13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2756 í B-deild Alþingistíðinda. (3887)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Frsm. meiri hl. (Jónas Guðmundsson):

Þótt ég ætti að vera frsm. þessa máls, hefi ég því miður ekki getað fylgzt með umr. til hlífar, vegna þess að ég var að gegna öðrum störfum hér í þinghúsinu, sem nauðsyn bar til að inna af hendi. En ég geri ráð fyrir, að umr. hafi fallið hér í svipaða átt eins og í samgmn. Þar komu fram tvö ólík sjónarmið, sem brtt. þær byggjast á, sem hér liggja fyrir. Sjónarmið meiri hl. er það, að skipuleggja þessa flutninga á svipaðan hátt og gert er erlendis með járnbrautar- og sporvagnaferðum; en hitt er að hafa þetta að mestu leyti óbundið, aðeins veita sérleyfi, sem helzt eiga að veitast af héraðs- og bæjarstjórnum, innan vissra takmarka. Þessi tvö sjónarmið eru ósamræmanleg, og það er rétt hjá hv. þm. N.-Þ., að það er ekki til neins að samþ. neitt af brtt. á þskj. 340, nema þá að frv. verði alveg sniðið upp að nýju á þeim grundvelli, sem þar er lagður. Ég sé ekki ástæðu til að ræða mikið um þetta, en vil aðeins fara nokkrum orðum um, hvort er heppilegra, að ríkið veiti þessi sérleyfi eða bæjar- og héraðsstjórnir. Það mun vera gert talsvert að því annarsstaðar á Norðurlöndum, að héraðsstjórnir veiti slík leyfi sem þessi. En það verður að gá að því, að þar er sumstaðar í einu héraði sexfalt fleira fólk heldur en hér á landinu öllu. Flutningaþörfin þar er miklu umsvifameiri á allan hátt heldur en hér. Og menn hljóta að sjá það, að ef ná á því marki að fá verulega festu í þennan bifreiðarekstur hér, þá er heppilegra, að einn aðili veiti leyfi til hans heldur en margir. Það er miklu hættara við árekstrum, ef bæjarstjórnir og sýslunefndir veita leyfin, heldur en ef ríkið gerir það eitt. Með því er ekkert frekar gengið á rétt Rvíkur heldur en annara.

Um það, hvort heppilegra sé að fela póstmálastjórninni eða vegamálastjóra yfirstjórn þessara mála, má vitanlega deila endalaust. Mér fyrir mitt leyti finnst þetta falla betur undir póstmálastjórnina, sem hefir það með höndum að koma á sem reglubundnustum póstferðum um landið. Þessar bílasamgöngur eru, þann tíma sem bílar geta á annað borð gengið, fljótustu og ódýrustu póstferðirnar og því miklu eðlilegra, að póststjórnin hafi yfirstjórn þeirra. — Skal ég svo ekki orðlengja þetta frekar.