13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 291 í C-deild Alþingistíðinda. (4492)

59. mál, fiskiráð

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Ég vil benda á það, að hv. frsm. minni hl. og hv. þm. G.-K. hafa leyft sér að draga hér inn í umr. frv., sem þeir hafa fengið að sjá, en ekki er komið fram ennþá, í þeim tilgangi að læða inn hjá hv. þdm. ýmsum ósannindum um þetta frv. Að þessu athuguðu verður skiljanlegt, að þeir vildu ekki bíða með umr. um fiskiráðið þangað til frv. þetta væri komið fram.

Hv. frsm. minni hl. sagði, að umbótamálum sjávarútvegsins hefði verið tekið fjandsamlega hér í d.. Ég hefi í sambandi við annað mál sýnt fram á það, með hvaða hætti sjálfstfl. lætur sér sæma að ræða þessi mál, og skal því ekki fara út í þá sálma hér. Hv. þm. sagði, að ég hefði sagt, að vandræði sjávarútvegsins stöfuðu eingöngu af vöntun á skipulagi. En ég komst svo að orði, að þessi vandræði sjávarútvegsins stöfuðu af vöntun á skipulagi, auk þess sem þau væru sprottin af markaðsþröng og heimskreppu. Og ég ætla, að hv. frsm. minni hl. hafi sannfærzt um það við starf sitt í mþn. í sjávarútvegsmálum, að útgerðin þurfi m. a. að fá allan verzlunararð af þeim vörum, sem hún flytur út og inn, hvort sem hv. frsm. minni hl. hefir þrek og djörfung til að standa nú við þetta eða ekki. Þó virðist sem hann hafi nú viðurkennt þetta, því að frv. mþn. bendir í þá átt, þar sem gert er ráð fyrir stofnun rekstrarlánafélaga, sem hafi sambandi því skyni, að útgerðin fái notið verzlunararðs af þeim vörum, sem hún flytur inn og út.

Það, sem ég átti við með skipulagsleysi á útgerðinni, var m. a. þetta, að hún nýtur ekki sjálf verzlunararðs af vörum sínum, þótt nefna mætti margt annað, svo sem það að senda í einu á ísfiskveiðar miklu fleiri togara en rúm er fyrir á markaðinum. Ég þykist vita, að hv. frsm. minni hl. sé þetta ljóst, þótt ég efist um, að hann hafi djörfung til að viðurkenna það opinberlega. Þetta þrekleysi hv. þm. stafar auðvituð af því, að hann er á mála hjá kaupmönnum, sem hingað til hafa hirt þann verzlunararð, sem mþn. í sjávarútvegsmálum leggur nú til, að gangi til útgerðarinnar, þó þær till. séu ekki ýkja viðtækar.

Ég gat þess áðan, að hv. frsm. minni hl. og hv. þm. G.-K. hefðu reynt að læða inn hjá hv. þdm. andúð til væntanlegs frv. um fiskimálanefnd, með ósönnum staðhæfingum. Hv. frsm. minni hl. sagði, að með frv. ætti að ýta þeim frá sjávarútvegsmálunum, sem hingað til hefðu haft þau með höndum, og leggja öll afskipti af þeim málum undir ríkisvaldið. Ég býst við, að hv. þdm. sjái, hve ósatt þetta er, þegar frv. kemur fram.

Hv. frsm. minni hl. sagði ennfremur, að eftir frv. um fiskiráð ætti að leita að nýjum markaðslöndum. Þarna kemur skýr munur fram. Sjálfstæðismenn tala ekki um annað í þessum málum en að „leita fyrir sér“ og „athuga“. Við í meiri hl. sjútvn. leggjum áherzlu á, að eitthvað verði gert. Meiri hl. sjútvn. og sjómönnum er það ljóst, að það nægir ekki að hafa athugað till. um þetta mál, það þarf að gera eitthvað, og það þolir enga bið, að þegar sé hafizt handa um framkvæmdir í þessu máli. Þarna skilja leiðir milli flokka. Sjálfstfl. vill athuga og gera till. um þessi mál meðan allt er að sökkva, en stjórnarflokkarnir, sem standa að frv. um útflutning og sölu á síld og fiski, er verður lagt fram hér í þinginu í dag eða á morgun, vilja láta gera þegar í stað nauðsynlegar framkvæmdir, til þess að reyna að bæta úr þeim örðugleikum, sem að sjávarútveginum steðja.

