14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2448 í B-deild Alþingistíðinda. (3664)

150. mál, fiskimálanefnd

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Ég tel rétt að svara fáum orðum aths. þeim, sem fram hafa komið, og mun ég reyna að haga orðum mínum svo, að það verði ekki til þess að lengja umr. um þetta mál. Ég hefi að vísu svarað þessu í hv. Nd., en þar sem þessar umr., sem hér hafa farið fram, snerta málið og eru hóflegar, þá tel ég rétt að svara þeim að nokkru.

Ég ætla þá fyrst að víkja að fáum atriðum í hinni löngu ræðu hv. 1. þm. Reykv. Hann taldi, að það væri fjarstæða, að ég sagði, að það skipti minnstu máli, ef einkasala er tekin upp, hvort hún er ákveðin með lögum eða með frjálsum samtökum. En því fer fjarri, að þetta sé fjarstæða. En hann tók ekki upp öll orðin, sem ég sagði, því ég sagði til viðbótar, að þetta skipti minnstu máli að því er snertir aðstöðu kaupenda fiskjarins. Hún fer að mestu leyti eftir því, hvaða kjör einkasalan býður viðskiptamönnum vorum í öðrum löndum. Hv. þm. veit, að þetta er laukrétt. Það, sem kaupandinn lítur á, er ekki það, hvernig einkasala hefir orðið til, heldur það, hvort þeir fá góðan fisk eða ekki og með hvaða kjörum þeir fá hann. Það er alveg laust við það, að menn á Ítalíu séu t. d. hræddir við, að ríkið skipti sér af slíku. Og að því er Spán snertir, þá er það ljóst af umr. hér á þinginu og útdrætti úr bréfi, sem birtur hefir verið frá sendimönnum okkar á Spáni, að óhætt er að nefna þar einkasölu, því þá er innflytjendum tryggt, að þegar þeir hafa samið um kaup á fiski, þá komi ekki aðrir og bjóði við lægra verði, enda segir hv. 1. þm. Reykv., að enginn megi skilja hann svo, að hann sé á móti einkasöluhugsuninni, því einkasala geti orðið til þess að hækka verðið. Þetta er nú tiltölulega ný skoðun hjá hv. þm., en það er auðvitað ekkert nema gott um það að segja, að hann er farinn að átta sig í þessum efnum. Ég man, að þegar ég hefi haldið þessu áður fram, þá hefir hann tekið því sem fjarstæðu. En mér er sönn ánægja að því að heyra, að hann er farinn að átta sig betur á þessu.

Hv. þm. segir, að það sé óhugsandi, að sæmilegur félagsskapur muni sætta sig við það, að yfirstjórn fisksölunnar sé í annara höndum, og að þurfa að sækja um leyfi ráðh. til þess að fá að flytja fiskinn til útlanda og selja hann þar. Mig furðar á þessum ummælum hv. 1. þm. Reykv. Veit hann þá ekki, að með bráðabirgðal. er bannað að flytja einn fiskugga út, nema leyfi ráðherra fáist? Og gildir þetta auðvitað líka fyrir „union“. Það má ekki flytja út saltfisk nema með leyfi atvmrh., og ef hér er um verulegt vald að ræða, þá hefi ég nú haft það í höndum í 5 mánuði, og ég get setið nokkra mánuði enn og haft þetta ægilega vald í höndum. En ég býst við, að menn geti ekki haldið því fram í alvöru, að hér sé um ægilegt vald að ræða, sem enginn vilji beygja sig undir. Ég veit ekki betur en menn hafi sætt sig við þetta. Hann sagði, að það væri hægt að færa þetta vald úr höndum atvmrh. yfir til fiskimálanefndar, og taldi hann það hættulegt. Hv. þm. fór mörgum orðum um hina þrautreyndu bankastjóra Landsbankans, en þeir eiga nú að velja einn mann í nefndina, og get ég búizt við, að það verði sá maður, sem nú á sæti í „union“. Og ekki býst ég við, að hv. þm. þurfi að óttast hans afskipti af þessum málum. Frá Útvegsbankanum býst ég við, að verði sá maður, sem nú á sæti í „union“, og ekki þarf að óttast neitt illt af honum. Þá á félag botnvörpuskipaeigenda að velja þriðja manninn, og má gera ráð fyrir, að það verði sá maður, sem nú á sæti af þess fél. hálfu í „union“. Svo er ennfremur gert ráð fyrir því, að Alþýðusambandið fái einn mann í þessa nefnd. Ég veit ekki, hvort það er það, sem er sérstaklega þyrnir í augum. Í frv. hv. þm. G.-K. um fiskiráð var einnig gert ráð fyrir, að Alþýðusambandið ætti einn mann í ráðinu, svo ekki er það nein goðgá í hans augum. Enda er þetta ákvæði ekki óeðlilegt, því að mikill fjöldi þess fólks skipar sér í þessi samtök — Alþýðusambandið —, sem á afkomu sína undir sjávarútveginum á ýmsan hátt. Þá hefir verið gert ráð fyrir, að Fiskifél. Ísl. ætti einn mann, sem verður að skoðast sem einskonar fulltrúi fyrir smáútgerðina, þó að sá félagsskapur sé ekki eins fjölmennur og ætti að vera. Sá fulltrúi, sem tilnefndur verður af S. Í. S., verður einnig að skoðast sem fulltrúi smábátaútvegsins. Loks skipar ráðh. einn mann. Ég held því, að engin ástæða sé til að óttast, að n. verði óvinveitt útgerðarmönnum. Ég held það sé engin ástæða til að álíta, að sú n., sem svona er skipuð, muni ekki líta með réttsýni á þarfir útgerðarinnar, enda líka rétt, að það sé gert.

