24.10.1934
Neðri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (3995)

87. mál, bæjargjöld á Akureyri

Jóhann Jósefsson:

Ég held, að það hafi verið á vetrarþinginu 1933, að bæjarstjórnin í Vestmannaeyjum fékk heimildina til þess að leggja vörugjald á vörur, sem fara í gegnum höfnina, til þess að afla tekna fyrir bæjarsjóðinn, svipað og farið er fram á í þessu frv. Bæjarstj. gerði það eftir vandlega athugun á öllum hugsanlegum leiðum til þess að fá eitthvert fé til að standast útgjöld bæjarins. Þá var það svo, og er enn í dag, að niðurjöfnunarupphæðin, sem fjárhagsáætlunin aðallega er byggð á, reyndist svo svikul í innheimtu, að það er ómögulegt fyrir nokkra fjárhagsn. eða bæjarstjórn að byggja lengur eingöngu á þeirri tekjuvon, sem niðurjöfnunarnefnd gefur í skyn með niðurjöfnun á pappírnum. Svo þegar fólk kemur til bæjarstj. og heimtar eftir lögum fé til fátækraframfæris og vegna sjúklinga, — að ég nú ekki tali um barnakennara og aðra starfsmenn, sem verða að fá sín laun greidd —, þá geri ég ekki ráð fyrir því, að þetta fólk geri sig ánægt með, að því sé vísað til þessa eða hins gjaldanda, sem á sitt útsvar ógreitt. (PÞ: Það er þó gert í Vestmannaeyjum). Eru mikil brögð að því? Kannske hv. þm. vilji taka til máls á eftir og segja okkur eitthvað um þetta. Jafnvel þó að slíkt væri gert, mundu menn ekki gera sig ánægða með það, að þeim væri vísað á menn, sem gætu ekki borgað eða eru óskilvísir gjaldendur. Þetta rak á sínum tíma fjhn. Vestmannaeyja til að fá heimild hjá Alþ. til að leggja á vörugjald, en sú heimild hefir þó verið mjög lítið notuð.

Mér er sagt, að hv. 3. landsk. hafi sagt, að þetta fyrirkomulag hafi reynzt illa í Vestmannaeyjum. Ég mótmæli því, að svo sé; það eru algerlega staðlausar staðhæfingar. Það er ekki enn kominn tími til að tala um það, hvort þetta fyrirkomulag hafi reynzt illa eða vel. En þessi hv. þm., eins og allir aðrir jafnaðarmenn, vill ekki, að neinu sé náð í bæjarsjóðinn á þennan hátt.

Þessi löggjöf kom til framkvæmda í Vestmannaeyjum fyrst nú eftir síðustu áramót, og mjög vægilega, sökum þess að ýmsir ákafamenn og frekar skammsýnir blésu upp mikinn mótþróa gegn málinu, á þeim grundvelli, að gjaldið kæmi mest niður á útgerðarvörum. Þetta dró málið á langinn. En samt sá bæjarstj. að lokum, að ekki var annað fært en að nota þessa heimild. Ég held, að yfirleitt sé ekkert kvartað um þetta fyrirkomulag nú. Þetta gjald er svo hverfandi lítið, samanborið við önnur opinber gjöld, bæði til hafnarinnar og annars, og þess gætir því svo lítið. Ennfremur sagði hv. þm., að meiri hluti bæjarbúa væri á móti þessu gjaldi. Þetta eru helber ósannindi. Það þarf ekki annað en að vísa til kosninganna við síðustu áramót. Ég og þeir, sem voru fylgjandi Sjálfstfl., vorum yfir höfuð fylgjandi þessu gjaldi. Ég hafði barizt fyrir því á Alþ., að fá lögfest heimildina til þess. Kosningarnar sýndu því glögglega, að meiri hl. þeirra bæjarbúa í Vestmannaeyjum, sem kaus menn í bæjarstjórn, vildi hafa þetta gjald.

Verkamenn, sem oft hafa komið að galtómum bæjarkassanum, þegar þeir hafa ætlað að fá vinnulaun sín útborguð, munu þeir hafa á móti því, að bærinn hafi tekjuöflunarleið, sem er viss? (PÞ: Hefir verið meira í bæjarkassanum síðan þetta komst á?). A. m. k. hefir þetta gjald komið í hann jafnt og þétt. Ég skal ekki segja, hvort nauðsyn krefur, að þessi leið verði farin lengi.

Ég gæti trúað því, eins og stefna þingsins er um álagning beinna skatta, að það neyðist til að fara inn á þessa braut.

Ég vil að endingu bæta því við, að þetta gjald er í Vestmannaeyjum hæst á ónauðsynlegum vörum, en hverfandi lítið á nauðsynjavörum.