04.12.1934
Neðri deild: 50. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í C-deild Alþingistíðinda. (4015)

87. mál, bæjargjöld á Akureyri

Frsm. minni hl. (Stefán Jóh. Stefánsson):

Ég þarf ekki mörgum orðum við það að bæta, sem ég hefi áður sagt í þessu máli, vegna þess, að ekkert nýtt hefir komið fram í því, nema að hv. frsm. meiri hl. hefir fært fram ástæður hér með þessu frv., sent ég mun svara fáum orðum. Ég vil út af því, að hv. frsm. meiri hl. lýsti eftir nánari skýringum frá minni hálfu um það, hvað ég hefði átt við, þegar ég talaði um það í sambandi við útsvör á Akureyri, hvort þau hefðu verið reynd til þrautar. Ég get gefið þá nánari skýringu um þetta, að ég vildi vita, hvort svipuð útsvör hefðu verið lögð á skattborgara Akureyrarkaupstaðar og gert er í öðrum kaupstöðum landsins, hvort svipað hundraðsgjald hafi verið tekið þar af nettótekjum manna og eignum eins og t. d. í Reykjavík, Hafnarfirði, Vestmannaeyjum, Seyðisfirði og Neskaupstað o. s. frv. Mér virðist, að ef Akureyri hefir ekki lagt eins há útsvör á eins og t. d. þessir kaupstaðir, sem ég hefi nefnt, þá sé ekki ástæða til þess að taka Akureyrarkaupstað einan út úr og veita honum leyfi til þess að leggja þetta vörugjald á fram yfir aðra kaupstaði, að Vestmannaeyjum einum undanskildum. Og þar sem engar upplýsingar liggja fyrir um þetta atriði, þá finnst mér óeðlilegt að taka Akureyri út úr og veita henni þessi sérstæðu fríðindi, fyrir utan það, sem ekki hefir verið um deilt og hv. 3. þm. Reykv. var mér sammála um, að hér er um mjög leiðinlega skattamálastefnu að ræða, þar sem fjáröflunin er lögð á nauðsynjar og neyzluvörur almennings. Hv. 3. þm. Reykv. var mér andvígur út af einu tekjuöflunarfrv., sem lagt var fyrir þetta þing — en það frv. var um hækkaðan toll á tóbaki — vegna þess að með því að samþ. það væri verið að leggja toll á neyzluvöru almennings. Út frá sama sjónarmiði ætti hann vissulega að vera andvígur því, að lagður væri tollur á alveg óhjákvæmilega neyzluvöru almennings.

Ég sé þess vegna enga ástæðu til þess að gera frv. þetta að l., a. m. k. ekki fyrr en óyggjandi sannanir liggja fyrir um það, að Akureyrarkaupstaður hafi hér sérstöðu, og aðrir tekjuöflunarmöguleikar hafi þar verið reyndir til þrautar eins og annarsstaðar. Þegar þær upplýsingar liggja fyrir, þá fyrst gæti komið til mála að gefa Akureyri þessa sérstöðu. Ef svo færi, að frv. yrði samþ. óbreytt hér við þessa umr., þá mun ég koma með brtt. við það fyrir 3. umr., um það, að nauðsynjavörur skuli undanþegnar þessu gjaldi. Ég sé, að í Ed. hefir verið sett ákvæði inn í 10. gr. frv. til hafnarl. fyrir Siglufjarðarkaupstað, um að hækkun á slíku gjaldi skuli ekki ná til almennrar neyzluvöru. Ef endilega á að samþ. þetta frv., þá mun ég stuðla að því, að ekki verði samþ. hækkun á vörugjaldi Akureyrarkaupstaðar, fyrr en færðar eru sannanir fyrir því til atvmrh., að svipuð útsvör séu lögð á á Akureyri og annarsstaðar, miðað við nettótekjur manna og eignir, og að þá verði undanþegnar þessu gjaldi neyzluvörur almennings, og t. d. íslenzkar afurðir, fluttar á milli hafna, og líka aðfluttar vörur til útgerðarinnar, og ef vel ætti að vera og í samræmi við þá stefnu, sem kemur fram á þessu þingi, þá ættu innfluttar vörur til iðnfyrirtækja að vera undanþegnar gjaldinu. Þetta má allt athuga við 3. umr. málsins, ef svo fer, að frv. verði vísað þangað.