20.12.1934
Sameinað þing: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

1. mál, fjárlög 1935

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Ég þarf að bæta nokkrum orðum við þá stuttu ræðu, er ég hélt fyrst við þessa umr. Ég vænti þess, að hv. þm. afsaki, þótt ég kunni að endurtaka eitthvað, sem ég sagði þá, enda er svo langt síðan, að þeir munu varla muna það. — Það er þá í fyrsta lagi brtt., sem ég á á þskj. 815, II, um að verja til kaupa á talskeytastöðvum í skip 25 þús. kr., en til vara 20 þús. kr. Hv. þm. Vestm., hv. þm. Borgf. og ég bárum fram till. til þál. um að skora á ríkisstj. að sjá um, að jafnan væru nægar birgðir af talskeytastöðvum til leigu hjá landssímanum. Síðan hefi ég talað við landsímastjóra, og hann telur, að ef þessi till. okkar verður samþ., þá sé hér um svo mikið fé að ræða, að ekki verði hægt að fullnægja þessu. Hann segir hinsvegar, að það sé nokkuð mikil eftirspurn eftir talskeytastöðvum, en til þess að landssíminn geti keypt þessar stöðvar og leigt út, þurfi fjárveitingu í fjárl., og ef veitt yrði í þessu skyni 20—25 þús. kr., þá mundi landssíminn geta leigt út um 30 talskeytastöðvar.

Það er mikil nauðsyn að fjölga talskeytastöðvum í skipum. Það hefir sýnt sig á yfirstandandi vertíð, t. d. á Vestfjörðum, að af því að þrjú skip hafa haft talskeytastöðvar, hafa þau getað hjálpað hvert öðru, ef eitthvað hefir bilað eða orðið að. Aftur á móti hafa þau skip, sem ekki hafa haft talskeytastöðvar, orðið að hrekjast á hafi á annan sólarhring án hjálpar. Það er víst, að sjómenn þar vestra trúa því, að séu 15—20 bátar úr hverri verstöð með talskeytastöð, megi gera ráð fyrir því, að þeir geti bjargazt til lands, ef vélarbilun verður. Ég tel bráðnauðsynlegt, að þetta verði samþ. Landssíminn tekur um 120 kr. í leigu á ári fyrir hverja talskeytastöð, og er sjáanlegt, að hann bíður engan halla af þessu.

Ég efa það ekki, að sumir vildu frekar kaupa þessar stöðvar en leigja, því að þær munu ekki kosta nema um 800 kr., en það vill landssíminn ekki, og eins og kunnugt er, má ekki setja upp slíkar stöðvar nema með hans leyfi.

Ég vildi vænta þess, þar sem það er æðilítið fé, sem veitt er til öryggis sjómanna og útgerðarinnar, að þessi upphæð fengi að standa. Hér er ekki um tap að ræða, því að þetta fé kemur til með að gefa fullkomna vexti.

Þá hefi ég borið fram brtt. viðvíkjandi Djúpbátsferðunum. Hv. frsm. samgmn. skýrði frá því, hvaða afstöðu fjvn. tekur í málinu og meiri hl. samgmn., sem sé að bjóða að leigja „Hermóð“ án endurgjalds næsta ár til reynslu. Í Ed. bar ég fram brtt. við frv. um hlutafjárframlag og ábyrgð ríkisins fyrir H/f Skallagrím í Borgarnesi, sem gengu í þá átt að koma Djúpbátsferðunum í sæmilegt horf, en þær voru felldar. Því miður eru allt of margir hv. þm. ekki nógu kunnugir þessu máli til þess að geta gert því rétt skil. Samgönguvandræði eru þarna mikil og enginn vegur á landi, nema reiðvegir milli sveita, sem sumstaðar eru þó ekki heldur, eins og t. d. milli Grunnavíkurhrepps og Sléttuhrepps. Allar samgöngur verða því að fara fram á sjó. Fyrir stríð var borgað fyrir póstsamgöngurnar einar um Ísafjarðardjúp 12 þús. kr. Þau skip, sem höfð hafa verið til mannflutninga um Ísafjarðardjúp, hafa verið léleg og ekki boðleg, nema helzt eitt, gufubáturinn „Tóti“, meðan hann var. Maður, sem athugað hefir strandlengjuna þarna hringinn í kring austur á Þaralátursfjörð, hefir sagt mér, að vegalengdin samsvari vegalengdinni frá Ísafirði til Eyrarbakka. Hér er því ekki um neina smáa vegalengd að ræða, þegar þess er og gætt, að engum öðrum samgöngum er til að dreifa og allt verður að flytja á bátum.

