08.11.1934
Neðri deild: 31. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í C-deild Alþingistíðinda. (4124)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Páll Þorbjörnsson:

Í ræðum hv. þm. Vestm. og hv. 6. þm. Reykv. hefir það komið berlega í ljós, að það er af þeim talið algert aukaatriði, hvort sjávarútvegsnefndarmenn, eða þeir, sem urðu flm. þessa frv., höfðu lesið það áður en þeir gerðust flm. þess. Hv. sjálfstæðismenn, sem fluttu frv., máttu láta sér nægja það, að valinkunnir menn höfðu samið frv., og því var sjálfsagt, að þeir flyttu það. Þetta kemur berlega í ljós, þar sem hv. þm. Ak. flytur brtt. við annað frv. 30. okt. um að verja 1/3 af útflutningsgjaldinu til strandgæzluskipanna, en 31. okt. gerist hann svo meðflm. að frv. um skuldaskilasjóð, þar sem lagt er til, að allt útflutningsgjaldið renni í þann sjóð. Af þessu kemur greinilega í ljós, að það er talið aukaatriði í Sjálfstfl., hvort flm. lesa þetta frv. áður en þeir gerast flm. þess eða ekki. Út frá þessu verður það ekkert undarleg krafa, sem gerð var til mín og hv. þm. Barð., að við tækjum að okkur að flytja frv., þó við hefðum ekki haft tækifæri til að kynna okkur efni þess. Hv. þm. Vestm. hélt því fram um Alþfl., að hann hefði fyllilega tekið afstöðu gegn frv. (JJós: Hv. þm. Ísaf. var núna einmitt að lýsa þessari afstöðul. Það var engin afstað, til málsins, heldur til meðferðar á því. Hv. þm. Vestm. sagði, að ég sveiflaðist fram og aftur í málinu af ótta ýmist við ríkisstj. eða skulduga útvegsmenn. Það er skiljanlegt, að hv. þm. Vestm. talar um ótta og skoðunaskipti í sambandi við sjávarútvegsmál. Það munu vera fá dæmi þess, að nokkur þm. hafi á þingi leikið annan eins skollaleik í máli og þessi hv. þm. gerði í sambandi við norsku samningana, þar sem hann talaði alltaf á móti þeim, en greiddi svo atkv. með þeim að síðustu. Það er því ekki að undra, þó hann tali um skoðanasveiflur og ótta.

Það hefir nú verið greinilega rakið, hvernig farið hefir verið með þetta frv., og lýst þeim ósanngjörnu kröfum, sem til okkar hafa verið gerðar. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til að tala um það frekar að sinni, en eins og við höfum tekið fram. Alþfl.menn, erum við staðráðnir í því að fylgja frv. svo vel sem hægt er. Strax þegar heildarskýrslur koma fram í málinu frá mþ., munum við taka til athugunar, hvort ekki er hægt að taka út úr þann hluta útgerðarinnar, sem mesta þörf hefir fyrir hjálp, og hvernig hægt er að greiða götu hans.