22.10.1934
Efri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (462)

10. mál, bráðabirgðaverðtollur

Jón Baldvinsson:

Þó að ég hafi ekki í nál. gert aths. við þetta frv. og frv. til l. um framlenging á verðtolli, þá er það samt ekki svo að skilja, að ég og minn flokkur séum samþykkir þeirri skattaálagningu, sem kemur fram í þessu frv., en við eigum um það að velja og að fella niður þær framkvæmdir, sem nú er gert ráð fyrir í fjárl., og ekki er tími til að undirbúa nýtt fyrirkomulag á þessum tollum, sem unnt væri að koma í gegn á þessu þingi. Það er því sennilega ekki um annað að ræða fyrir þá, sem vilja ekki fella niður allar framkvæmdir næsta árs, en að framfylgja þessum l., enda eru þau ekki nema til eins árs.

Þessa aths. vildi ég láta fylgja þessu frv. fyrir mína hönd og míns flokks.