07.11.1934
Neðri deild: 30. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í C-deild Alþingistíðinda. (4119)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Bergur Jónsson [óyfirl.]:

Hv. þm. Vestm. sagði réttilega, að hæstv. atvmrh. hefði tekið fram í bókun sjútvn., að hann teldi sér ekki fært að leggja með því, að frv. væri flutt inn í þingið, nema séð væri fyrir fjárhagshlið málsins. Ég vil benda á það, að ég er ekki bundinn af afstöðu hæstv. atvmrh. Hv. þm. sjálfst.manna hafa með framkomu sinni í sjútvn. slegið vopnin úr hendi sér í því að sanna það, að ég vildi ekki vera flm. málsins. Ég hefi lýst því yfir við umr., að ég er hlynntur málinu og tel nauðsyn á því að veita sjávarútveginum hjálp. En með því að bera fram till. í sjútvn. og flytja svo málið, án þess að ég hefði aðstöðu til að athuga það, hafa hv. þm. sjálfstæðismanna útilokað, að ég gæti orðið flm. frv. Eftir að hafa borið fram till. á röngum tíma og byggða á röngum forsendum fara þeir svo til flokksbróður síns, hv. þm. Ak., og fá hann til þess að gerast meðflm. frv., þó að hann væri búinn að bera fram brtt., sem færi í bága við þetta frv. Það þýðir enginn kattarþvottur fyrir hv. þm. Ak. í þessu máli. Það getur enginn þm. með fullu viti borið fram till., þar sem á að verja 1/3 af sjóði í þessum tilgangi og svo jafnframt borið fram frv., þar sem á að verja öllum sjóðnum í allt öðrum tilgangi. Ég vil ekki gera of lítið úr hv. þm. Ak. og geng því að því sem vísu, að hann hafi ekki legið frv. áður en hann flutti það. Ef hann hefir lesið frv. og haft aðstöðu til þess að kynna sér það, þá er hann of mikill til þess að hann geti setið hér á hv. Alþ. Það er alveg sama, hvað hv. þm. Ak. gerir sig háværan, og hvað miklar áherzlur hann leggur á orð sín og hve mikil rök hann reynir að tína fram. Þetta er svo einfalt mál, að hver þm. hlýtur að skilja það, að svona tvískinnungur, svona mótsögn getur ekki átt sér stað nema hv. þm. bíði hnekki á því. Ég vil benda á það, að það er stutt síðan hv. þm. Ak. gerði hlut hér í þinginu, sem hann hefir líklega gert óvart. Hann bar fram brtt., sem var í algerðri mótsögn við meiningu hans sjálfs. Hann hélt því fram í því sambandi, að hann væri búinn að búa til sérstök úrfellingsmerki, sem væru þannig gerð, að sum orð féllu úr, en önnur ekki. Hver þm. skildi brtt. á réttan hátt. En hæstv. forseti bar till. upp með röngum skilningi, sem fór í bága við orð í till. Ég er ekki að ásaka hv. þm. Ak., þó hann beri fram slíka vitleysu, en ég ásaka hann fyrir að vera sá þrákálfur að verja þessa vitleysu. Hann átti að vera svo heiðarlegur maður og lítillátur að viðurkenna, að hann hafði gert vitleysu og taka aftur till. Ég vona, að hv. þm. hafi fengið þá lexíu í þessari útreið sinni, þrátt fyrir góðvilja hæstv. forseta og hv. þm., að hann reyni að hlaupa ekki svona á sig aftur.

Hv. þm. Ak. biður um orðið. Ég þekki hann það mikið, að ég veit, að hann bætir sig ekki með því að halda fleiri ræður, nema hann ætli þá að koma fram sem iðrandi syndari og viðurkenna, að hann hafi flaskað á almennustu reglum rökfræðinnar. Ég tek þetta dæmi til þess að sýna það, að mþm. í sjávarútvegsmálum hefir fengið mann til þess að flytja frv., sem ómögulegt er, að hafi lesið það yfir.

