08.12.1934
Efri deild: 56. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2608 í B-deild Alþingistíðinda. (3514)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Magnús Guðmundsson:

Mér finnst þessi brtt. á þskj. 717 ekki vera sérlega ákveðin. Það getur orðið erfitt að gera út um það, hverjir séu minni háttar sýslunarmenn. Ég vildi fá að heyra frá hv. meiri hl. allshn. einhver dæmi um það, hverja hún telur minni háttar sýslunarmenn, og eins um það, hver eigi, að hennar áliti, að meta það, hvort það sé sama valdið og á að gefa lausn frá embættum, eða m. ö. o. ríkisstj., eða einhverjir aðrir. Ég vil svo minna á það, að við 1. umr. þessa máls í þessari d. var því lofað, að gefnar skyldu upplýsingar um það, í hvaða löndum 65 ára aldurshámarkið væri haft. Hæstv. forsrh. lofaði að upplýsa þetta hér. Ég þekki ekki slík lög, en þori ekki að fullyrða, að þau séu ekki til. Þar, sem ég þekki til, er aldurshámarkið 70 ár, og þar er þetta víðast svo, að menn geta verið í embættum nokkuð lengur en þetta aldurshámark segir til um, ef þeir eru við góða heilsu.

Hér er þetta aftur á móti svo, að eftir þessu frv. á að reka menn úr embættum strax og þeir verða sjötugir, og svo rammt er að kveðið, að þeir, sem nú eru orðnir sjötugir, eiga að fara frá embættum sínum 1. næsta mánaðar, eftir að þessi 1. koma í gildi, eða m. ö. o. algerlega fyrirvaralaust. Og þetta eru kannske menn, sem eru búnir að starfa í þjónustu hins opinbera í 40—50 ár. Það hefir ekki verið séð fyrir þessum málum betur en svo, að þeir hafa mjög lágan lífeyri. Þetta kemur þess vegna alveg aftan að þeim, þar sem hér er um nýmæli að ræða og þeir eiga ef til vill að fara frá með tveggja eða þriggja daga fyrirvara. Ég held, að ég hafi tekið það fram við 1. umr. þessa máls, að að mínu áliti er farið verr með þessa menn, sem hafa sumir verið starfsmenn ríkisins í 40 ár, heldur en vinnukonur, sem eru ráðnar til eins vetrar. Þetta finnst mér ósanngjarnt. Það eiga að vera ákvæði til bráðabirgða í l. eins og þessum, ef nokkuð er hugsað um sanngirni.

Það vantar líka alla athugun um það, hvað lífeyrissjóður embættismanna þolir af gjöldum, og það leiðir af sjálfu sér, að ekkert vit er í því að setja allmikið af gjöldum á þann sjóð án þess að það hafi fyrst verið athugað, hvað hann þolir.

Ég mun þess vegna greiða atkv. á móti þessu frv. Það er illa undirbúið og ósanngjarnt. Það eru tveir stórir ókostir og vitaskuld nægilegir til þess, að ekki er hægt að greiða atkv. með því.