06.12.1934
Efri deild: 54. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2774 í B-deild Alþingistíðinda. (3909)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Þorsteinn Þorsteinsson [óyfirl.]:

Ég ætla ekki að láta berast inn í þann straum, sem hér hefir myndazt, en einungis halda mér við þá till., sem ég hefi leyft mér að bera hér fram við frv., og minnast á hana örfáum orðum. — Það hafa komið fram tvær ástæður gegn till., ef ástæður á að kalla. Það hefir verið ymprað á þeim aðeins. Önnur er sú, að búið sé að athuga þetta frv. svo vel í hv. Nd. af n. þar og einstökum hv. þm., að ekki muni þar þurfa um að bæta, og yfirleitt kom sá andi fram um það, að úr því að Nd. hefði lagt sig fram til þess að gera frv. vel úr garði, þá sé þessi hv. d. ekki fær um að endurbæta það. Ég vil algerlega mótmæla þessu. Ég sé enga ástæðu til þess, að við getum ekki bætt um það, sem Nd. hefir gert, og tel okkur enga eftirbáta þeirra hv. þm., sem þar eiga sæti. — Ef till. þessi er sæmileg, þá er nákvæmlega sama, hvort hún kemur í bága við gerðir Nd. eða ekki. Hún á þá hér fram að ganga. — Þá var og á það minnzt, að fá héruð myndu um það skeyta, að gera tillögur sínar. Þau um það, ef þau vilja ekki nota þann rétt sinn. En allt um það sé ég ekki ástæðu til annars en leyfa þeim, sem vildu, tillögurétt í þessu efni. Ég æski þessa réttar mjög fyrir sveitahéruðin. Ákvæði frv. snerta þau mjög, og það er ekki nema velvild og sanngirni í því, að löggjafinn verði við þessari ósk.