20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í C-deild Alþingistíðinda. (4021)

152. mál, trjáplöntur

Hannes Jónsson:

Ég vildi nú helzt óska þess, að hv. flm. stingi þessu frv. í vasa sinn og væri ekki að ómaka það til landbn. Ég sé ekki, að nein þörf sé á því að koma með einokunarfrv. í þessa átt, því að hér er engin nauðsyn fyrir hendi. Sú trjáræktarstarfsemi, sem þegar er í landinu, getur auðvitað hæglega annazt þetta að því leyti sem þörf krefur, og sá maður, sem veitir þeirri starfsemi forstöðu, getur séð um, að öll trjárækt, sem frv. grípur yfir, sé í því sniði, sem hann telur rétt. Að segja það, að hjá okkur sé um mikinn innflutning að ræða á trjáplöntum, sem ekki geta þrifizt hér, er, að ég hygg, talað út í loftið. Það er aðeins gert til þess að punta upp á frv. að tala um þennan innflutning í sambandi við það, að það þurfi að vernda fjármagnið í landinu frá því að fara fyrir trjáplöntur, sem ekki geta þrifizt hér á landi.

Undanfarin ár mun innflutningur á trjáplöntum hafa numið 4—5 þús. kr. Um helming af þessum innflutningi hefir Sigurður búnaðarmálastjóri annazt, og hinn helmingurinn er að langsamlega mesta hluta fyrir tilstilli þeirra manna, sem skógræktarmálin hafa með höndum fyrir ríkið. Og hvar hefir núverandi fyrirkomulag valdið svo miklu tjóni, að ástæða sé til að setja þetta í einokunarfjötra? Ég veit það ekki. Ég legg til, að frv. verði fellt.