05.12.1934
Neðri deild: 51. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2365 í B-deild Alþingistíðinda. (3614)

150. mál, fiskimálanefnd

Ólafur Thors:

Mér finnst ekki vera til mikils mælzt, þó að farið sé fram á, að beðið sé umsagnar sölusambandsins og Landsbankans í jafnmikilvægu máli sem þessu, en það er víst óhætt að treysta því, að báðar þær umsagnir munu berast þ. í dag eða á morgun. Ég vil sérstaklega vekja athygli hæstv. forseta á því, að form. sjútvn. hampaði því mjög í þessum fáu orðum, sem hann sagði til andmæla því, að málið væri tekið út af dagskrá, að hann hefði með höndum umsögn Útvegsbanka Ísl., sem hann mundi tilkynna dm. meðan á umr. stæði. En ef sú umsögn er jafnveigamikil og hv. form. n. vill vera láta, liggur í því sú viðurkenning, að umsagnir Landsbankans og sölusambandsins hafi líka þýðingu fyrir afgreiðslu þessa máls. Af því leiðir svo að sjálfsögðu það, að rétt sé, að þm. heyri þær umsagnir líka áður en þeir taka afstöðu til málsins. — Ég leyfi mér einnig að vekja athygli hæstv. forseta á því, að nú er verið að útbýta brtt. við þetta frv., sem fer fram á 1 millj. kr. útlát fyrir ríkissjóð, ef ráðh. vill svo vera láta. Það er meiri hraðinn, sem á að vera á þessari feigðarsiglingu, ef þm. má ekki gefast kostur á að athuga málið og hlusta á ræður þeirra manna, sem eru miklu kunnugri sjávarútvegsmálum heldur en hv. þm. Ísaf. Það eru ákaflega óframbærileg rök gegn 29 Nd. þm., að einhverjir þingbræður okkar í Ed. geti hagnýtt sér þessar umsagnir, sem nú eru í vændum frá einhverjum dómbærustu aðilunum um þetta efni, — og einkum fyrir þá sök, að hér í d. eiga sæti svo að segja allir sjávarútvegsmenn þ. Það er því í alla staði mjög sanngjörn krafa, að málinu verði frestað, en sjái hæstv. forseti sér ekki fært að verða við því, — en ég skal játa, að það er örðugt fyrir hann að sýna þá sanngirni, sem honum er lagin, ef hæstv. ráðh. vill ekki taka undir það, — þá mun þess verða freistað að hafa önnur eðlileg ráð til þess að tryggja þm. þessar nauðsynlegu upplýsingar.