05.12.1934
Neðri deild: 51. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2693 í B-deild Alþingistíðinda. (3720)

161. mál, síldarútvegsnefnd

Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég vildi leiðrétta misskilning, sem fram kom í síðustu ræðu hv. þm. Borgf.

Með þeim bráðabirgðal., sem sett voru síðastl. sumar, var allt vald lagt í hendur ríkisstj., en með því frv., sem hér liggur fyrir, er það þvert á móti lagt í hendur útgerðarmannanna sjálfra eða n., sem þeir kjósa. Þetta er höfuðmismunurinn á þessu frv. og bráðabirgðal., og ef hv. þm. Borgf. vill vera á móti einkasölu og treystir ekki ríkisstj. til annars en að lögákveða einkasölu, ef henni býður svo við að horfa, þá á hann að vera með því frv., sem hér liggur fyrir og á móti frv., sem er samhljóða bráðabirgðal.

Í öðru lagi sagði hv. þm., að í sumar hefði verið skipuð n. til þess að hafa eftirlit með síldarsölunni, sem svo hefði ekkert haft með söluna að gera. Þetta er algerlega rangt. N., sem sett var í sumar, var ekki til þess að hafa eftirlit með síldarsölunni, heldur var henni falið að hafa með höndum sölu á allri matjessíld til útlanda, og það var með reglugerð sett sem skilyrði fyrir útflutningi á matjessíld, að öll salan færi fram fyrir milligöngu þessara manna, sem skipaðir voru í n.

Með því, að ég er einn stjórnarnefndarmaðurinn í sölusamlaginu, er mér þetta vel kunnugt, og ég sé ástæðu til að undirstrika það til þess að sýna fram á, hvað lítið vit hv. þm. Borgf. hefir á því, sem hann talar um, þegar hann segir alveg rangt frá hlutverki þessarar n., sem þó hefir starfað opinberlega.