Það er svo sem ekki að það þurfi að reyna að gera útgerðarmönnum ljóst, að nauðsynlegt sé að byrja á að flytja út hraðfrystan fisk, og það þarf ekki að kenna þeim, að hægt sé að herða fisk; það er aldagömul verkunaraðferð hér á Íslandi. Öllum þeim, sem eitthvað fást við útflutning á fiski, er það ljóst, að Norðmenn herða mjög mikið af sinni fiskframleiðslu og selja með góðum árangri. En hver er þá ástæðan fyrir því, að útvegsmenn hafa ekki lagt út í að gera tilraunir með þetta? Ástæðan er fyrst og fremst sú, að þeir hafa getað selt fiskinn með þeirri verkunuraðferð, sem lengst hefir tíðkazt hér á landi. Þegar svona erfiðleikarnir koma, þarf að gera, útvegsmönnum það ljóst, að hægt er að selja fisk verkaðan á annan hátt heldur en saltfisk, sem nú tíðkast, það þarf að hefjast handa með að tryggja það, að þeir menn, sem út í þetta leggja, verði ekki fyrir skakkaföllum af því að þeir leggja út á nýjar brautir með verkunaraðferðir á íslenzkum fiski.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara út í þetta miklu frekar. Það er ekki okkar álit að koma fram með ráð til þess að pína útgerðarmenn út í eitthvert öngþveiti, en það skortir framkvæmdarvald til þess að innleiða, nýjar verkunaraðferðir þegar í stað þannig að allmikill hluti af fiskinum verði verkaður á annan hátt heldur en hingað til hefir tíðkazt.

Hv. 6. þm. Reykv. kvartaði undan því, að ég og meðnm. mínir í sjútvn. hefðum verið bersöglir, þrátt fyrir að þetta frv. er flutt af einum mesta fiskverzlunarmanninum á landinu, sem hann svo nefndi. Ég verð að segja það, að ég segi um þau frv., sem ég á að gefa álit um, hvað sem mér sýnist, frá hverjum sem þau eru komin. Ég skoða fyrst og fremst, hvernig frv. munu verka, ef þau komast í framkvæmd en ekki hver er flm. þeirra. Eins og ég tók fram í framsöguræðu minni, þá hefði átt að gera sérstaka kröfu um vandvirkni á flutningi þessa máls, af hendi hv. flm., af því að þeir halda fram, að þetta sé nauðsynjamál og það sé bjargráðamál fyrir sjávarútveginn. Af þeim ástæðum, að ég álít, að þetta hafi ekki verið gert, hefi ég vítt, hvernig frv. er samið og álít, að það nái ekki tilgangi sínum. Út af þessu frv. hefir mér alltaf dottið í hug gamla sagan eftir H. C. Andersen um nýju fötin keisarans.

Ég ætla, að ég sé búinn að svara rökum hv. 6. þm. Reykv. í þessu máli. Því, sem hv. þm. G.-K. sagði, þarf ég engu að svara, því að hann sagði ekki annað en það, sem hv. 6. þm. Reykv. var búinn að segja á undan honum. Þeim aðvörunum, sem hv. þm. G.K. hafði hér í minn garð, svara ég ekki heldur. Það var sagt af einum hv. þdm. hér á dögunum, að þessi hv. þm. (ÓTh) sæti oft á strák sínum í hans garð. Það var einn samnm. minn úr sjútvn., sem sagði þetta. En ég þarf ekki að gefa yfirlýsingu um þetta, því að hv. þm. G.-K. situr aldrei á strákskap sínum í minn garð hér í þessari hv. d. Þar fyrir sé ég enga ástæðu til þess að deila við hann, af því að hann sagði ekkert annað en það, sem hv. 6. þm. Reykv. er búinn að segja og ég er þegar búinn að svara.