08.12.1934
Neðri deild: 54. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í C-deild Alþingistíðinda. (4341)

20. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Frsm. minni hl. (Pétur Halldórsson) [óyfirl.]:

Það hefir nú þótt svo mikil réttarbót að þessu frv., að aðalefni þess mun verða samþ. Við minnihl.mennirnir höfum leyft okkur að bera fram örfáar brtt., og er það augljóst mál, hvað þær fara fram á. Stefna frv. er sú, að ríkið sjái um útgáfu skólabóka, en til viðbótar höfum við minnihl.mennirnir borið fram brtt. á þskj. 673. — 1. brtt. er um það, að aftan við 1. gr. bætist ný málsgrein, svo hljóðandi: „Nú býðst útgefandi til að taka að sér útgáfu löggiltrar kennslubókar, og skal boði hans frá tekið, ef hann fullnægir skilyrðum fræðslumálastjóra um frágang bókar og verð.“ — Þetta er í samræmi við það, sem við minnihl.mennirnir héldum fram við 2. umr. Það er réttmælt að leita þess fyrst, hvort útgefandi uppfyllir ekki viss skilyrði, og ef hann gerir það, að þá megi hann hafa útgáfuna með höndum. Útgáfan verður þá stundum í höndum þeirra, sem nú hafa hana, en stundum í höndum nýrra manna, því að allir, sem fullnægja vissum skilyrðum, myndu geta komið til greina. Það er sjálfsagt að hafa þetta óbundið, svo að þeir komi til greina, sem fullnægja skilyrðum þeim, sem fræðslumálastjóri setur, bæði um ytri og innri frágang bókar. Mér finnst sjálfsagt, að þetta sé í l., því það er varla vilji hv. d., að ríkið gefi út bækur, ef þess er ekki þörf. Þá er það betur komið í böndum annara en ríkisins. Það er kostnaðarauki fyrir ríkið að fást við þetta, og óþarfi, ef aðrir geta leyst það eins vel af hendi.

2. brtt. er við 3. gr. og er svo hljóðandi: „Skal útgáfustjórn jafnan leita tilboða um prentun bókar og band, og skal hagkvæmasta tilboði um þetta tekið.“ — Þetta er eðlileg og sjálfsögð krafa, og trygging fyrir því, að tekið sé hið bezta og leitazt við að fá þetta sem ódýrast. Þetta er líka til hagsbóta fyrir kaupendur, og þess er gætt að vera í samræmi við vilja þeirra, sem bera þetta mál fram. Þetta liggur svo augljóst fyrir, að ekki er þörf að fjölyrða frekar um það.

Þá er 3. brtt. við 5. gr. að á eftir orðunum „ allt að 20% af útsöluverði komi: við umboðssölu en 25% gegn greiðslu við móttöku. — Það hlýtur að vera hentugra að fá vöruna greidda við móttöku. Það eru betri kjör fyrir seljanda og gagnlegri fyrir útgáfufyrirtækið, og hvetur þá, sem skipta við fyrirtækið, til að greiða við móttöku. Þetta er því betra fyrir báða aðila.

Þá er það 4. brtt., við 7. gr., að í stað orðanna „veggmyndir og skólanauðsynjar“ komi: og veggmyndir. — Þetta orð, „skólanauðsynjar“. grípur yfir svo margt, og gæti þá t. d. tekið yfir öll ritföng. Aðalefni frv. fjallar ekki um þessa hluti. Ég vil benda á það, að hér undir fellur svo margt, og það er alveg komið undir framkvæmdinni, hvort ekki eru einokaðar allar þarfir nemenda og skólafólks. En það er ekki tilgangurinn með frumvarpinu.

5. brtt., við 8. gr., gerir nákvæmari ákvæðin um það, hvernig farið skuli að, þegar upplag bókar þrýtur, sem nú er í notkun. Hún er í samræmi við það, sem ég sagði við 2. umr. um að leita samkomulags við þá, sem gefið hafa bókina út, og fer fram á það, að útgáfustjórn leiti samkomulags við útgefanda um kaup á leifum upplags, myndamótum og öðru, er tilheyrir útgáfu bókarinnar. — Þá skuli útgáfustjórn leita leyfis útgefanda, hver sem það er, og upplýsinga, sem þarf að fá hjá honum, og þykir mér rétt, að hann fái sanngjarna greiðslu fyrir. Þetta er svipað og þegar tóbakseinkasalan tók til starfa á sínum tíma. Þá var einstaklingum gefinn kostur á að selja henni birgðir sínar. En reynslan er sú, að þó bók sé svo að kalla uppseld þá eru eftir nokkuð mörg eintök óseld. Að vísu ekki nægilega mörg til að fullnægja eftirspurninni, en sem útgefandi situr þá eftir með og nauðsynlegt er, að ríkisútgáfan kaupi, og er þá nauðsynlegt að gera samninga um eða leita samkomulags við útgefanda, og er útgáfustjórn falið að annast það og tilkynna bókaútgefanda, eins og tekið er fram í brtt. Nú er hægt að hugsa sér, að ekki náist samkomulag, og þykir þá rétt, að kaupverðið sé ákveðið eftir mati dómkvaddra manna, því einhver úrslit þarf að fá, og er þá helzt að fá 3 dómkvadda menn til að meta verðmæti þau, sem um er deilt.

Ég vona að hv. þdm. líti svo á, að þessar brtt. á þskj. 673 séu hóflegar og stefni í rétta átt, því þær eru ýmist til skýringar eða nauðsynleg afleiðing af því, sem frv. ætlast til. Skal ég svo ekki fjölyrða frekar um þetta að sinni.