12.12.1934
Neðri deild: 57. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í C-deild Alþingistíðinda. (4148)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Það er komið á annan mánuð síðan þetta mál kom til sjútvn. Það mun ekki talið neitt smámál. enda hefir þurft langan tíma til að melta það í n. Ég þarf ekki að endurtaka mikið af því, sem undan er gengið, en ég tel þó rétt að rifja það upp í stórum dráttum, af því að meðferð þessa máls mun lengi verð, fræg í sögu Alþ. Ég veit ekki um hliðstætt dæmi, og vænti, að það muni ekki finnast.

Eins og öllum er kunnugt, var svo, að þegar atvinnuvegirnir voru komnir í þá niðurníðslu, að Alþ. þótti ekki mega svo búið standa án þess að það gerði ráðstafanir til viðreisnar þeim, þá var það, að samþ. var að skipa nefnd til rannsóknar á landbúnaði landsmanna. Sú nefnd skilaði áliti, og varð samkomulag um það, að ríkið fórnaði 11 millj. kr. til þess að tryggja þann þátt í þeim atvinnuvegi, sem almennt er kölluð efnahagshliðin, eða m. ö. o. að gera skuldaskil hjá þeim, sem stunda búskap sem aðalatvinnu. Allir vita að sá arður, sem landbúnaðurinn aflar til lífsviðurværis þjóðarinnar eða til opinberra þarfa, er ekki nema 1/7 eða 1/7 af því, sem úr sjónum kemur. Það var því ekki undarlegt, þó því væri hreyft þá, að framtíð landsins og ríkisins veri ekki síður undir því komin, að athugað væri, hvort sjávarútvegurinn hefði þá undirstöðu, sem nauðsynlegt væri. Það var engin ástæða til að halda, að hið illa árferði hefði gengið framhjá þeim atvinnurekstri, og ekki heldur ástæða til að halda, að hagur þjóðarinnar gæti værið óbreyttur, þó hryndi undan 7% hlutum af atvinnurekstri þjóðarinnar, ef tryggt væri, að hluti stæði. En þó var ekki tekið vel í það í bili, að koma þeim atvinnuvegi til hjálpar. Því var borið við, að málið væri ekki rannsakað. En það var ekki farið fram á, að frestað væri viðreisn landbúnaðarins. heldur að þessar tvær atvinnugreinar væru látnar fylgjast að. Allir þm. virtust sammála um, að látin væri fara fram rannsókn á hag sjávarútvegsins eins og landbúnaðarins. Það kom engin rödd fram um það, að Alþ. skyldi sjálft skipa fyrir um það, hverjir framkvæmdu þá rannsókn, heldur var ríkisstj. látin sjá um það. Rannsókn þessi hefir nú farið fram. Um það má auðvitað deila, hve áreiðanleg hún er, en það var ekki deilt um það, þegar rannsókn hafði farið fram á landbúnaðinum, hvort sú rannsókn væri nægilega ljós eða rétt, að fært þætti að koma þeirri atvinnugrein til hjálpar. En nú heyri ég, að fram koma raddir um það, að það sé ekki unnt að koma sjávarútveginum til hjálpar, af því að rannsóknin sé ekki nógu greinagóð. Þessar raddir fara að vísu ekki hátt, en þær koma fram í nál. meiri hl. sjútvn., sem ég fékk í hendur rétt áðan, en ég veit ekki, hvort allir eru búnir að lesa það, því ég hefi aðeins getað hlaupið gegnum það einu sinni. En það þarf ekki ýtarlegan lestur til að sannfæra sig um það, að heili þess, sem skrifaði það, hafi ekki verið í sem æskilegustum skorðum, og innrætið hefir ekki svikið frá því, sem ég áður þekkti það þar. Ég ætla að geyma þangað till síðar í ræðu minni að taka til athugunar, hverjum aðferðum var beitt til þess að fá þessa rannsókn, og á hve traustum grundvelli hún er byggð, en þetta er vefengt í nál. meiri hl.

Ég vil þá taka upp þráðinn þar, sem ég gekk frá honum. — Þegar Alþingi hafði afráðið að láta þessa rannsókn fara fram, skipaði stj. þriggja manna nefnd til þess að framkvæma þetta. Ég skal játa það, að mér þótti miður, að stj. skyldi sjálf skipa n., ekki af því, að hún gæti ekki skipað jafngóða menn, heldur af hinu, að þm. hefðu kannske fundið sig meira bundna af gerðum nefndarinnar, ef þeir hefðu valið mennina, en um það þýðir ekki að sakast, en deilan er þá um það, hvernig verk n. er unnið.

