09.10.1934
Neðri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í C-deild Alþingistíðinda. (4402)

24. mál, fátækralög

Bergur Jónsson [óyfirl.]:

Ég sé það á síðustu ræðu hæstv. atvmrh., að honum hafa sárnað ummæli þau, er ég hafði í fyrri ræðu minni um þau kákvinnubrögð, er hann hefir hér í frammi. Hann hyggst að kasta spjótinu til baka og segir, að ræða mín hafi verið kák. Ég vil nú leyfa mér að efast um, að svo hafi verið, fyrst hún gat komið þeim hita í hæstv. ráðh., sem raun bar vitni, nema ef ég á að skilja sem svo, að til þess þurfi ekki annað en kák að hita honum. Ráðh. vildi halda því fram, að fjárþröng sveitarfélaga snerti þetta mál ekki svo mjög, en ég verð að líta svo á, að úr fjárþröng sveitarfélaganna verði fyrst og fremst að bæta, ef unnt á að vera að hlýða fátækralögunum. Ég verð því enn að halda því fram, að breyt. þær, er felast í frv., séu algert kák, þar sem með því er á engan hátt bætt úr þröng sveitarfélaganna, þau jafnilla stödd eftir sem áður. Úr því ræða mín hefir haft þessi áhrif á hæstv. ráðh., að koma í hann skapi, svo hann er ekki frá því að fylgja brtt., er vonandi, að eitthvað verði bætt um það kák, sem frv. nú er. En undarlegt verður það að teljast, að fyrsti maður, sem sæti á í landsstjórn úr Alþfl., sem lagt hefir svo mikla áherzlu á að breyta fátækralöggjöfinni, skuli byrja með lögum, sem eru ekkert annað en kák. Hæstv. ráðh. byrjar því endurbótastarf sitt á Alþingi með kákbreytingum einum, sem engum mega að gagni verða. Það var nfl. áður búið að breyta lögunum um fátækraflutning þannig, að hann er svo að segja úr sögunni, og tel ég það sízt illa farið.

Þá sagði hæstv. ráðh., að orð þau, sem ég hefi látið falla hér í d. um þetta mál, væru gaspur eitt, og vildi jafnframt leggja þann skilning í þau, að ég væri andvígur afnámi sveitarflutningsins, en þetta er hreinasti misskilningur eða útúrsnúningur, þar sem ég tók það einmitt fram, að hann væri að vonum mjög illa séður, þar sem hann væri framkvæmdur með harðýðgi og tilfinningaleysi. Annars finnst mér, að hæstv. ráðh. ætti sem minnst að tala um gaspur, ekki aðeins vegna sín sjálfs, heldur og sakir flokksbræðra sinna, sem ekki geta talizt saklausir af því að gaspra hér á Alþingi. Því að engir menn hafa gert fleiri góð mál að gaspursmálum en einmitt þeir. Þetta veit hæstv. ráðh. eins vel og ég, og jafnframt það, að þau eru mörg góðu málin, sem spillt hefir verið hér á Alþingi með gaspri og heimsku. Það, sem ég lagði aðaláherzluna á í ræðu minni, var, að það væru minnst áberandi gallarnir á fátækralöggjöfinni, sem hér ætti að breyta. Aðalástæðan fyrir því, að hæstv. ráðh. rann svo mjög í skap sem raun varð á, var því sú, að hann fann sannleika þessarar staðhæfingar minnar. Hann sá, að hann hafði hlaupið á sig með því að bera fram svona, nauðalítið og lélegt frv. í einu aðalmáli sósíalista, mál, sem þeir hafa gasprað um í fleiri ár.