Hv. þm. Vestm. talaði um einhverja ókurteisi, sem meiri hl. sjútvn. hefði sýnt minni hl. Það er nú alls ekki sannað, að hann og flokksbróðir hans í sjútvn. séu í minni hl. Það hefir engin atkv.gr. farið fram um málið í sjútvn. Ég hefi ennþá ekki orðið var við svo nákvæma kurteisi af hendi hv. sjálfstæðismanna. En hv. 6. þm. Reykv. get ég trúað til allra hugsanlegra skammarstrika.

T. d. í framsöguræðu sinni í gær notaði hann nál. meðnm. sinna til að halda, langa ræðu. En nál. hefði átt að prenta til gagns fyrir þm. Annars vil ég benda þessum hv. þm. á, að öllum þm. leiðist að hlusta á hann. Hann er ættaður úr Bárðardalnum eins og hv. þm. S.-Þ., og er samflokksmaður hv. þm. G.-K., sem hatar hv. þm. S.-Þ. Þrátt fyrir það veit ég ekki til þess, að hann hafi þorað að ráðast opinberlega á hv. þm. S.-Þ. Ekki veit ég, hvort það er gömul bræðralagshugmynd, sem eimir eftir. Ég tel, að heppilegra hefði verið fyrir þennan hv. þm. að sleppa ekki höfuðpaur Framsfl., þegar hann ræðst á okkur hina framsóknarmennina.

Hann hefir víst ekki lengur þessi hv. þm. ráð á neinu blaði. Sjálfstfl. hefir notað hann til þess, en er orðinn þreyttur á honum. Ég hefi heyrt sagt, að hann hafi fengið 600 kr. fyrir 9 mán. undanfarið við blaðastarf. Ég met það starf náttúrlega ekki meira, en hygg að hann hafi verið í þörf fyrir þær tekjur til að framfleyta lífinu. Ég verð því að gefa hv. þm. sama ráð og hv. þm. Ak., þó ekki sé af sömu ástæðu og ég meti hv. þm. Ak. talsvert meir, sem mann, þá verð ég að ráðleggja honum að fara ekki lengra út í deilur á þeim hála ís, sem hann hefir gengið, með því að gefa Mbl. falskar upplýsingar um nefndarstörf hér í þinginu. Því hann er með því búinn að skapa sér fyrirlitningu allra góðra manna, með því að gera þessa lýðskrumstilraun, sem er sú stærsta, er gerð hefir verið hér á landi. Mér þykir ánægjulegt, vegna þess að ég er framsóknarmaður, að það skyldu vera 2 sjálfstæðismenn, sem stóðu fyrir þessu lýðskrumi, en einkum þó að það skyldi vera hv. 6. þm. Reykv. Mér þykir leiðinlegra, að hinn skyldi vera hv. þm. Vestm., því ég met hann töluvert mikils. Vil ég því kenna hv. 6. þm. Reykv. algerlega um þessar hrapallegu heimskulegu aðfarir. Þeir þurfa ekki að halda það, hversu lengi sem þeir halda áfram, að þeir geti þvegið af sér þennan smánarblett, sem þeir eru búnir að setja á sig, með því að ætla að gera þetta mál að kosningabombu, að við tveir sjútvnm., sem ekki höfðum séð frv., skyldum ekki vilja gerast meðflm. Það vill nú svo einkennilega til, að ég hefi átt einkaviðtöl við hv. 6. þm. Reykv., og hann hefir játað það — hann var einstaklega bljúgur þá —, að hann hafi sagt Mbl., að till. hafi verið borin upp á nefndarfundi og felld. Þessi hv. þm. er heimskur, en þó ekki heimskari en gerist og gengur; hann vissi því, að þetta var ekki nema hálfur sannleikur. Hann bar fram falsrök, gaf blaðinu falskar upplýsingar. Ég þekki a. m. k. annan ritstjóra þessa blaðs það vel, að ég veit, að hann hefði ekki birt málið eins og hann gerði, ef hann hefði vitað sannleikann.