N. skilaði áliti í október, en nál. kom ekki út fyrr en liðið var fram á þing. Menn verða að hafa það í huga, að n. starfaði ekki fyrir þingið, heldur stj., og nm. fóru þegar til ráðh. um mánaðamótin ágúst og september, mánuði áður en þing átti að koma saman, til að spyrjast fyrir um það, hvenær hún mætti í síðasta lagi skila frv. til stj. til þess að stj. gæti gert það að sínu frv. Hún fékk þau svör, að það lægi ekki á, sökum þess, að stj. mundi ekki beint flytja frv., heldur fela það sjútvn. þingsins. Í september kynnti n. atvmrh. till. sínar, færði honum og uppkast að þessu frv., sem hér liggur fyrir. Það var a. m. k. hálfum mánuði áður en þing átti að koma saman. Síðan færði n. stj. 10. okt. aðalfrv., sem hún hafði samið, og þar með fylgdi grg., og þegar verið er að tala um það, að skýrsla sú, er frv. er byggt á, hafi ekki komið fyrr en löngu seinna, þá vil ég benda á það, að í grg., sem frv. fylgdi, eru tekin upp þau höfuðatriði, sem þessar till. eru byggður á, og þeir menn, sem hefðu viljað hafa fyrir því að lesa greinargerðina, hefðu getað fengið þar aðalupplýsingarnar, en það hefir gengið tregt að fá hv. þm. til að lesa frv. og grg., en það stafar af því, að það er hér andúð gegn þessu máli, og hún hefir ekki sízt komið fram í því, að hv. form. sjútvn., eftir að haf. lesið það yfir, greiddi atkv. á móti því, að Fiskifélag Íslands léti í ljós vilja sinn með þessari viðréttingu sjávarútvegsins. Hann gerði þar þá grein fyrir því, að hann væri ekki búinn að kynna sér málið, en hann gat þó greitt atkv. á móti því án þess að vera búinn að kynna sér, hvort það væri rétt eða rangt. Það sýnir, að hann var fyrirfram ákveðinn til andstöðu við málið, eins og glögglega kom fram síðar. Þannig hefir afstaða flestallra stjórnarsinna í d. verið til þessa máls. Þeir hafa ekki fengizt til að kynna sér málið, en þeir hafa verið flestir við því búnir að vera á móti því án þess að kynna sér það. Mér liggur því við að kalla það hræsnisfullar yfirlýsingar, sem þessir menn hafa verið með, þegar þeir hafa verið að skýra frá velvilja sínum til þessu máls, jafnframt því sem þeir hafa reynt að gera allt málinu til tjóns og tafar. Ég ætla, að viljinn sýni sig bezt í því, að málið ætlaði aldrei að fást hér til 1. umr., og þegar það kom, þá mætti það fáheyrðum árásum og fádæma persónulegum skömmum í garð flm. frv., sem ég veit ekki til, að gæti stafað af öðru en óvild til málsins, sem síðan lenti á flm.

Ég skal þá ekki dvelja lengur við forsögu málsins, en það er fyrst 10. nóv., sem málinu fæst fyrst vísað til n., þ. e. a. s. að þá er 1. umr. um garð gengin í fyrri d. Nú vita allir, hvað áliðið er tímans, kominn 12. des., svo að það er meira en mánuður liðinn síðan málið fór til n. En svo að ég segi sögu málsins í sjútvn., þá var málið þar ekki tekið fyrir fyrr en 16. nóv. Þá var ákveðið, að n. skyldi fá umsögn bankanna um málið. Það var þó ekki gert strax, ég held þó eftir tvo daga, en það mun ekki hafa verið seinna en 18. f. m., sem bönkunum var skrifað. Ég kem að því síðar, að það tafði málið mikið, að geta ekki áttað sig á þessum svörum fyrr en nú fyrir tveimur dögum síðan, því að svarið frá Landsbankanum kom ekki fyrr en 6. des. og frá Útvegsbankanum 7. des., en minni hl. hefir ekki fengið að sjá þau fyrr en nú í dag.

