19.11.1934
Neðri deild: 40. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í C-deild Alþingistíðinda. (4542)

131. mál, kaup á hlutabréfum í Útvegsbanka Íslands

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Hv. flm. hefir nú talað alllangt fyrir frv., og hans aðalástæða er sú, að sanngjarnt sé að gera þær ráðstafanir, sem frv. fer fram á. Ég er þar hv. flm. ekki sammála, og skal færa nokkrar ástæður fyrir því. Hv. flm. talaði um, að upphaflega hefði fénu verið safnað og það lagt fram til að bjarga Íslandsbanka, og því hefði því ekki verið varið eins og til var ætlazt af þeim, sem lögðu féð fram, með því að setja það í Útvegsbankann. Mér finnst, að fé hluthafa hafi nú ekki verið verr varið né eigendum óhagkvæmar með því að leggja það í Útvegsbankann. Þar var lagt fram nokkurt nýtt fé sem áhættufé, svo ég held, að sú ráðstöfun sé hluthöfum ekki lakari en sú, sem gert var ráð fyrir, þegar fénu var safnað. Þá segir hv. flm., að ekki hafi náðst til allra og sumir ekki viljað leggja neitt fram. Ég get ekki séð, þó að ekki hafi náðst til allra — e. t. v. fyrir trassaskap — eða aðrir ekki viljað binda þannig fé sitt, að það séu rök fyrir því, að ríkissjóður eigi að taka þetta allt á sitt bak. Þá vil ég benda á, að þetta fé var lagt fram af fúsum og frjálsum vilja, og er kunnugt mál, að það var allt álitið tapað hvort sem var, og þeir, sem lögðu það fram, hafa alls ekki búizt við að fá það endurgreitt. Einnig má fullyrða, að fénu hafi ekki verið verr varið með því að leggja það til Útvegsbankans, þar sem það hefir sama rétt og annað hlutafé, og hafa þeir hluthafar því sama rétt til íhlutunar um stjórn bankans og aðrir hluthafar. En gæti áhrifa þeirra lítið, er það aðeins vegna þess, að þetta fé er svo lítill hluti af öllu hlutafénu. Ég get því ekki séð, að sérstök ástæða sé til þess fyrir ríkissjóð að taka á sig þennan bagga, þegar féð var lagt fram af fúsum vilja og ekki farið verr með það en búizt var við. Þó einhverjir hafi skotið sér undan að láta nokkuð af mörkum, er það engin ástæða fyrir því, að ríkissjóður eigi að taka á sig endurgreiðslu á öllu hinu.

Þá er enn ein stórvægileg ástæða fyrir því að ganga ekki inn á þessa braut, að þeir erlendu aðilar, sem lögðu hlutafé í bankann, munu vafalaust krefjast sömu meðferðar á sínu fé, og verður þá mjög erfitt að standa á móti því. Hér virðist hreint ekki hægt að gera hlutafénu misjafnlega hátt undir höfði, þannig að sparifé hafi meiri rétt en það, sem hv. þm. nefnir spekulationsfé. Hér verður að álíta það jafnrétthátt. Ef það er rétt, sem hv. flm. sagði, að þessir erlendu hluthafar væru nú þegar farnir að gera kröfu til, að fé þeirra í Útvegsbankanum — sem er um 1,3 millj. kr. — sé tryggt á svipaðan hátt og hér er farið fram á, eru það enn ný rök fyrir því að ganga ekki inn á þessa braut. Ég hefi að vísu ekkert á móti, að frv. fari til n., en ég legg alvarlega á móti, að það verði samþ.