Ég hefi átt tal við þá menn í sýslunefndinni, sem hafa þetta mál með höndum, og þeir kváðust ekki treysta sér til að taka „Hermóð“ á leigu með 20 þús. kr. tryggingu. Ég mundi hinsvegar vinna að því, að „Hermóður“ yrði tekinn á leigu, ef styrkurinn yrði hækkaður upp í 24 þús. kr., enda þótt ég sé þess viss, að hann sé ekki framtíðarskip. Það þarf að fá skip, þar sem aðbúnaður farþega er sæmilegur, því fólkið þarf að vera í skipinu 12—14 tíma, og oft á annan sólarhring. Ef ekki er sæmilegur aðbúnaður, getur því fólki verið búið heilsutjón af slíkum ferðum, enda hefir það verið svo síðustu árin, er notaðir hafa verið lélegir bátar í þessar ferðir, að fólk hefir keypt aðra báta til að fara með. En slíkt er ófært, því að með því missir Djúpbáturinn miklar tekjur. — Ég efast ekki um, að þeir, sem eru kunnugir þessu máli, greiði þessari till. atkv.

Þá hefi ég borið fram brtt. um, að framlagið til sandgræðslu hækki um tvö þús. kr., til sandgræðslu í Bolungavík. Það eru nokkur ár síðan sandgræðsla hófst í Bolungavík. Um 130 ha. voru girtir, nokkurt fé veitt til þess að bera í sandinn, og það sýndi sig, að sandfok heftist þar, sem vel var borið á. En vegna þess, hve kostnaðarsamt þetta var, vegna erfiðra aðstæðna, var minna af þessu gert en skyldi. Nú nýlega hefir verkalýðsfélagið í Bolungavík og einstakir menn tekið landið á leigu og unnið að þessu, en of lítið, vegna þess hve kostnaðarsamt þetta er.

Það búa nú um 800 manns í þorpinu, og hafa þeir úr sandinum nægar matjurtir og talsverðar slægjur. Ég veit fyrir víst, að það væri með því betra, sem hægt væri að gera fyrir þorpið, að styrkja það í þessu efni.

Þá hefi ég borið fram nokkrar till. um ábyrgðir. Það er þá fyrst að nefna, að ríkið taki ábyrgð á láni fyrir Eyrarhrepp til bryggjubyggingar. Það er þegar búið að leggja í þessa bryggju 57 þús. kr., en af því eru í skuld 40 þús. kr. Þessi skuld er á þremur stöðum, og frá tveimur hliðum hefir lánum verið sagt upp. Bankarnir hafa ekki viljað hjálpa, en mundu gera það, ef ríkisábyrgð væri fyrir hendi. Eftir er að byggja um 1/3 af bryggjunni, en svo miklar tekjur eru af henni nú þegar, að hún stendur undir vöxtum af þessum 40 þús. Sýslusjóður er fús á að endurtryggja lánið, ef ríkið óskar. Það er og auðvelt að útvega þetta lán annarsstaðar og með betri vaxtakjörum, en því aðeins, að ríkið gangi í ábyrgð.

Þá er það næst ábyrgð fyrir Ögurhrepp. Þegar læknissetrinu var breytt með l. frá 1933 og það sett í Ögur, þá gengu ýmsir hreppar frá að taka þátt í byggingarkostnaðinum, svo að Ögurhreppur stendur þar nú einn uppi. Upphaflega var áætlað, að byggingarkostnaður yrði 23 þús. kr., en vegna þess, að húsinu var breytt samkv. till. landlæknis og sjúkraskýlið stækkað, varð hann 29 þús. kr., og verður Ögurhreppur einn að standa undir því. Nú eru fordæmi um það að þar sem eigi hefir orðið samkomulag milli hreppa í slíkum tilfellum, þá hefir framlag ríkissjóðs verið meira en helmingur kostnaðar. Og hefir hreppurinn orðið að hafa mikið af þessu fé á víxlum, má því nærri geta, hve erfitt það hefir verið fyrir hann að standa undir þessari skuld vegna byggingarinnar, þar sem hann eðlilega hefir orðið að greiða af henni víxilvexti. Ég hefi því leyft mér að fara fram á, að ríkissjóður ábyrgðist 15 þús. kr. lán vegna þessarar byggingar. Þar sem líka svo sérstaklega stendur á, að hinir hrepparnir hafa skorizt úr leik, þá tel ég ekki nema sanngjarnt, að ríkissjóður hlaupi undir bagga.