Þegar eftir það, að búið var að skrifa bönkunum, var samþ., að fyrst og fremst skyldi rannsaka, hve mikillar hjálpar togaraflotinn mundi þurfa að beiðast samkv. frv., ef skuldaskil yrðu, og í öðru lagi að fá það uppgefið hjá hæstv. fjmrh., hve mikilla tekna mætti vænta af þeim tekjuaukafrv., sem lögð hafa verið fyrir þingið af stj. eða að tilhlutun hennar. Minni hl. n. hefir athugað þetta, eftir því sem hægt var, og fjmrh. mætti á fundi hjá n., til þess að gefa sína skýrslu. Mér þykir það mjög miður, að hæstv. fjmrh. er ekki við, því að ég þarf einmitt að minnast á þessa skýrslu hans. En að beðið var um þess, skýrslu, stafar af því, að það kom fram, að meiri hl. n. mundi þunglega á móti togaraflotanum, en gæti komið til mála, að hann yrði með einhverri leiðréttingu á málefnum smærri flotans, ef stærri flotinn væri undanskilinn; en að óskað var eftir skýrslu fjmrh. um hitt atriðið, stafar af því, að það hefir mikið verið fært fram þessu máli til foráttu við 1. umr., að milliþn. hefði ekki gert ráðstafanir til að afla fjár í ríkissjóð í stað þess fjár, sem ríkissjóður mundi missa, ef útgerðin fengi sjálf að nota útflutningsgjaldið um ákveðið árabil. Ég þarf ekki að skýra frá því, hvaða upphæð það var, sem okkur sýndist, að togaraflotinn þyrfti að fá, ef skuldaskil yrðu, en það er mikill minni hluti af því, sem þyrfti fram að leggja eftir þeirri athugun, sem gerð hefir verið. En skýrsla hæstv. fjmrh. var í stuttu máli sagt, að sá tekjuauki, sem vænta mætti af tekjuöflunarfrv., væri þessi: Tekju- og eignarskattur, miðað við þann viðauka, sem áður hefir verið, 40%, um 300000 kr., en annars 850000 kr., ef miðað er við skattinn eins og hann er nú samkv. 1., af tollbreytingum 400000, af einkasölum 200000. Þessar upphæðir, sem mundu vera um 900000 kr., ef tekið er tillit til gengisviðaukans, 40%, sem ég hygg, að sé 450000 kr., þá er þetta upphæð, sem nær ekki nokkurri átt, ef nokkuð gengur fram af tekjuöflunarfrv. Það er næstum því, að það taki engu tali að ræða þetta, það er svo bersýnileg fjarstæða. En við minnihl.menn fórum fram á að fá áætlun um þetta, af því að því hafði áður verið marglýst yfir af flm. frv., að Sjálfstfl. væri reiðubúinn til að styðja tekjuöflunarfrv., sem fram kæmu til að bæta upp þann tekjumissi, sem ríkissjóður yrði fyrir vegna þessa frv., að svo miklu leyti, sem frv. stj., er samþykki væri tryggt, nægðu ekki til að mæta því tekjutapi.

Eftir þetta var ákveðið að eiga fund með bankastjórum Útvegsbankans og Landsbankans og ríkisstj. í heild, og það var tilkynnt þann 24. f. m., að fundur væri ákveðinn laugardaginn. Á þeim fundi var tilnefnd 3 manna nefnd, Magnús Sigurðsson bankastjóri, Haraldur Guðmundsson ráðherra, og svo áttum við úr n. að nefna til einhvern mann, en það varð úr, að þrír mættu, hv. þm. Ísaf., hv. þm. Vestm. og ég. Á öllum þessum fundum var rætt um málið, aftur fram, en ég verð að segja, að það var líkt því, sem þar væru kettir að fara í kringum heitan soðpott. Þar var lítið sagt ákveðið, og leit út fyrir, að þar væri hver og einn hræddur við skuggann sinn, og kannske hver við annan, en ekki get ég annað sagt en að erfitt væri að fá þar ákveðna umsögn. Enginn mælti þó á móti því, að sjávarútvegurinn væri hjálparþurfi, og enginn mælti á móti því, að hann væri hjálparverður, en leiðirnar til þess voru ákaflega lauslega ræddar. Og af því að engin ákvörðun var tekin og þessir fimm menn gátu ekki komið sér saman um neina till., þá vorum við flm. frv. í nokkrum vafa um það, hver árangurinn mundi verða, og áttum tal um það við hv. form. sjútvn., hvort vonlaust væri um samkomulag, svo að við ættum að gefa strax út nál. Hann lofaði þá að kalla saman aukafund í n. næsta föstudag. En þegar til kom, var ekki hægt að ná nm. saman á hann, svo að ekkert varð af honum. Næsta dag átti svo að vera reglulegur fundur. Við hv. þm. Vestm. mættum þar, en engir aðrir. Hv. þm. Vestm. náði þá símasambandi við hv. form. sjútvn. og spurði hann, hvers vegna hann kæmi ekki á fundinn. Hann hafði góð orð, sagðist ætla að reyna að ná í hina, hv. þm. Barð. og hv. 3. landsk. Svo hringdi hann nokkru síðar og sagði, að annar fyndist ekki, en hinn neitaði að koma. Af þessum fundi varð því ekkert, en þó lofaði hv. form. að halda aftur aukafund næsta dag kl. 11 árdegis. Þegar við hv. þm. Vestm. mættum, þá fór þar á sömu leið, að það var ekki hægt að ná í hina. Þess vegna gat ekki heldur neitt orðið af þeim fundi.

