13.10.1934
Neðri deild: 9. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 279 í C-deild Alþingistíðinda. (4461)

59. mál, fiskiráð

Flm. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Ég ætla að leyfa mér að gera ráð fyrir, að allir hv. þdm. hafi lesið grg. þessa frv., og þar af leiðandi tel ég ekki ástæðu til að halda um það langa framsöguræðu. Í grg. er dregin upp mynd af þeim voða, sem þjóðinni er nú búinn af innflutningshaftastefnu nágrannaþjóðanna. Afleiðingarnar af því koma greinilegast fram í því, að ef Íslendingar framleiða framvegis sama fiskmagn og að undanförnu og ef innflutningur íslenzks fiskjar til viðskiptalandanna verður enn skertur, eins og sterkar líkur eru til, og þó ekki meira en gert er ráð fyrir í grg., þá verða afleiðingarnar þær, að í árslok 1935 liggur hér á Íslandi svo mikið af óseldum fiski, að það svarar til þess fiskimagns, sem Íslendingar geta selt til útlanda allt árið 1936. Af því mundi leiða það, að ef sá fiskur gæti haldið sér að gæðum, væri óþarft að gera út nokkru íslenzka fleytu í von um að aflinn gæti selzt. Þetta eru svo geigvænlegar horfur, að það getur engum blandazt hugur um, að það er bein þjóðarnauðsyn að hefjast handa og reyna að draga úr því, að af þessu hljótist hrein þjóðarvandræði. Í frv. mínu eru því nokkrar till., sem miða að því að bæta úr þessu ástandi. Mér er það fyllilega ljóst, að ýmsar þessar till. hafa áður verið ræddur manna á milli og eru að því leyti ekki nýjar. Það er nfl. gamla sagan, að menn hafa í þessu tilfelli sem svo mörgum öðrum séð hættuna, bollalagt um málin, án þess þó að hefjast handa til bjargar fyrr en voðinn er skollinn á. Frv. fer fram á, að skipuð sé forusta í þessari varnar- og viðreisnarbaráttu þjóðarinnar, og það er reynt að tryggja, að þessi forusta sé sem öruggust, og til þess að svo megi verða er tvennt nauðsynlegt. Fyrst það, að til hennar veljist menn, sem hafi þekkingu á þessum viðfangsefnum, og í öðru lagi, að þekkingin fái nægilegu útrás í framkvæmdum. Er þess því vænzt, að þeir aðilar, sem velja eiga fiskiráðið, bregðist ekki því trausti, sem til þeirra er borið, að þeir láti þekkinguna ráða um mannvalið. Verði það, hygg ég, að með frv. sé tryggð annarsvegar þekkingin, en hinsvegar framkvæmdin, sem nauðsynin krefur vegna úrlausnar þessara mála. Till. frv. eru að vísu fyrst og fremst miðaðar við þörf augnabliksins, en eigi að síður er líklegt, að þær megi verða að gagni fyrir framtíðina, og yfirleitt hygg ég, að komist fiskiráðið á, mundi það sanna ágæti sitt sjálft æ betur eftir því sem tímar líða og það starfar lengur.

Ég hefi heyrt þeim andmælum hreyft gegn fiskiráðinu, að það muni skorta vald og fjárhagslegu aðstöðu til þess að geta framkvæmt það, sem því er ætlað að vinna. Þetta held ég, að sé á misskilningi byggt. Ég tel þvert á móti ekki hyggilegt að tryggja því meiri völd en frv. gerir ráð fyrir að það fái, a. m. k. ekki á þessu stigi málsins. Það er meira virði, að það eigi stoð í lífinu en lagafyrirmælum, og hana mun það fljótlega öðlast, því að það mun búa yfir nauðsynlegri þekkingu til þess að koma í framkvæmd þeim nauðsynjamálum, sem það á að annast. Að tryggja því frekari völd en gert er hér í till. tel ég og ekki hættulaust með öllu, t. d. með einkasöluheimild eða því líku. Það gæti orðið til þess að draga úr vinsældum þess og áhrifum þegar í öndverðu. Verði reynslan aftur sú, að nauðsyn krefji frekari lagafyrirmæla, þá gerir fiskiráðið að sjálfsögðu till. um þau til stj., og svo mikið má segja um núv. stj., hvað sem öðru líður, að hún er ekki hrædd við að setja bráðabirgðalög, og myndi í því efni verða gott að leita til hennar.

Annars er sá mikli munur að framkvæma það, sem gera þarf nauðsynlega í þessum málum, eftir till. fiskiráðsins heldur en lögbinda það strax, að það myndi verða vinsælla heldur en fara þegar að gera þvingunarráðstafanir, sem ekki ættu stoð í þörfinni.

Sé ég svo ekki ástæðu til þess að fara öllu fleiri orðum um frv. þetta nú, en leyfi mér að bera fram þá ósk, að því verði flýtt gegnum þingið, eftir því sem föng standa til.