03.10.1934
Sameinað þing: 2. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í B-deild Alþingistíðinda. (39)

Kosning til efrideildar

Ásgeir Ásgeirsson:

Ég er sammála úrskurði hæstv. forseta frá í gær um það höfuðatriði, að það sé skylda Bændaflokksins að hafa þm. í Ed. En svo má um það deila, með hverjum hætti var hyggilegast að fullnægja þeirri nauðsyn. Hæstv. forseti hefir úrskurðað, að tiltekinn listi með nafni Bændaflokksmanns á skuli tekinn gildur. Það hefði eins mátt úrskurða, að annar listi, sem var borinn fram af Bændafl.manni, skyldi tekinn gildur. Í þriðja lagi hefði mátt úrskurða ógilda alla þá lista, sem bornir voru fram af mönnum úr öðrum flokkum en þeim, sem á listunum voru, og kjósa síðan óhlutbundinni kosningu þá, sem á vantaði til að Ed. væri fullskipuð. En úr því sem komið er vil ég stinga upp á því, sem ekki þarf nema samkomulag um, að leyfa Bændaflokknum að skipta um mann í Ed., ef hann óskar þess. Þá er hvorutveggja fullnægt, þeirri skyldu Bændaflokksins að eiga mann í Ed., og hinu, að flokkurinn ráði sjálfur manninum.