14.12.1934
Neðri deild: 59. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (4167)

128. mál, Skuldaskilasjóður útgerðarmanna

Þorbergur Þorleifsson:

Þar sem saltverð á Hornafirði hefir verið dregið inn í þessar umr. og inn í nál. meiri hl., skal ég geta þess, að ég hefi aflað mér upplýsinga um verð á þessari vöru hjá framkvæmdarstjóra Kaupfélags A.-Skaftfellinga. Jóni Ívarssyni. Hann gaf mér þær upplýsingar, að kaupfélagið á Hornaf. hefði á síðustu vertíð selt salt til útgerðarmanna fyrir 47 kr. smálestina, en í nál. er sagt, að smál. hafi verið seld á 60 kr.

Hvort saltverðið á Hornafirði hefir einhverntíma verið 60 kr. smál., get ég ekkert sagt um nú, og þó að svo hafi verið, þarf það ekki að hafa stafað af því, að um neitt okur væri að ræða, heldur vegna þess, að saltið hefir á þeim tíma verið dýrara. En það vil ég og taka fram, að það er erfiðara með aðflutninga til Hornafjarðar en flestra annara hafna á landinu og uppskipun oft dýr og erfið, vegna þess að stærri skip komast ekki að bryggju, eins og ég hefi áður tekið fram hér á hv. Alþ. Þegar á allt þetta er litið, er ekki óeðlilegt, þó að vörur kynnu að vera þar í einstaka tilfellum eitthvað dýrari heldur en annarsstaðar.