15.12.1934
Neðri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2633 í B-deild Alþingistíðinda. (3560)

156. mál, aldurshámark opinberra embættis- og starfsmanna

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Eitt af því, sem hv. þm. Snæf. fann sérstaklega að, var það, hve fáir menn væru í d. Þessar stöðugu endurtekningar til birtingar í Alþt. eiga sér alveg ákveðinn tilgang. Oft hafa áður verið færri viðstaddir á þingi en t. d. nú. Og ég ætla að láta það koma fram, að ég hefi verið viðstaddur inni í ráðherraherbergi allan tímann, sem hv. þm. talaði, og hlustað á ræðu hans. Annars er alltaf nokkur hætta á, þegar beitt er því, sem kallað er málþóf, að andstæðingarnir hlusti ekki á þau rök, eða réttara sagt rökleysur, sem bornar eru fram. Það sagði mér vel metinn bæjarmaður ekki alls fyrir löngu, að við þingmeirihl. hefðum lært af meiri hl. bæjarstj. Rvíkur, því að þegar svæsnar umr. eru í bæjarstj., þá fer meiri hl. inn í sérstakt herbergi innar af fundarsalnum og kemur ekki aftur fyrr en umr. er lokið.

Í máli því, er fyrir liggur, er fyrsta spurningin sú, hvort setja beri svona l. eða ekki. Ég skildi ekki til fullnustu, hvort hv. þm. Snæf. væri því fylgjandi eða ekki. Mér skildist hann telja það hreina undantekningu, ef við færum að setja l. um aldurshámark embættismanna. Hann benti á, að til hefðu verið meðal erlendra þjóða margir vel starfshæfir menn, og það eftir að þeir voru búnir að ná hærra aldri en 65—70 ára. Það sannar ekki annað en það, að alltaf eru til undantekningar. Það er ekki til neins að vera að benda á menn eins og Clemenceau og Gladstone, sem sköruðu fram úr sinni samtíð að þreki. Hér er verið að smíða reglur um okkar starfsmenn, og verður þar að miða við hið almenna. Þetta hafa nágrannaþjóðir okkar gert, og við líka með ákvæðunum í hæstaréttarl., sem sýna, að við treystum ekki mönnum, sem orðnir eru eldri en 65 ára, til að vinna sæmilega störf sín þar. Sama er að segja um Landsbankareglugerðina. Störfin í Landsbankanum eru svo almenn, að við þau má miða að talsverðu leyti önnur embættisstörf. Þessi störf eru að miklu leyti falin í bókfærslu, eins og hjá sýslumönnum og fleiri starfs

mönnum ríkisins. Við höfum því slegið þessu föstu í tveim stofnunum landsins, og væri ekkert óeðlilegt, þótt sett væru l. um aldurshámark embættismanna í öðrum stöðum líka.

Það er auðvitað ekki annað en misskilningur, að menn hljóti embætti til lífstíðar. Embættismönnum má segja upp sem öðrum. Og þannig er okkar löggjöf í þessum efnum. Hitt er ekki annað en gömul trú. Það þýðir heldur ekki neitt að benda á, að ekki megi setja l. um uppsögn manna, sem eru bilaðir að starfskröftum, af því, að þeir hafi þá ekki næg eftirlaun. Ef það er rétt, sem ég held fram, að starfskrafturinn sé almennt farinn að bila á þessum árum, þá er það þjóðfélagsins að sjá fyrir þessum mönnum, er þeir fara að hvíla sig, og ef þeim er ekki séð fyrir nægilegum eftirlaunum, þá er það Alþingis á hverjum tíma að veita þeim hæfilegan lífeyri, ekki sízt nú, þar sem segja má, að þeir verði nokkuð hart úti. Það getur orðið þjóðfélaginu dýrara að hafa í störfum gamla menn, sem ekki eru lengur starfshæfir, en að greiða þeim sæmileg eftirlaun. Það hefir hvað eftir annað komið fyrir, að menn, sem hafa rækt starf sitt ágætlega alla æfi, hafa farið frá með smán, af því að starfskraftarnir voru svo bilaðir, að þeir gátu ekki lengur valdið starfinu. Ég þarf ekki að nefna nein dæmi. En þarna er um beint ranglæti að ræða gagnvart þessum mönnum.