Ég ætla því, að þegar þannig hafði þrisvar sinnum misheppnazt að fá n. saman á fund, og þegar liðnir voru 23 dagar frá því að málið fór í n., að engum þurfi að koma það á óvart, þó að við sæjum ekki ástæðu til að bíða lengur eftir hinum nm., sem ýmist virtust ekki vilja muna eftir málinu eða ekki vilja sinna því.

Ég skal taka það fram, að hæstv. atvmrh., sem hafði áður spurt um það, hvort ekki mætti skipta fiskveiðaflotanum niður og taka fyrir smærri útgerðina fyrst og svo togaraútgerðina sér í lagi, hann hafði beðið okkur um athugun á því og skýrslu um það, hvað mikið fé mundi þurfa til þess að gera skuldaskil fyrir bátaútveginn allan, ef togarar og línuveiðaskip væru undanskilin. Þessa athugun gerðum við og sendum bæði hæstv. ráðh. og hv. form. sjútvn. grg. fyrir þessu, eða áætlun um þetta, eins glögga og við bezt gátum gert hana. En það bólaði ekkert á því, að þeir vildu neitt með þetta gera, en í hinu nýútkomna nál. þeirra eru teknar upp tölur, sem er áætlað, að þurfi til skuldaskila bátaútvegsins, sem sýnilega eru bláber vitleysa, svo að ég noti þau réttu orð. Þar er ekki byggt á nokkrum hlut, heldur er þessu bara skellt á pappírinn algerlega órökstuddu.

Þetta mál er þá svona komið, að við hv. þm. Vestm. höfum í 23 daga dekrað við meðnm. okkar, leitað að þeim, kallað á þá á fund, lagt upp í hendurnar á þeim allt, sem þeir hafa beðið um, og yfirleitt með öllu móti reynt að fá þá til að sinna þessu máli á einhvern hátt. Við höfum innt þá eftir, hvort þeir vildu þá ekki koma með brtt., því að við sögðum þeim það strax, að málið væri ekki svo rígskorðað í þessu formi frá okkar hendi, að við vildum ekki ræða um brtt. til samkomulags, en þeir hafa ekki heldur fengizt til þess. Og ég fyrir mitt leyti er ekki í neinum vafa um það, af hverju þetta er. Það er frá upphafi af óvild til málsins og óvild til þeirra, sem reka þennan útveg, því að þessum einstaklingsrekstri vilja þeir koma á kné. Þess vegna hafa þeir alltaf látið úr hömlum dragast og öllum brögðum beitt til að draga málið svo á langinn, að það gæti ekki fengið afgreiðslu, en mér finnst, að nokkuð hafi skort á það, að þeir hafi getað dulið þennan tilgang. Það þýðir ekkert fyrir meiri hl. að vera að halda fram öðru eins og því, að við höfum alltaf hlaupið frá þeim með þetta mál. Við höfum dekrað við þá sem unnt var, til þess að þeir létu sér ekki til minnkunar verða, og það má hver og einn meta eftir sinni greind, hvort við höfum sýnt nokkra ósanngirni eða óþolinmæði í því að liggja yfir þeim með málið þessa 23 daga eftir að það kom til nefndarinnar.

Álit okkar minnihl.manna hefir nú legið fyrir d. á 3. viku, og allan þann tíma hefir orðið að bíða eftir áliti hv. meiri hl., og ég verð að segja, að það er fágætt, að svo lengi þurfi að bíða eftir áliti frá öðrum nefndarhl. Það hefði ekki þótt sæma um mál, sem eru þó lítilfjörlegri en þetta virðist vera.

Nú liggja bæði þessi nál. fyrir, og þetta, sem ég hefi nú sagt, er vitanlega ekki nema inngangur að framsöguræðu minni, og ég veit ekki, hvort hæstv. forseti vill nú taka fyrir framhald ræðunnar þegar klukkan er nú orðin 7, en ég geri ekki ráð fyrir að geta komizt af með minna en klukkustund til að ljúka máli mínu. Vil ég því bera það undir hæstv. forseta, hvort ekki sé nú rétt að fresta framhaldi ræðu minnar. (Forseti: Það á ekki að hafa næturfund, svo að það væri gott, ef hægt væri að ljúka ræðunni af nú). Ég get ekki lokið ræðunni á skemmri tíma en ég hefi sagt. [Frh.].