Loks hefi ég tekið hér upp till. um ábyrgð fyrir Ísafjarðarkaupstað, Eyrarhrepp og Hólshrepp, allt að 700 þús. kr. Á lán þetta að vera til rafveitubyggingar. Ábyrgðarheimild þessi hefir áður staðið í fjárl. en þá í tvennu lagi. Þannig var hún þá 600 þús. kr. fyrir Ísafjörð og Hólshrepp, og 180 þús. fyrir Eyrarhrepp. Er hún því 80 þús. kr. lægri nú. Áður var ætlunin, að virkjun þessi væri í tvennu lagi, en nú er það sameiginlegt álit allra þeirra, sem hér eiga hlut að máli, að virkja beri fyrir öll hreppsfélögin og bæjarfélagið í einu lagi, því að það muni verða allt að 100 þús. kr. ódýrara. Ég hefi heyrt það á ýmsum hv. þm., að þeim er ekki vel við slíkar ábyrgðir sem þessa, sérstaklega vegna mistaka þeirra, sem orðið hafa síðastl. ár með rafveiturnar á Sauðárkróki og Blönduósi. En hér er ólíku saman að jafna. Þar var varla not fyrir allt það rafmagn, sem hægt var að framleiða, en hér mundi Ísafjörður, Bolungavík og Hnífsdalur taka svo mikið rafmagn, að þó að virkjunin með nauðsynlegustu leiðslum kostaði 700 þús. kr. og rekstrarkostnaður stöðvarinnar yrði á ári 60 þús. kr., þá myndi það margborga sig, ekki aðeins fyrir hlutaðeigandi héruð, heldur og fyrir ríkissjóðinn, því að það myndi sparast erlendur gjaldeyrir, sem næmi 70—80 þús. á ári. Auk alls þess hagræðis og sparnaðar, sem slík umbót myndi hafa í för með sér fyrir alla héraðsbúa, sem nú verða að greiða 1/10 fyrir hverja kw.stund af rafmagni, sem þeir nota, sem þó engan veginn er nægilegt til ljósa, hvað þá meir. Það hefir verið reiknað út af þeim rafmagnsverkfræðingum, sem beztir eru taldir hér á landi, þeim Steingrími Jónssyni og Jakobi Gíslasyni, að enda þótt stöðin ætti að borga sig á 20 árum, þá þyrfti rafmagn til ljósa ekki að kosta yfir 75 aura kwst., rafmagn til suðu 25—30 aura og rafmagn til iðnaðar ennþá minna, og auk þess yrði mjög ódýrt rafmagn til allra nota á sumrin. Það, sem víða hefir verið orsök þess, að raforkustöðvar hafa ekki borið sig, er það, að ekki hefir verið þörf fyrir allt aflið, en hér mun ekki þurfa að óttast slíkt, þar sem þegar eru til staðar um 4 þús. manns til þess að nota það. Hér er því ekki annað fyrir hendi en reyna að koma stöð þessari upp sem allra fyrst. Þar sem það er sýnt, eftir þeim rannsóknum, sem fyrir liggja, að hún muni borga sig tiltölulega fljótt, virðist heldur ekki vera nein ástæða til þess að vera að draga byggingu hennar umfram það, sem þegar er orðið. Þess mætti einnig vænta, að þegar hún væri tekin til starfa, þá risi upp ýmiskonar smáiðnaður í þessum byggðarlögum, þegar fengist ódýrt afl.

Í sambandi við það, sem ég hefi sagt áður um h/f Vestfjarðabátinn, þá höfum við hv. þm. V.-Ísf. einnig lagt til, að ríkissjóður taki ábyrgð á allt að 90 þús. kr. til byggingar nýs báts. Það er nefnil. talið, að hægt sé að fá byggðan bát til þess að annast ferðir fyrir Vestfjörðum fyrir ca. 90 þús. kr., sem þó þurfi ekki að greiðast nema á 10 árum. Með því að fá slíkan bát, þá er tryggt, að hægt er að reka samgöngurnar fyrir Vestfjörðum svo sæmilegt megi teljast, og jafnframt án gífurlegs taps. Ég er þess því fullviss, að ríkissjóður kemst ekki á annan hátt ódýrar út úr því að sjá Vestfjörðum fyrir sæmilegum samgöngum en með því að ganga í ábyrgð þessa.

Þegar gamla Djúpbátsfélagið hætti í fyrra, varð ríkisstj. að senda vitaskipið „Hermóð“ vestur og hafa hann þar um 2 mán. skeið til þess að annast samgöngurnar fyrir Vestfjörðum. Tapið á rekstri skipsins þennan stutta tíma varð um 7 þús. kr., þrátt fyrir það, þó að það fengi nokkurn styrk til þess að halda uppi ferðum þarna. Þessi tilraun með „Hermóð“ fælir menn frá því að leigja skip til þessara ferða. Þó ber á það að líta, að annar þessara mánaða, sem „Hermóður“ var þarna, var einhver sá lakasti hvað flutninga snertir, en í því efni eru ekki allir mánuðir jafnir. En þörf fyrir mannflutninga er þarna jafnan fyrir hendi.