Hv. þm. Vestm. var yfirleitt hógvær í minn garð, en ég skal taka það fram, að mér leiddust þau hrósyrði, sem hann lét falla í minn garð, og ég skildi þau ekki almennilega. Ég hefi e. t. v. ekki átt þau skilið, en mér þykir óviðfelldið, þegar andstæðingar mínir viðhafa þau orð eins og ég sé tilbúinn svikari við minn flokk, sem þurfi að ánetja. Ég held, að ég verði því að afbiðja mér slíkt orðbragð eða slík hrósyrði, þó svo að ég eigi þau kannske skilið. Hann sagði, að hv. 3. landsk. hefði játað í gær, að talað hefði verið um þetta mál í Alþfl. Ég skal ekkert um það segja; ég veit, að hv. 3. landsk. og hæstv. atvmrh. geta sagt um, hvort svo er. En hitt er mér óhætt að fullyrða, sem form. sjútvn. getur vottað og hæstv. atvmrh. líka, að þetta frv. hafði aldrei komið fyrir sjónir mínar fyrr en 31. okt., er því var útbýtt hér í deildinni og hin fræga atkvgr. í sjútvn. var afstaðin. Mér þótti leiðinlegt, að hv. þm. Vestm. skyldi efast um, hvort ég hefði séð frv. eða ekki, en ég get lagt eið út á, að ég sá það ekki fyrr en það var borið fram. Ég verð að segja það, að þessi aðferð mþn.mannanna í sjútv.málum var alveg sérstaklega áberandi lýðskrum, gert í því skyni að skaða Framsókn og Alþfl. En ég skal taka það fram enn einu sinni, að þrátt fyrir þessa óheyrilega heimskulegu framkomu og ódrengskap, sem þeir hafa sýnt bæði mér og meðnm. mínum, mun ég ekki láta það í neinu hafa áhrif á aðstöðu sína í þessu máli; ég mun fylgja því að svo miklu leyti, sem mér er unnt.

Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég hefi áður sagt, að það sé eins mikil nauðsyn að hjálpa sjútv. og landbún., og full ástæða sé til að koma sjútv. á réttan kjöl, þó sú hjálp veri ekki eins aðkallandi og til landb., vegna þess gífurlega verðfalls, sem varð á landbúnaðarafurðunum. Ég mun því, þrátt fyrir undirferlislega framkomu sjálfstæðismanna í sjútvn., líta hlutdrægnislaust á þessi mál, og fylgja þeim svo langt sem fært er og til gagns fyrir almenning í landinu, en ég mun aldrei fylgja því út fyrir takmörk þau, sem ríkinu er fært. Hv. þm. Vestm. sagði, að ég hefði snúizt illa við brtt. hv. þm. Ísaf. og verið á móti till. hans. Ég skal játa það, og ég býst við, að hv. þm. Ísaf. játi það líka, að það var eingöngu fyrir mitt tilstilli, að till. kom til atkv. í n., og ég gerði það bara af þeim ástæðum, að ég vildi sjá, hve langt þessir hv. meðnm. vildu ganga í ósómanum. Jafnframt skal ég taka fram, að ég svara ekki fyrir hv. þm. Ísaf., dettur það ekki í hug, en ég svara fyrir mig sérstaklega, og ég held, að mér sé óhætt að svara fyrir hv. 3. landsk., að hann hafði ekki séð frv. Form. sjútvn., hv. þm. Ísaf., getur svarað fyrir sig, hvers vegna hann var ekki tilbúinn að greiða atkv. Ég skal taka það fram, að mér þykir eðlilegt, að hv. þm. Ísaf. sýndi mér og hv. 3. landsk. það loyalitet, að greiða ekki atkv., þar sem hann vissi, að við höfðum ekki séð frv. Að lokum þetta, sem er höfuðatriðið og hver einasti þm., sem ekki er algerlega skyni skroppinn, hlýtur að skilja, að hér var um lýðskrumstilraun að ræða, og ekkert annað, og það skal ég upplýsa fyrir þjóðinni, svo hún geti kveðið upp sinn dóm. Ég skal taka fram, að mér þykir leiðinlegt, að hv. þm. Vestm. hefir verið með að leika þennan stærsta loddaraleik, sem leikinn hefir verið í íslenzkum stjórnmálum.