15.11.1934
Neðri deild: 37. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 359 í C-deild Alþingistíðinda. (4262)

115. mál, niðurlagning prestlaunasjóðs

Jónas Guðmundsson:

Ég vil f. h. flm. frv. þakka hv. allshn. fyrir góðar undirtektir, og þó sérstaklega hv. þm. Barð., því að það er sú stétt, sem hann tilheyrir, sem hér er að bera hönd fyrir höfuð sér.

Brtt. þessara tveggja sýslumanna fer fram á það, eins og kunnugt er, að sóknarnefndir haldi áfram að innheimta þessar ríkistekjur, sem hér er um að ræða. Það hefir þegar verið upplýst af öðrum, sem hafa talað hér um þetta mál, að þessi prestlaunasjóður væri í rauninni ekkert annað en nafnið tómt. Ríkissjóður greiðir prestum þjóðkirkjunnar sín laun, hvort sem lítið eða mikið innheimtist af tekjum prestlaunasjóðs. En síðan prestlaunasjóður var stofnaður hafa sóknarnefndir haft á hendi innheimtu þessara gjalda, sem eru hluti af venjulegu sóknargjaldi. Það mælir ekkert með því, að þessi hluti af innheimtu ríkissjóðsteknanna sé falinn sérstakri nefnd, sem hefir allt annað með höndum en að sjá um launagreiðslu presta. Innheimta prestlaunasjóðsgjalda er því ekkert annað en það, að ýmsir menn úti um land eru látnir heimta inn part af tekjum ríkissjóðs. Þeir eiga síðan að skila af sér í hendur prófasta, þeir til biskups og hann að lokum til ríkissjóðs.

Það verður í alla staði heppilegra og líklegra að hægara verði að ná inn gjöldunum, ef innheimta þeirra er falin embættismönnum ríkisins, sýslumönnunum. Þess vegna er hér ekki um ranglæti í þeirra garð að ræða með þessu frv.

Allir, sem komið hafa nálægt störfum sóknarnefnda, vita, að erfitt er að ná þessum tekjum inn, og venjulega fer svo, að ekki næst nema nokkur hluti af þessum gjöldum í flestum sóknum landsins. Það verður æfinlega svo, að greiðslan til prestlaunasjóðs er látin ganga fyrir öllum öðrum greiðslum, sem þarf að inna af hendi í þessu efni.

Svo má minna á það atriði, að það virðist standa nær sóknarnefndum að reyna að sjá um, að kirkjum og kirkjugörðum sé sæmilega haldið við, svo að þjóðin þurfi ekki að skammast sín fyrir.

Það er ekki gert ráð fyrir því, að innheimtulaun af prestlaunasjóðstekjunum verði felld niður, heldur renni þau til sýslumanna eftir sem áður. Þeir fá því það, sem þeir eiga kröfu til, fyrir þessa innheimtu. Ég tel því rétt, að sýslumenn innheimti þessi gjöld eins og áður fyrir ríkissjóð. Það er ekki rétt, að þeim sé íþyngt með þessu, því að þeir eru embættismenn ríkisins og mega því búast við að þurfa að inna þessi störf af hendi fyrir ríkið. Skrifstofufé þeirra hefir verið hækkað talsvert síðustu ár, af því að þeir hafa bætt við sig störfum, sem þeir höfðu ekki áður, og fá þeir því aukna þóknun fyrir þessi störf, sem við þá bætast.

Ég hefi bæði talað við þann prófast, sem ég þekki bezt, og biskup um þessi mál. Þeir álíta báðir, að það sé bót að leggja þennan sjóð niður og innheimtu sóknarnefnda á þessum gjöldum, og að þessi gjöld innheimtist betur, ef sýslumenn annast innheimtuna.