Í hinni rökst. dagskrá segir, að ekki liggi fyrir nægjandi upplýsingar í málinu, t. d. um það, hversu margir embættismenn verði að fara frá, ef l. ganga í gildi. En Mgbl. hefir nú birt skrá um þetta frá Pétri Zóphóníassyni, aðstoðarmanni hagstofunnar. Sjálfstæðismenn í Ed. báðu mig um skrá yfir þessa menn, og lofaði ég að láta útbúa hana. En þegar þessi skrá kom í Mgbl., benti ég þeim á hana, og lýstu þeir yfir því, að þeir gerðu sig ánægða með þá skýrslu. Geri ég ráð fyrir, að þessi hv. þm. geri sig líka ánægðan með þessar upplýsingar og telji Mgbl. nægilega góða heimild. En ég ætla ekki um það að dæma, hversu áreiðanlegar þessar upplýsingar eru. Þess má geta, að þessi skrá upplýsti, að margir þessara manna væru komnir yfir sjötugt og orðnir gersamlega óstarfhæfir og eru margir þeirra farnir úr störfum fyrir elli sakir. Veit ég t. d. um 2 presta, sem farnir eru úr störfum. Ég hefi meira að segja heyrt þá röksemd, að óþarfi sé að setja þetta aldurstakmark, því að yfirleitt séu menn farnir úr störfum um sjötugt.

Ég viðurkenni, að þeir eigi að fara fyrirvaralaust, þó að ég leggi minna upp úr því en hv. þm. Snæf. Ég vil benda á, að það felst í ákvæðum frv., að embættismenn fari ekki frá störfum fyrr en t. d. að loknu skólaári. Þó að ég viðurkenni, að það hefði mátt orða ákvæðið nákvæmar, þá tel ég, að það komi ekki að sök, þar sem því hefir sérstaklega verið yfir lýst, að sá skilningur sé lagður í ákvæðið. Ég vil minna á það, að ef þetta þykir verulegur galli á frv., þá mun ég bíða og sjá, hvernig því miðar áfram, og ef nægur tími vinnst til þess að koma málinu áfram, þá lagfæra það við 3. umr. og láta það fara aftur til Ed.

Það hefir komið fram till. til rökst. dagskrár, þar sem er farið fram á að láta málið bíða til næsta þings. En ef menn hafa á annað borð tekið afstöðu til þessa máls, og ef það er réttlátt, þá er það engu réttlátara á næsta þingi. Ef reglan er rétt, þá álít ég, að það eigi tvímælalaust að ákveða aldurshámark embættismanna, og þá er engu síður rétt að gera það á þessu þingi en því næsta. Ef l. eru framkvæmd þannig, að þeir, sem eru í miðju starfsári, verða ekki látnir fara fyrr en því er lokið, þá er fyrirvarinn engu minni en þó að l. gengju í gildi í júlí, því þá stendur eins á, að þeir yrðu að fara. Einu atriði, sem minnzt hefir verið á, hefi ég komið örlítið að áður, en það eru eftirlaun þessara manna. Þetta er dálítið atriði, því það er ómögulegt að neita því, að eins og löggjöfin er nú, en hún er frá 1921, þá eru eftirlaun þeirra manna, sem komnir eru á efri aldur og fara úr embættum, svo lítil, að þeir eru tiltölulega illa settir, þar sem þeir eru ekki búnir að vinna sér inn eftirlaun nema stuttan tíma, eða frá því að l. frá 1921 gengu í gildi. Það er ekki annað að gera en þingið verður að taka afstöðu til þessa máls á hverjum tíma, og þá eru þessir menn ekki verr settir en aðrir, sem búnir eru að vinna sér inn há eftirlaun. Reynslan hefir verið sú, að yfirleitt hefir betur verið farið með þá menn, sem hafa fengið eftirlaun sín ákveðin af þinginu, en hina, sem hafa fengið þau samkv. launal. Það er rétt, sem hv. þm. Snæf. minntist á, að embættismönnum er veittur eftirlaunaréttur, en viðvíkjandi tilfinningunni fyrir því, að eftirlaun þessara manna séu lág, en þau eru þetta frá 1500—1800 kr. á ári, þá vil ég segja það, að við finnum ekki til þess, þó að aðrir, sem starfað hafa í þjónustu ríkisins alla æfi, svo sem t. d. vegavinnumenn, fái engin eftirlaun, en þannig er ástatt með fjölda starfsmanna bæði hjá ríkinu og einstaklingum. En menn hafa sérstaka tilfinningu fyrir embættismönnunum og þykir þetta slæm meðferð á þeim, þó að þeir séu fram að sjötugu búnir að taka miklu hærri laun en aðrir, sem engin eftirlaun fá. Menn mega ekki láta þessa tilfinningu fyrir sérstakri stétt blekkja sig. Það er tilætlunin að koma á almennri tryggingarlöggjöf á næsta þingi, en í raun og veru hafa embættismenn ekki meiri rétt til eftirlauna en margir aðrir starfsmenn ríkisins. Ég vil segja fyrir mig sem embættismann, að ég tel mig ekki hafa unnið þarfara verk síðan ég varð embættismaður en áður, meðan ég vann algenga vinnu. En flestir okkar finna ekki sérstaklega til þess, þó aðrir en embættismenn þurfi að fara á sveitina.

Ég vil svo að endingu mælast til þess, að hin rökst. dagskrá verði felld og frv. látið ganga áfram.