20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2818 í B-deild Alþingistíðinda. (3960)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Forsrh. (Hermann Jónasson) [óyfirl.]:

Ég vil benda á í þessu sambandi, að ef brtt. hv. þm. G.-K. yrði samþ., fengi atvmrh. meira vald til að ákveða, hverjir fá sérleyfi til áætlunarferða samkv. frv., heldur en hann hefir eftir frv. eins og það er nú. Það er sagt í brtt., að atvmrh. skuli láta þá, sem ferðirnar hafa haft áður, hafa þær áfram, eftir því sem henta þykir, þ. e. a. s. eftir því, sem ráðh. þykir henta. (ÓTh: Vill ekki hæstv. forsrh. lesa till. áfram?). Það er sama, þó till. sé lesin áfram. Þar segir, að þeir, sem útundan verða um sérleyfi á leiðum, sem þeir hafa haft ferðir um, skuli sitja fyrir ferðum annarsstaðar, eftir því sem hægt er. Auðvitað sker ráðh. úr, hvað hægt er í því efni. Eins og frv. er nú, er ráðh. skyldur til að láta þá, sem haldið hafa uppi föstum ferðum á ákveðnum leiðum, „ganga fyrir að öðru jöfnu“ við veitingu sérleyfis á sömu leiðum. Ráðh. er þannig bundnari eftir frvgr. óbreyttri heldur en ef brtt. er samþ.

Hv. 3. þm. Reykv. minntist á ummæli um mig, sem ég hefði hætt við að höfða mál út af. Mun hann þar eiga við það, að hann sagði um mig í blaði eftir atburðina 9. nóv., að ég hefði verið í samráði við kommúnista. Ég vil láta það sjást, hvaða ummæli það voru, sem ég sá ekki ástæðu til að fara í mál út af. Að öðru leyti þarf ég ekki að svara hv. þm. Ég get aðeins sagt honum frá því, að ég athugaði einusinni, hvað mörg meiðyrðamál ég hefði getað farið í á einu ári, og það voru eitthvað 18 svívirðingar um mig, sem ég hefði getað fengið andstæðingana dæmda fyrir. En ég hefi aldrei á æfi minni farið í meiðyrðamál, og mun ekki gera það fyrst um sinn. Þeir, sem vilja trúa illu um mig, mega það fyrir mér, ég læt mig það engu skipta.

Út af ummælum hér í d., sem beðið hefir verið að endurtaka utan þings, vil ég benda hv. 3. þm. Reykv. á, að hann ætti ekki að vera að rifja upp slíkt. Mér eru minnisstæð ummæli, sem ég heyrði hér í d. þegar ég var í skóla. Jón heitinn Magnússon var að tala og minntist á „saurblaðið Vísi“. Núv. hv. 3. þm. Reykv. stökk þá upp og heimtaði, að hann fengi að höfða mál á hendur honum fyrir þau ummæli. Jón gekkst fyrir því, að málshöfðun var leyfð, en hv. 3. þm. Reykv. höfðaði málið aldrei, af hvaða ástæðum sem það hefir nú verið.

Ég vil biðja hv. 3. þm. Reykv. að skipta sér ekkert af því, hvenær ég höfða meiðyrðamál og hvenær ekki; ég býst við, að hver sé sjálfráður í því efni. Og honum er óhætt að láta Vísi halda áfram þess vegna, að ég mun ekki taka hátíðlega það, sem þar er sagt.