur verið, að henni finnist þurfa að breyta því að einhverju leyti, en samkv. þeim umr., sem um frv. hafa orðið, virðist viðurkennt, að höfuðregla frv. sé rétt og nauðsynleg.