Hv. þm. hefir gefið mér ekki alllítið tilefni til að tala um starf S. Í. F. Ég vil leiða það alveg hjá mér, því svo ég segi alveg eins og er, sé ég enga ástæðu til að ræða um það í þessu sambandi. Ég hefi áður sagt það, að ég álít, að það hafi gert mikið gagn, en það er náttúrlega fjarstæða, að ekkert megi að því finna. Auðvitað hafa orðið mistök, þó menn greini á um, hve mikil brögð eru að, eða hver áhrif þau hafa haft. En aðalatriðið að því er snertir S. Í. F., eftir því sem ég hygg, er, að þrátt fyrir starfsemi þess og fulltrúafund, sem haldinn var í haust, er engin trygging fyrir, að S. Í. F. haldi áfram. Þeir menn, sem fullum hálsi leyfa sér að halda því fram, að ef frv. þetta verður samþ., muni S. Í. F. leysast upp, eru þess fullvissir, að S. Í. F. muni leysast upp, þó engin slík lög verði sett. Þetta er bara sett fram sem yfirskinsástæða, til að reyna að hilma yfir hina raunverulegu ástæðu, ef þetta kæmi fyrir. Það er beint og óbeint viðurkennt af öllum, að félagsskapnum — S. Í. F. — er með lögum þessum veitt sérstök aðstaða, alveg sérstök hlunnindi, þó sumir, er nú ráða þar, vilji ekki vinna til að breyta lögum og fyrirkomulagi eins og felst í ákvæði 4. gr. frv., um að fiskmagnið ráði ekki eingöngu.

Nú vildi ég spyrja þá hv. þdm., sem óttast svo mjög, að S. Í. F. muni leysast upp, ef þessi lög verða sett, hvernig halda þeir, að muni fara ef engin lög verða í gildi nema bráðabirgðalögin? Því við skulum setja sem svo, að þau fengjust framlengd óbreytt. Ég ætla, að það mundi gerlegt, þó hv. 1. þm. Reykv. álíti ægilegt vald, sem atvmrh. er þar fengið í hendur. (MJ: Hvaða lög eru það? Bráðabirgðalög um einkasölu á saltfiski?). Já ég á við þau. (MJ: Ég held, að það sé búið að breyta þeim sæmilega með þessu frv.). Þeim lögum hefir alls ekki verið breytt. Þetta frv. er ekki um breyt. á lögum, heldur allt annað og meira. En setjum nú svo, þó þau lög væru í gildi, og ef S. Í. F. leystist upp vegna þess að einhver þeirra þriggja aðilja, sem ég nefndi fyrr, fari úr því eða vildi ekki vera áfram í S. Í. F. Dettur þessum mönnum þá í hug, að nokkur ráðh. gæti leyft sér að neita hverjum sem væri af þessum þremur félögum um útflutningsleyfi á fiski þeirra? Ég held, að það detti engum í hug. Ef gróðavon einstaklingsins kynni að leiða einhvern þeirra til þess — eins og hér er verið að dylgja um — að sundra samtökunum, þá er hér með þessum lögum verið að reisa rammar skorður við því, — ef svo kynni að fara — verið að fyrirbyggja það, að fari í sama öngþveitið og 1931, sem hv. 1. þm. Reykv. lýsti með dökkum litum og ekki fjarri sanni.

