24.10.1934
Neðri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í C-deild Alþingistíðinda. (3991)

87. mál, bæjargjöld á Akureyri

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég er hræddur um, að hv. 3. þm. Reykv. hafi ekki skilið það, sem ég sagði í fyrri ræðu minni. Ég gerði það ekki að umtalsefni, að það væri einhver sérstakur stór munur á því, hvort vörugjald væri lagt á vöru eftir frv. eða sem veltugjald. (JakM: Hæstv. ráðh. skildi ekki sjálfan sig). En ég lagði áherzlu á, að ég vildi ekki, að neitt kæmi frá þinginu um það, hvaða tekjustofnar skuli taka við hjá bæjarfélögum, ef ekki er hægt að jafna öllum nauðsynlegum gjöldum til bæjarfélaga niður sem hreinum tekju- og eignarskatti, fyrr en athugað væri, hvaða tekjustofna væri eðlilegt, að bæjarfélög fengju, ef þau þyrftu viðbót við beina skatta. Með því að samþ. þetta frv. væri því af hálfu Alþ. slegið föstu, hvaða tekjustofn Akureyri skuli nota í þessu tilfelli. Það er nokkur vafi á því, hvort bæjarfélögum er heimilt að leggja gjald á vöruumsetningu.

Hitt atriðið, sem ég lagði áherzlu á, var, að ef þingið ætlaði að gefa sérstaka heimild um þetta, þá yrði það að ákveða, hve langt mætti ganga í álagningu beinna skatta, áður en farið væri að leggja óbeina skatta.

Hv. 3. þm. Reykv. hefir verið að nudda um það hér í d., að rekstrarútsvör hér í Rvík hafi ég fundið upp. Þetta veit hv. þm. að er rangt. Hann veit, að gjald þetta var að meira eða minna leyti lagt á hér í Rvík eftir að núgildandi útsvarslöggjöf var samþ., þó að það hafi ekki verið gert að fastri reglu fyrr en eftir að ég tók við stjórn í niðurjöfnunarn. En flokksmönnum hv. þm. þótti betra að leggja þetta gjald á eftir einhverra manna áliti í það og það sinn, sem auðvitað fylgdi engum reglum.