10.11.1934
Neðri deild: 33. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í C-deild Alþingistíðinda. (4382)

117. mál, varnir gegn berklaveiki

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Þetta frv. fer fram á, að ríkissjóður greiði helming af því tillagi, sem sýslum og bæjarfélögum hefir verið ætlað að greiða til berklavarna, og nemur þetta 114000 kr., eins og hv. 1. flm. tók fram. Við þessu er auðvitað það sama að segja og öðrum byrðum, sem bætt er á það opinbera, að það er vitanlega takmarkað, sem hægt er að bæta á ríkissjóð, en sé samþ. að leggja á hann eitthvert gjald, þá verður um leið að sjá svo fyrir, að hægt sé að greiða það.

Nú stendur svo á, að sveitar- og bæjarfélög eru yfirleitt í miklum vandræðum með að standa í skilum með margskonar gjöld, ekki aðeins þessi, heldur og mörg önnur. Það verður því að athuga vel, hversu skipa skuli tekjustofnum sveitar- og bæjarfélaga, eins og talað hefir verið um hér á þingi. Þess vegna er aðkallandi að taka þessi mál til athugunar í heild, hvaða tekjustofna er hægt að ætla sveitar- og bæjarfélögum og hversu mikið mætti ætla, að þau gætu fengið af þeim tekjustofnum, athuga síðan í heild öll útgjöld sveitar- og bæjarfélaga, og þá verður að áætla, hvort þau geti staðið undir öllum sínum útgjöldum, og ef það er ekki, þá verður að fella niður eða færa yfir á aðra aðila, og þá mun ekki vera um annað að ræða en ríkissjóð. Mér kæmi það ekki á óvart, þó að endirinn yrði sá, að eitthvað af þessum útgjöldum yrði að færast yfir á ríkissjóð. Ég legg ríka áherzlu á það, að jafnhliða því, sem sú aðstaða kynni að fást, yrði að hugsa sér að efla ríkissjóð til þess að hann gæti staðið undir þeim gjöldum, sem þannig færðust yfir á hann.

Ég hygg, að það yrði miklu betra að leysa þetta mál með sæmilegu samkomulagi allra, ef báðar hliðar væru teknar til athugunar í einu, en láta þessar bráðabirgðatill. bíða, þangað til þær yrðu teknar til athugunar í sambandi við slíka heildarrannsókn og niðurstaða þeirrar rannsóknar lögð fram svo fljótt sem hægt væri.

Ég er því samþykkur, að þessu frv. sé vísað til allshn:, en ég legg til, að slíkar till., sem snerta þannig útgjöld eða tekjuöflun sveitar- og bæjarfélaga, séu látnar bíða með það fyrir augum, að þessi mál verði tekin til heildarathugunar og lokið svo fljótt sem tök reynast á.