06.12.1934
Efri deild: 54. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2777 í B-deild Alþingistíðinda. (3912)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Af því að ég hefi aðeins leyfi til stuttrar aths., skal ég ekki fara út í aukaatriði, en þó verð ég að segja það, að mér finnst undarlegt að jafna bílferðum hér á landi við járnbrautir erlendis, því að ríkin reka yfirleitt sjálf járnbrautirnar, og þá hefði til samræmis við það átt að þykja nauðsynlegt, að ríkið tæki að sér bifreiðaferðirnar. (PM: Það kemur bráðum). Já, e. t. v. (SÁÓ: Það er ekki alstaðar, að ríkið reki járnbrautirnar). Með þessum 6 manna bifreiðum er átt við það, að 7 manna bifreiðar falli ekki undir l. Ég hélt nú satt að segja, að þær myndu koma undir þetta líka, en heyri nú, að svo er ekki. Ég vil, að það komist alveg tvímælalaust inn í þingtíðindin. Annars finnst mér undarlegt, að spurningum hv. 2. þm. Rang. og mínum um það, hvað sé átt við í þessum vafaatriðum, sem við höfum gert fyrirspurnir um, er bara alls ekki svarað. Hv. frsm. n. tók það sem dæmi, að það félli ekki undir þessi l., ef menn leigðu sér bifreið í félagi til þess að ferðast um landið. Og ég held, að þetta sé alveg rétt. Slíkir menn hafa ekki með höndum fólksflutninga. En með þessu ákvæði er hægt að fara ákaflega mikið í kringum l., ef það er ekki orðað nægilega skýrt og greinilega. Mér virtist hv. 1. þm. N.-M. vilja takmarka mjög þetta ákvæði og hlaupa í það, að allar bifreiðar undir 6 manna væru lausar undan þessu ákvæði, en í 7. gr. frv. er heimild til þess að láta l. líka taka til minni bifreiða. Og það verður að gera ráð fyrir því, að þetta geti komið til framkvæmda. Annars væri meiningarlaust að hafa það í l. Og hvaða bifreiðar eru þá frjálsar? Það er enginn munur gerður á fólks- og vörubifreiðum í þessu efni, svo framarlega sem vörubifreiðarnar flytja farþega. Þetta sést á því, að einungis er sagt „með bifreiðum“, og í síðari málsgr. 1. gr. frv. er sagt frá því, með hvaða skilyrðum megi aka í fólksflutningabifreiðum eða öðrum bifreiðum: „Sérleyfi þarf ekki til fólksflutninga endrum og sinnum með bifreiðum, sem skráðar eru til vöruflutninga, en rúma fleiri en 6 farþega, enda sé umbúnaður þeirra, til öryggis og þæginda farþegum, samkv. reglum, er ráðherra setur, og hafi bifreiðarstjóri þeirra rétt til að stýra leigubifreið til fólksflutninga.“

Þetta sýnir, að þegar svo stendur á sem hér er talað um, þá eru flutningabifreiðar einnig undir þessum l., að svo miklu leyti, sem þær geta flutt þá farþega, sem annars er bannað að flytja nema með sérleyfi. Þetta er tvímælalaust. Annars verð ég að segja það hér sem aukaatriði, — hvers vegna eru ekki vörubifreiðarnar skipulagðar, ef þetta er svo ágætt? Því er það ekki gert og veitt til þeirra sérleyfi? — Eftir þessu frv. og þegar búið er að hagnýta heimild 7. gr., þá er óheimilt að flytja farþega um landið nema með sérleyfi, og þá orðið heldur erfitt að ferðast um á ýmsum þeim leiðum, sem ekki yrði sótt um leyfi til. Ég held, að þetta hafi verið of lítið hugsað mál. — Mér þótti vænt um, að hv. 2. þm. Rang. hreyfði hér umr. um 6. gr., af því að ég gleymdi því áðan í minni ræðu, en það er um það, að ef fleiri en einn fá sérleyfi á sama vegi, þá skuli skipta gjaldinu á milli þeirra eftir á, eftir sæta-km. Nú vil ég taka til dæmis leið eins og til Þingvalla eða Hafnarfjarðar. Mér þykir sennilegt, að flestar stöðvarnar myndu sækja um þetta leyfi, og sennilega yrði að veita flestum stöðvunum það, því að það er svo mikið að gera, að allar stöðvarnar þarf til að fullnægja þörfinni á vissum tímum. Nú vil ég spyrja hv. n.: Hvernig hugsar hún sér að framkvæma þetta ákvæði í 6. gr.? Mér skilst, að hið opinbera verði að hafa sérstakan mann til þess að geta séð um að deila gjaldinu rétt niður, og það innheimtumann í hverri bifreið, til þess að athuga, hvað mikla peninga hver fær og hve marga km. hefir verið ekið. Svo er að reikna út sæta-km. hverrar bifreiðar og jafna gjaldinu niður á hverja stöð. Ég skal játa, að þetta er að vísu bara heimild í l., en til hvers er heimildin, ef ekki á að gera ráð fyrir, að hún verði notuð? Ég skal svo ekki misnota leyfi hæstv. forseta til lengri ræðu, enda tími til að ræða málið nánar við 3. umr.