20.12.1934
Neðri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 2826 í B-deild Alþingistíðinda. (3967)

66. mál, fólksflutningar með fólksbifreiðum

Pétur Halldórsson [óyfirl.]:

Það er réttmæti, að þessi brtt. verði samþ., þó að það sé ekki vegna þess, að hún bæti mikið úr fyrir þeim, sem reka bílaflutninga í einkafyrirtækjum. Með þessari löggjöf á að setja farartækin undir náð ráðh., og það er á hans valdi, hvort menn fá að flytja lengur eða skemur. Menn eiga það hér eftir alveg undir náð ráðh., hvort kjörin eru þannig, að nokkurs sé um vert að fá að halda flutningunum áfram. Þetta er allt á valdi ráðh. og það, hvort lög eru orðuð nokkuð mildar eða ekki, skiptir ekki neinu verulegu máli. En þrátt fyrir það mun ég þó verða fylgjandi till., því hún er spor í rétta átt.

Í þessum efnum hafa sósíalistar fengið fram nýja tegund af ríkisrekstri, sem eftirtektarverður er að því leyti, að hann er á þann hátt, að þeir, sem eiga höfuðstól í þessum rekstri, eru látnir eiga hann áfram, en ráðh. ræður, hvaða hagnað þeir fá, og hann getur sett þau skilyrði, að reksturinn verði arðvænlegur, en hann getur líka sett þau skilyrði, að þessi höfuðstóll þeirra verði einskis virði. Þar sem þessu er svo háttað, þá er hér um að ræða mikil völd, sem ráðh. eru fengin í hendur, og ennfremur er hér um að ræða ríkisrekstur með fé einstaklinga. Þetta getur leitt til þess, að menn biðja ríkið að kaupa farartækin, vegna þess að þeir reki þau með tjóni. Það er fyrirsjáanlegt, að eftir frv. er póstmálastjórninni, sem er angi af ríkisstj., heimilt að taka upp á því að reka vagna á þessum leiðum. M. ö. o. það er farin sú leið að nota fé og þekkingu einstakra manna og leggja kostnaðarlaust eða kostnaðarlítið undir ríkið. Er stefnt beint að þessu, og er á valdi ráðh., hvenær það verður gert. Það er þægilegt fyrir ríkisvaldið að nota fyrst tækin eins og því líkar, og kaupa þau svo eftir mati, þegar þau eru orðin skemmd eða einstaklingarnir orðnir uppgefnir á að reka þau, vegna þess að ekkert er upp úr því að hafa. Hitt er annað mál, að það er eftir að sjá, hvað verður, ef þetta tekst og allt þetta er komið í hendur ríkisins. Er spennandi að sjá, hver hagnaðurinn verður, ef núv. meiri hl. tekst að halda völdum svo lengi ennþá í landinu, að það komi í ljós, hver tilgangurinn er. Frv. er á ýmsum stöðum klaufalega orðað og ekki ljóst, og skal ég ekki deila um, hvernig beri að skilja það; úr því verður skorið af dómstólunum á sínum tíma, en þýðir ekkert fyrir einstaka þm. að segja neitt um þau atriði. Frv. þetta verður að lögum í dag eða á morgun og til framkvæmda um áramót, og með því er kveðinn upp dauðadómur yfir einstaklingsrekstri á þessu sviði.

Eftir þessari löggjöf er, eins og ég hefi áður sagt, ríkinu gefin heimild að taka þennan rekstur í sínar hendur, og af þessum lögum, eins og ýmsum öðrum, sem samþ. hafa verið á þessu þingi, er yfirvofandi hætta af þeirri nýju stefnu, að óvönduð ríkisstj. geti hagnýtt sér heimildina til að taka réttinn af einstökum mönnum. Þetta þekkist sumstaðar erlendis, en ég veit ekki til, að þetta hafi verið praktiserað hér á landi fyrr en á þessa þingi. Ríkisvaldið hefir sverðið hangandi yfir þegnunum og getur sagt við þá: Ef þú vilt gera kaup og ganga að því, sem ég set upp, þá skaltu lifa, en annars fellur öxin að rótum trjánna og þér verður slátrað. Þetta er hin nýja stefna, og hún er stórhættuleg, því á meðan ríkið tekur ekki flutningatækin í sínar hendur hefir stj. sverðið hangandi yfir höfðum þeirra, sem reka þau. Ég skal ekkert fullyrða um, hvort löggjöfin verður notuð eða ekki, en þetta er atriði, sem löggjafinn verður mjög vel að athuga og lifa eftir, að þessi stefna þróist ekki í voru landi, því þá er opnuð leið fyrir spillingu í þjóðfélaginu, sem ef hún fær að grafa um sig, er dauðadómur yfir einstaklingsrekstrinum og þjóðarheill. Ég er á móti slíkri löggjöf í einu og öllu, og þó ég greiði atkv. með þeim brtt., sem ég tel til bóta, mun ég greiða atkv. gegn frv., því ég álít þetta óhæfilega löggjöf í höndum hvað heiðarlegrar stj. sem væri, óhæfilega gagnvart borgurunum, sem með þessu eiga allt sitt fjárhagslega líf undir einum ráðh.