Hv. 1. þm. Skagf. taldi tvískinnung í frv. og því, sem ég sagði í minni ræðu. Ég taldi, að æskilegt væri, að fyrirkomulagið á fisksölunni yrði með svipuðum hætti og nú er, en samt vildi ég sundra samtökunum, og í lok ræðu sinnar óskaði hann eftir, að ég gæfi yfirlýsingu um, að ég teldi einkasölu óheppilega. Ég neita því alveg hispurslaust að gefa nokkra slíka yfirlýsingu, en ég get endurtekið það, að ekki skiptir miklu máli í mínum augum, hvort einkasalan er til orðin með frjálsum samtökum eða með lögum, nema að því leyti sem ég tel tryggara, að hún sé bundin með lögum, því þá geta ekki einstakir menn skotið sér út úr og sundrað samtökunum og gert á þann hátt spell. Með þessu þykist ég hafa svarað þessari fyrirspurn, þó svarið sé e. t. v. á annan veg en fyrirspyrjandi hefði óskað. Að ég sé að vinna að því, að „union“ (S. Í. F.) sé að leysast upp, er hin mesta fjarstæða. Eða heldur hv. 1. þm. Reykv., að það, að gera S. Í. F. það að skyldu að breyta lögunum, sem samþ. voru á fulltrúafundi þess í haust, sé sama og að leysa það upp? Ég tel, að það sé svo fjarri því, að nokkur ástæða sé til að ætla slíkt. Ég veit, að mikill hluti viðskiptamanna S. Í. F. vill eindregið, að það verði byggt svo upp sem frv. gerir ráð fyrir. Ég veit líka, að ýmsir, er ráða yfir mestu fiskmagni, eru því andvígir. En ég trúi því ekki fyrr en ég tek á, að þetta atriði þurfi að nokkru leyti að standa í vegi fyrir því, að S. Í. F. fái þau sérréttindi, sem gert er ráð fyrir í frv. En ef svo fer, að S. Í. F. springur, er það áreiðanlega einhver hinna þriggja, sem ég hefi áður nefnt, sem valda sprengingunni. Ef þeir halda saman, þá er tryggt, að S. Í. F. heldur áfram, en ef einn eða fleiri láta sig, þá er voðinn vís. Og hér með þessu frv. eru reistar skorður við, að ekki fari allt í sama glundroðann og var 1931, ef það verður að lögum.

Hv. 1. þm. Reykv. vék að því í lok ræðu sinnar, að Landsbankinn hefði farið bónarveg til þingsins um að leitast við að fá samkomulag, allra flokka um lausn þessa nauðsynjamáls. Ég teldi það mjög æskilegt. Þetta mál mun falla undir mig, a. m. k. eitthvað fyrst um sinn, að sjá um framkvæmd þessara laga, og mér er ákaflega vel ljóst, að erfitt er að framkvæma lögin, ef mikil andúð eða jafnvel fjandskapur er gegn þeim frá stærstu fiskframleiðendunum. En mér er það líka ljóst, að ef slík lög eru ekki til, þá erum við gersamlega óviðbúnir að taka því eða mæta þeim erfiðleikum, sem geta steðjað að hvenær sem er, og ég sé mig ekki mann til að mæta með tvær hendur tómar. Þess vegna legg ég ríka áherzlu á, að frv. þetta nái fram að ganga og verði samþ. Ég er reiðubúinn til samvinnu og samstarfs, en það virðist enn bera svo mikið á milli, að ekki horfi vænlega um samkomulag. Frv. var tilbúið snemma á þingi, en eftir viðtali við ýmsa menn, þá frestaði ég að láta það koma fram, þar til eftir fulltrúafund S. Í. F., til að sjá, hvernig skipun það gerði á þessum málum, því það hygg ég, að öllum, sem kunnugir eru þessum málum, hafi komið saman um, að óhjákvæmilegt væri að gera einhverjar breyt. Það fór svo, að þessi fundur gerði engar till. um nýja skipan, er ég teldi öryggi að, og ég lít svo á, að skylda mín sé að leggja frv. fram til að skapa nauðsynlegt öryggi um fiskframleiðsluna í landinu.